Þorvaldur Skúlason skrifar:
Kæri Pútin.
Við erum hér nokkrir félagar saman í klúbbi sem kallast LÍÚ, á Íslandi, en það er landið sem þú varst að bæta við á bannlista yfir þær þjóðir sem mega nú ekki flytja inn fisk til þíns heittelskaða lands. Þú kannski kannast við okkur? Við heitum reyndar núna SFS, sem minnir reyndar á nafn á framhaldsskóla á Suðurnesjum sem enginn man eftir, en LÍÚ-nafnið var komið með, eigum við ekki að segja alltof óheppilega, ímynd af okkar frábæra klúbbi sem á allt gott skilið.
Við þekkjum vel til Rússlands og þess sem þar hefur farið fram undanfarna tvo áratugi og við vitum að hann Boris karlinn Jeltsín fór „íslensku“ leiðina við úthlutun auðlinda sem heita áttu í almannaeigu í Rússlandi þegar hann afhenti á mjög svo sanngjarnan hátt ólígörkum helstu gas- og olíuauðlindir landsins á kostnað hins almenna borgara.
Þeir hafa svo getað flutt auðinn óhindrað úr landi og keypt upp hálfa London svo það er ekki pláss fyrir marga aðra. Við höfðum ekki efni á London, en reyndum í gegnum íslensk „spilavíti“ sem nú eru farin á hausinn. Við þekkjum þetta samt vel héðan, enda fengum við sjávarauðlindir þessarar ísköldu eyju afhentar endurgjaldslaust á sínum tíma og það sem betra er – svo áratugum skipti þurftum við ekkert að borga fyrir aðgang að þessari auðlind! Fólk er svo heimskt hérna. Við kunnum þetta líka.
Við höfum verið mjög duglegir við að borga í kosningasjóði þeirra flokka sem eiga að gæta sérhagsmuna okkar, þ.e. flokkar sem kallast Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem er nokkurs konar Pútínflokkur sem spilar mikið inn á þjóðernispopúlisma og vill hreinræktaða Íslendinga á Íslandi.
Hinn flokkurinn er líka mjög líkur þér og vill helst úthluta og einkavæða til vina og vandamanna þó hann segist styðja frjálst framtak fyrirtækja og einstaklinga! (Öflugt dulargervi.) Svona ‘authoritarian’ flokkur að þínu skapi. Mér skilst að fyrrverandi formaður flokksins, sem kann reyndar ekki að hætta, hafi sótt innblástur til Chile á tímum Pinochet.
Þú sérð nú þegar að við eigum margt sameiginlegt. Við höfum haft mjög góð tök á íslenskum stjórnvöldum í gegnum tíðina og létum fella gengið aftur og aftur svo áratugum skipti þannig að við gætum stundað viðskipti við ykkar ástkæra Rússland þó svo það hafi kostað almenning hér allt. Við skiljum þig.
Já, ég meina, þótt þú innlimir nokkur lönd og skjótir niður eina farþegaþotu (svo vitað sé) og látir hálfa Georgíu hafa pening og rússneskan passa svo þú getir endurtekið leikinn í Austur-Úkraínu þá skiptir það ekki máli – Ó, ég gleymdi Krímskaganum.
Jæja, hvað eru nokkur lönd á milli vina?! Enda líka allt svo spillt þar og ekki nema von að þú viljir koma og skakka leikinn og koma þessum spilltu stjórnvöldum frá. Og þetta með hommana og lessurnar … ég meina OMG! Ég vildi óska að við værum að fara leiðina hér! Geturðu ímyndað þér hvað við höfum þurft að þola? Hér var kolvitlaus borgarstjóri sem klæddi sig upp í drag á svokallaðri gleðigöngu í Reykjavík. Hann vildi endilega að þú frelsaðir einhverjar rússneskar rokkstelpur úr fangelsi. En við eigum líka ‘okkar’ mann hér hann Gylfa okkar Ægisson sem hefur verið ötull í baráttunni gegn auknu lýðræði og mannréttindum sumra.
Við vitum líka að þú elskar Ísland og ætlar að leyfa okkur að halda okkar 200 mílna landhelgi – eða er það ekki annars ? Þú ætlar ekkert að fara koma hingað og taka makrílinn af okkur? Heyrðu getum við ekki komist að einhvers konar samkomulagi?
Við höfum, alveg eins og þú, gefið ESB langa fingurinn, notuðum utanríkisstrákinn úr Skagafirðinum sem bréfbera. ESB voru ekkert svo mjög hressir með það og neituðu fyrst að taka við bréfinu og það gekk eins og heitt kol á milli manna þangað til að þeir sögðu OK. En hvað eigum við að gera, Pútin? Ef þú vilt ekki makrílinn okkar, hvert eigum við þá að snúa okkur? Við verðum að skríða tilbaka til Brussel og biðja þá að lækka tolla bara af íslenskum sjávarafurðum út af „sérstöðu“ Íslands meðal þjóða!
Þótt við eigum að heita sjálfstæð fyrirtæki á markaði höfum við alltaf eða oftast getað reitt á okkur stjórnmálamennina sem eru í okkar liði og fengið einkareksturinn ríkisstyrktan! Já, tókstu eftir þessu? Við erum ekki svo vitlausir að geta hirt allan gróðann þegar hann er sem mestur og sagt að það komi engum öðrum við en snúið okkur svo til þjóðarinnar þegar illa árar og sagt að þetta séu sameiginlegir hagsmunir og beðið skattgreiðendur um enn meiri hjálp!
Finnst þér þetta ekki flott leið? Við semsagt deilum tapinu meðal þjóðarinnar og biðjum um skilning og samstöðu en tökum allan hagnaðinn sjálfir. Ekki flott?
En nú lítur út fyrir að hagnaðurinn í fyrirtækinu sem ég á hlut í og gat greitt sér 2,7 milljarða ISK arð geti BARA greitt sér 1,8 á næsta ári allt út af þessu veseni!
Hvað segirðu um að hittast fljótlega yfir einum vodka og ræða málin á skynsemisnótunum? Það er allt falt fyrir rétt verð, Ok?
Ástarkveðja,
LÍÚ.