Gissur Gunnarsson og Ragnar Unnarsson skrifa:
Nú þegar við erum komin vel á veg inn í 21. öldina og upplýsingahraðbrautin inni á hverju heimili er okkur ekki stætt lengur á því að þykjast ekki vita hluti. Við getum öll myndað okkur skoðun um heilbrigðis-, umhverfis-, félags-, fiskveiði- og atvinnumál ef við viljum. Upplýsingarnar eru fyrir hendi. Það kemur okkur öllum við hvernig hið opinbera fer með skattpeninga okkar.
Það koma reglulega upp allskonar hugmyndir um hvað mætti betur fara. Ein hugmynd sem ég heyri æ oftar er „af hverju má ekki koma upp fleiri gróðurhúsum víðsvegar um landið?“ Því oftar sem ég heyri hana því betri verður sú hugmynd. Við erum með hreina orku. Hvers vegna ekki að nýta hana betur í ræktun frekar en að gefa hana?
Álversdraumurinn
Núverandi ríkisstjórn rembist nú eins og rjúpa við staur að koma upp sem flestum álverum á landinu til að skapa atvinnu í bæjarfélögum sem eru fyrir utan Reykjavík. Í hvert sinn sem einhver talar um hversu heimsk sú hugmynd er þá er sá hinn sami talinn standa í vegi fyrir atvinnusköpun á landsbyggðinni og stundum fylgir eitthvað comment eins og „latte lepjandi lopatrefill“ – „101 rotta“ eða „hverju eigum við eiginlega að lifa á? Fjallagrösum?“
En kíkjum á álver sem raunhæfan kost og gefum okkur að þau séu ekki mengandi viðbjóður sem mun skilja eftir sár í náttúru okkar og annarra að eilífu eftir að þau fara á hausinn eða flýja úr landi eftir að álverð hrynur.
Hvað kostar eitt álver? Ég hef heyrt töluna 80 milljarðar. Hvað skapar álver mörg störf? Bakki átti að skapa 200-300 störf. Bygging virkjunar í kringum álver átti að skapa 700 tímabundin störf og einhver 50 störf eftir á. Frábært. Geðveikt. Allir fá vinnu – vúhú!!
Ekki alveg. Álverð er á hraðri niðurleið. Orkan sem þarf til að knýja álverin er ekki til inni á kerfinu og á endanum þarft þú, kæri skattgreiðandi, að borga fyrir byggingu virkjunar sem mun svo til gefa erlendu fyrirtæki (sem borgar ekki skatta hér á landi) orku sem við gætum öll notað í eitthvað allt annað.
Ef að við lítum á atvinnuskapandi kosti aðra en álver þurfum við ekki á nýrri virkjun að halda því það er nóg af orku á kerfinu fyrir eitthvað mikið gáfulegra.
Eins má hafa það í huga að daginn sem ákveðið verður að endurnýta ál að einhverju marki yfir höfuð mun álverð endanlega hrynja, því það þarf ekki nema brotabrot af orkunni sem fór í að búa til álið til að byrja með, til að bræða áldós/bíl/flugvél og endurnýta hana.
Helguvík mun skaffa 200-300 störf við aðstæður sem eru mishollar fyrir starfsmenn og fólk og dýr sem búa í 4 km radius. Álver í Helguvík mun svo þurfa meiri orku en til er inni á kerfinu. Álverið mun skemma náttúruna til lengri tíma og skilar hlutfallslega litlum skatttekjum miðað við stærð.
Ó já, var ég búinn að minnast á að við búum á 21. öldinni þar sem verksmiðjustörf eru á útleið? Vélmenni eru farin að gera hluti hraðari og öruggari en mannfólk. Þannig að 300 störf eru kannski 300 störf í svona 5-10 ár og svo verða þau 40-60 störf við að gera við róbóta og skipta um olíu þangað til að álverðsmarkaðurinn hrynur alveg. Hann er búinn að lækka stöðugt seinasta áratuginn og er ekkert á uppleið. Það sem er jafnvel verra er að þar sem 300 störf verða að 40 störfum þá verður atvinnuleysi á staðnum og álverið getur boðið lægri laun sem fólk yrði að sætta sig við eða að halda áfram að vera atvinnulaust. Þetta er það sem kaninn kallar Lose-Lose situation. Það er ekkert gott við þetta til lengri tíma en eins kjörtímabils. Þetta er jafngildi þess að setja flugvélabensín í Yarisinn þinn til að vinna spyrnukeppni. Þú kannski vinnur þessa keppni en bíllinn er ónýtur eftir á.
Eitthvað annað
Nú ætla ég að koma með hugmynd sem hefur setið á teikniborðinu hjá nokkrum aðilum, bæði erlendum og á Íslandi, og ég vil bera hana saman við byggingu álvers í Helguvík;
Sjáið fyrir ykkur stóru löngu bygginguna sem stendur eins og legsteinn yfir dauðri hugmynd:
Þessar byggingar gætu hæglega orðið eitthvað miklu skemmtilegra, umhverfisvænna og líflegra:
Risagróðurhús, rannsóknarstöð.
Ekki bara hvaða gróðurhús sem er heldur gróðurhús þar sem ræktað er kannabis í miklu magni.
-Rólegan æsing leyfið mér að útskýra: Kannabis er hampur (Cannabis sativa og Cannabis indica), kvenplantan býr til efnið sem er reykt og karlplantan býr til hamp til annarra nota eins og fatnað, eða t.d. trefjablöndu sem hægt væri að nota í bílaboddý. Það er hægt að búa til net, kaðla og í raun allt sem við búum til úr plasti þessa dagana og var gert úr hampi áður fyrr. Við gætum dregið mikið úr notkun plasts á skömmum tíma.
En hvað með kvenplöntuna góðu sem allt „grasið“ kemur úr? Já, hvað með hana? Hana má nota til kannabisreykinga í frístundum frekar en að fá sér einn bjór á föstudegi.
En hún hefur líka annað sem er miklu áhugaverðara: Lækningamátt. Nú hefur læknir að nafni Sanjay Gupta á vegum CNN sem fór með það fyrir augum að „afhjúpa” kannabis sem dóp og virkni þess sem bull snúið skoðun sinni við. Hann er orðinn einn af talsmönnum kannabis til lækninga eftir að hann sá virkni þess á sjúklinga sem voru að jafna sig eftir krabbameinsmeðferðir og virkni kannabisolíu á flogaveika. Ég skora á fólk að skoða sérstaklega sögu Charlotte Figi sem læknirinn heimsótti. Charlotte þjáðist af síendurteknum flogaköstum sem hurfu við inntöku kannabisolíu. Sama má segja um Jayden David sem þjáist af Dravet syndrome og fékk á bilinu 200-300 köst á dag sem hættu næstum því samstundis eftir inntöku kannabisolíu. Menn hafa í mörg ár talað um virkni kannabis við krabbameini og núna nýlega gáfu krabbameinssamtök Bandaríkjanna út að kannabis hefði virkni gegn krabbameini.
Ég gæti komið með miklu fleiri greinar og dæmi til að styðja málstað kannabis bæði sem lækningarlyfs og líka sem efni til frístundanotkunar. Samanburðurinn á til dæmis áfengi og kannabis er frekar einhliða í áttina að því að áfengi ætti frekar að vera ólöglegt en kannabis. Það eru læknar og sérfræðingar sem hafa sagt það í mörg ár, sbr. David Nutt sem var ráðgjafi fíkniefnaráðs Bretlands í mörg ár. Hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í fyrra. Fyrirlesturinn má nálgast hér.
En ok, ég ætla ekki að rekja ástæður fyrir því af hverju við ættum að lögleiða kannabis (sem við ættum að gera) heldur erum við bara að tala um bissness hér. Álver vs. gróðurhús.
Gróðurhúsið í Helguvík
Hér kemur hugmyndin. Tökum Helguvík og gerum gróðurhús og rannsóknarstöð sem skiptist í læknakannabis og iðnaðarhamp.
Á hamphliðinni er rannsakaður og ræktaður hampur úr tegundum sem best gæti nýst til að framleiða hamp-prótín (Hamp prótein er ofurfæða skv. skilgreiningu bókarinnar Superfoods eftir David Wolfe). Hægt væri að rækta upp ákveðna eiginleika plöntunnar þannig að hún nýtist betur í byggingaefni, bílahluta-, kaðla-, fatnaðargerðar o.fl. Þarna þyrfti mannskap með líffræðimenntun, efnafræðimenntun, genafræðimenntun, fólk úr Landbúnaðarháskólanum myndi fá hátt launaða vinnu þar sem það yrði algerlega ómissandi. Þetta myndi líka vera atvinnutækifæri fyrir ómenntað verkafólk þar sem uppskerur og umhyggja í kringum plöntur er nauðsyn. Þarna væri hægt að rækta mörg tonn af nýtilegum iðnaðarhampi til útflutnings á mánuði ásamt því að vinna að fullunnum hampvörum.
Nú þegar nota Mercedez Benz og BMW iðnaðarhamp í einangrun í bílana sína með góðum árangri. Svo hér er kannski ekki um svo byltingarkennda hugmynd að ræða. Í Bretlandi hefur um árabil verið ræktað kannabis til að framleiða lyf úr og eru seld vítt og breitt.
Á læknakannabis-hliðinni þyrfti lækna, fólk með líffræðimenntun, efnafræðimenntun, genafræðimenntun o.s.frv. Þar færu fram rannsóknir á tegundum og virkni þeirra sem lyf eða hjálparlyf gegn hinum ýmsu kvillum. Það eru læknar og líffræðingar úti um allan heim sem eru áhugasamir að rannsaka kannabis í þaula en geta það ekki vegna laga í löndum sem þeir búa. Hér gætum við endanlega svarað spurningum sem eru búnar að vera á vörum okkar í áratugi. Það væri hægt að fullkomna virkni kannabisolíu þannig að aðeins það hreinasta væri eftir. Það er bara vísindahlutinn. Reyndar þekki ég nokkra vísindamenn sem hafa lýst yfir áhuga á að vinna að þessum málum hér á landi.
Kannabis er löglegt í mörgum ríkjum BNA þannig að framleiðsla til útflutnings væri rakið dæmi. Það mætti framleiða mörg tonn af hágæða hreinu kannabis til útflutnings mánaðarlega þó ekkert af því færi inn til Íslands. Það var bruggaður bjór hér í áratugi til útflutnings fyrir herinn á meðan bjórinn var bannaður. Af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi? Í kringum útflutninginn þyrfti pökkunardeild, flutningsdeild, öryggisdeild og hægt væri að flytja lækna/frístundahamp út í ómældu magni. Jafnvel með beinu flugi til Colorado þar sem hefur orðið vart við skort á kannabis síðan fólk fékk frelsi til að nýta hann.
Förum aðeins yfir þetta:
Samkvæmt opinberum tölum er Helguvíkurálverið um það bil 90.000 fermetrar og meðal lofthæð upp á 15 metra. Svo aðra 50.000 fermetra í eitthvað sem kallast geymslusvæði. Sleppum geymslusvæðinu og þeim 3.800 fm sem eru kallaðir skrifstofur og starfsmannaaðstaða og þá erum við komin með nokkuð góða mynd á hversu vel er hægt að nýta svæðið. Samkvæmt Google þá er talað um 3-5 plöntur per fermetra og gefum okkur að við höfum gott athafnasvæði fyrir rannsóknir og annað. Köllum nýtilegt svæði 80.000 fm og 3 plöntur á fermetra. Það eru 240 þúsund plöntur á hverjum gefnum tíma ef við erum bara með eina hæð í stað 3-4 hæða sem ætti auðveldlega að vera hægt að gera. 12-14 vikur frá byrjun til uppskeru og gefum okkur 100 grömm per plöntu sem er lágt miðað við að það væru fagmenn sem yrðu að vinna þetta. Það gera 24 tonn af hampi á þriggja mánaða fresti við aðstæður sem hvaða skipulagshálfviti sem er gæti sett saman sem „worst case scenario“.
Grammið kostar $10 á opnum markaði í BNA og við yrðum að flytja þetta þangað, þannig að segjum $2 á grammið sinnum þúsund grömm í kílóinu sinnum 240.000. Það eru svo mikið sem 62 og hálfur milljarður króna á þriggja mánaða fresti miðað við að allt færi í gras. En við ætlum að vera með helminginn í iðnaðarhamp þannig að segjum rúmlega 31 milljarður við verstu aðstæður. Jafnvel þótt við helminguðum þær tölur þá væru það samt 5,2 milljarðar á mánuði við verstu aðstæður. Og ég er ekki að reikna söluhagnað af iðnaðarhampi ofan á það en kanadískir bændur hafa verið að sýna góðan hagnað af framleiðslu sinni undanfarin ár. Allar tölur hér fyrir ofan eru lægsta mögulega gildi sem ég fann og gerir ráð fyrir að pláss sé illa nýtt, ræktun taki sem lengstan tíma (það mætti auðveldlega helminga ræktunartíma) og að við myndum fá ⅓ af uppskeru sem meðal ómenntaður ræktandi er að fá.
En nóg um gróða. Tölum um störf. Hamp-gróðurhús í samanburði við álver myndi skapa fleiri störf sem færu ekkert, vegna eðli ræktunarstarfa. Svona batterí myndi auðveldlega skaffa 200 hátæknistörf og 100-200 mismunandi önnur vel borguð störf bara innanhúss. Það yrði að vera sæmilega mikil öryggisgæsla þarna allan sólahringinn þannig að bara það eru 50+ störf miðað við vaktir 24/7. Þannig að 300-400 störf. Nú, Norðurál reiknaði með 700 afleiddum störfum í þjónustu við álverið fyrir utan þau 300 sem verið átti að skaffa. Með útflutningi, vinnslu og geymslu hamps myndu önnur störf verða bílstjórar á flutningabílum, kranamenn, sjómenn og önnur afleidd störf. Kannski ekki 700 eða kannski fleiri. Þjónusta við risafyrirtæki ætti að skaffa nokkur hundruð störf. Róbótar geta ekki framkvæmt mikið af þeim hlutum sem yrðu gerðir þarna inni. Náttúruáhrifin yrðu sama og engin miðað við álver og langmestur peningurinn sem inn kæmi af framleiðslu færi út í hagkerfið aftur í formi skatta og eyðslu starfsmanna í hagkerfinu okkar en ekki á einhverja eyju í Karíbahafinu. Orkuþörfin yrði hundrað sinnum minni en hjá álveri og við værum í forystu á líftækniiðnaðinum á heimsvísu. Álver í Helguvík mun þurfa 3,8 Terravattastundir í rekstur á ári, en til viðmiðunar þarf stærsta gróðurhús í heimi, The Eden Project, aðeins 4 megavött.
Niðurstaða
Kalt mat – þetta er „no brainer”. Hvernig sem á það er litið mun kannabisverksmiðja alltaf sigra álverksmiðju og er líka miklu skemmtilegra fyrirbrigði.
Annað; líklegt er að bæjarbúar í Reykjanesbæ verði fegnir að það þurfi ekki að rýma nærliggjandi byggðir vegna mengunarhættu sem stafar af þynningarsvæði álvers.
Landsnet þarf ekki að misbjóða Reykjanesskaganum með svívirðilegum hætti með risa rafmagnslínum þvert á vilja íbúa og náttúruverndarsamtaka. Að sleppa því hefði ýmsar jákvæðar afleiðingar sem við verðum að taka inn í reikninginn. Er hækkandi hamingjustuðull þjóðar ekki meira virði en skammtímagróði?
Eina sem vantar er áhugi og leyfi stjórnvalda til að efna til viðræðna við aðilana sem halda utan um stóra tóma húsið við Helguvík. Við höfum nóg af fólki hér á landi til að fá bestu mögulegu þekkingu innanborðs og við höfum viljann til að láta þetta verða að veruleika. Það væri jafnvel hægt að stofna hlutafélag um þetta og hleypa landsmönnum í hlutafjárútboðið.
Eða eins og einn viðkomandi aðili sagði við mig:
– „this is a plantastic idea!”
Jafnvel þótt þér, kæri lesandi, finnist öll þessi hugmynd mín fáránleg og algerir draumórar þá er hún samt miklu betri hugmynd en annað álver. Og það veistu.