Ég borða ekki gulrætur, hef aldrei gert og var alveg viss um að ég myndi aldrei gera það. Svona svipað og með blómkál og brokkolí sem ég borða með bestu lyst í dag.
Allavega ákvað ég að prófa að útbúa gulróta franskar fyrir krakkana um daginn. Átti svo fallegar og stórar gulrætur í kælinum.
Ég verð að játa að þetta kom skemmtilega á óvart. Meira segja ég borðaði þær með bestu lyst og smakkaðist eins og sætar kartöflur.
Hér finnur uppskriftina: Kjúklinganaggar
Gulróta franskar
8 stórar gulrætur, skræla og þrífa
2 msk. olía, ég var með Avocado olíu
2 msk. timian eða rósmarín
1 msk. salt
1/2 tsk. pipar
1/2 tsk. paprikukrydd
Skerið gulræturnar í strimla og setjið í skál.
Setjið krydd og olíu í skálina og blandið vel saman við gulræturnar.
Raðið gulrótum á bökunarpappír og bakið þær á 200 gráðum í 20–25 mínútur.
Gott er að snúa þeim við einu sinni til tvisvar á meðan þær eru í ofninum.