„Það þarf svo sem ekki að segja meira“, sagði ungur blaðamaður sigri hrósandi á Facebook síðunni minni morguninn sem forsíða Fréttablaðsins var undirlögð af fréttatilkynningu frá Menntamálastofnun um neikvæð áhrif innleiðingar byrjendalæsis í grunnskólum.
Hver starfsstétt hefur sinn atvinnusjúkdóm og eflaust marga. Háskólakennarar þjást iðulega af heilkenni sem lýsir sér í því að þeim finnst þeir bera ábyrgð á þekkingu og færni fyrrverandi nemenda sinna, jafnvel þótt árin líði hvert af öðru. Stundum er freistingin að reyna að bæta fyrir það sem augljóslega misfórst í kennslunni nánast óbærileg.
Í fjölmiðlafárviðrinu um meint neikvæð áhrif byrjendalæsis á læsi skólabarna reyndi ég þannig að benda starfandi blaðamanni sem eitt sinn var nemandi minn á villandi framsetningu gagna frá opinberri stjórnsýslustofnun menntamála, og reyndi að hvetja hann til að spyrja gagnrýnna spurninga um þá hagsmuni sem deiluaðilar hefðu í málinu.
Í nútímasamfélagi er gagnalæsi ekki síður mikilvægt en textalæsi, og það er skemmtilega írónískt að harðar deilur um textalæsi barna skuli hverfast um skort á gagnalæsi meðal fullorðinna.
Tímaraðir táldraga hugann
Mannskepnan hefur gríðarlega háþróaða sjónskynjun sem slípast hefur í þúsaldalangri baráttu við gómsæta bráð og tannhvöss rándýr. Við höfum þannig hæfileika til að túlka afar takmarkað sjónrænt áreiti og draga af því ályktanir sem skilið geta milli feigs og ófeigs.
Tölur eru ein leið til að túlka fjölbreytileika umhverfisins og tölfræðin getur hjálpað okkur að túlka gríðarlegt magn gagna á skilvirkan hátt. Sjónskynjun okkar ræður hins vegar ekki vel við að túlka langar talnaraðir og því eru myndir skilvirk leið til að koma miklu magni tölfræði upplýsinga á framfæri.
Af sömu ástæðu er jafnframt muna auðveldara að afvegaleiða lesendur með myndum af tölum en með tölunum sjálfum. Þetta reyna kennarar í félagsvísindum að kenna nemendum sínum, en það er ekki alltaf auðvelt.
Á þessari mynd má sjá tímaröð frá 1975 til 2015. Það er ágæt æfing að velta henni fyrir sér og reyna að giska á hvað þetta geti verið. Er þetta fjöldi ferðamanna? Klamydíusýkingar? Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja? Hjálmanotkun í skíðabrekkum landsins? Dagblaðagreinar um jarðgöng?
Þessi mynd er raunar nákvæm lýsing á því þegar ég kastaði tíkalli fjörutíu sinnum upp í loftið við eldhúsborðið heima hjá mér fyrr í morgun. Ég byrjaði með töluna tíu og í hvert sinn sem loðnurnar komu upp bætti ég við einum. Í hvert sinn sem skjaldamerkið kom upp dró ég einn frá.
Hér er á ferðinni eitt af skemmtilegri fyrirbærum tölfræðinnar sem kallast „random walk“ eða tilviljunarrölt eins og það er stundum kallað á Íslensku. Slíkar tímaraðir geta rölt talsvert langt frá upphafi sínu og myndað há fjöll og djúpa dali.
Það er hins vegar engin dýpri merking á bakvið þær, önnur en sú sem villidýrsheili mannskepnunar spinnur til að geta brugðist við óræðum aðstæðum.
Lesskilningur barna
Lestrarnám barna er afar fjölþætt og áhugavert viðfangsefni sem skiptir miklu máli fyrir velferð þeirra og framtíð. Þar koma saman margir ólíkir líffræðilegir, sálfræðilegir, félagslegir og menningarlegir þættir og útkoman er afar ólík frá einum einstaklingi til annars. Eitt barn klárar fyrstu bókina af Harry Potter fyrir áramót í fyrsta bekk meðan annað er enn að erfiða við að finna út hvað Sísi sá í raun og veru.
Með sama hætti getur útkoma bekkja, skóla og landa verið mjög mismunandi og ólíkir þættir haft mikil áhrif á mismunandi tímum og í mismunandi löndum.
Einstakir kennarar geta vitaskuld verið meðal þeirra þátta sem hafa mikil áhrif á útkomuna, og mismunandi aðferðir við lestrarkennslu er verkfærin í verkfærakassa þeirra.
Stjórnmálamenn hafa skiljanlega áhyggjur af því að lesskilningur íslenskra barna sé lakari en meðal þjóða sem standa sig best. Stöðluð alþjóðleg próf eru einfaldir tölulegir mælikvarðar á gríðarlega flókinn veruleika og myndir af niðurstöðunum eru auðskiljanlegar villidýrsheilanum.
Besta leiðin til að íslensk börn standi sig vel á stöðluðum prófum í lesskilningi er að þjálfa þau í próftöku og láta þau taka nógu mörg slík próf áður en kemur að alþjóðlega prófinu. Það er hins vegar ekki víst að það sé rétta leiðin til að vekja áhuga og lestrargleði barna, né heldur að varpa birtu á æskuár þeirra.
Þessa dagana fer menntamálaráðherra um landið og safnar undirskriftum sveitarstjórnarmanna á „þjóðarsáttmála“ um lestraraðferðir sem hámarka eiga árangur íslenskra barna á stöðluðum lestrarprófum. Undir duna deilur um árangur þeirrar aðferðafræði sem rutt hefur sér til rúms í grunnskólum landsins og byggir á mun breiðari sýn á tilgang og árangur lestrarkennslu.
Neikvæð áhrif byrjendalæsis
Á eftirfarandi mynd má sjá greiningu Menntamálastofnunar og umfjöllun Fréttablaðsins 20. ágúst sl. um áhrif byrjendalæsis á námsárangur í stærðfræði, íslensku og undirþættinum lesskilningi. Byggt er á niðurstöðum samræmdra prófa í 4. bekk í þeim 38 skólum sem innleiddu byrjendalæsi í 1. og 2. bekk fyrir fjórum árum eða meira.
Aðferðafræðilega er óheppilegt að ekki sé um að ræða mælingar á framförum nemenda frá 1. til 4. bekkjar heldur aðeins staðlaður samanburður milli skóla á nemendahópum í 4. bekk. Sú tæknilega umræða verður þó ekki rakin hér heldur einungis fjallað um hina myndrænu framsetningu.
Menntamálastofnun byggir greiningu sína á nemendum í öllum skólum sem tekið hafa þátt í byrjendalæsi í fjögur ár eða meira og notar árangur síðustu fjögur árin áður en byrjendalæsi er tekið upp sem samanburðarhóp. Niðurstaðan er sú að við innleiðingu byrjendalæsis versni frammistaða í lesskilningi um 1,2 stig á 60 punkta kvarða eða sem samsvarar 0,2 á skalanum 0 – 10.
Ekki er hægt að sannreyna greiningu Menntamálastofnunar fyllilega þar sem hún hefur ítrekað neitað að láta nafnlaus einstaklingsgögn af hendi. Hins vegar hefur stofnunin látið af hendi meðaltöl fyrir skóla ef árgangar eru yfir ákveðinni stærð.
Þau gögn sem hægt er að nota til að leggja mat á niðurstöður Menntamálastofnunar eru því götótt og vantar nokkra skóla eða einstök ár fyrir tiltekna skóla þar sem fjöldi í árgangi fór niður fyrir viðmið sem Menntamálastofnun hefur sett sér um að láta frá sér meðaltöl.
Engu að síður er hægt að reikna meðaltöl skólanna sem innleitt hafa byrjendalæsi og eru nógu stórir til að gögn séu til staðar. Þau meðaltöl fyrir skólana í heild eru nálægt niðurstöðum Menntamálastofnunar sem byggir á öllum einstaklingum og duga til að átta sig á því hvernig gögnin voru matreidd af hálfu stofnunarinnar.
Fyrir og eftir byrjendalæsi
Myndin hér að neðan sýnir sveiflur í meðaltali byrjendalæsisskólanna frá því fimm árum fyrir innleiðingu aðferðarinnar og þar til fimm árum eftir innleiðinguna. Ár innleiðingar er því árið 0 í þessari greiningu. Innleiðingin fer fram á mismunandi árum svo ekki er um tiltekin ártöl að ræða.
Rauða línan sýnir meðaltal skólanna á hverju ári en grænu punktarnir samanburðarpunkta Menntamálastofnunar. Eins og sjá má er meðaltal fjögurra ára fyrir innleiðingu hærra en fjórum árum eftir inleiðingu.
Jafnframt tekur villidýrsaugað eftir því að skólarnir virðast standa sig best árið áður en byrjendalæsi er innleitt, mun betur en árin á undan og eftir. Er þetta svokallaður „Hawthorn effect“ þar sem árangur stofnana batnar við það að starfsmenn taka þátt í breytingarferli? Eða eru gögnin á rölti eftir tilviljunarstíg?
Útkoman er marktækt lægri eftir innleiðinguna en sú marktækni er alfarið tilkomin vegna þess að útkoman er óvenjulega góð síðasta árið fyrir innleiðingu. Það er svolítið ringlandi áfellisdómur yfir aðferðinni…
Frammistaða eftir innleiðingu byrjendalæsis
Þessi mynd sýnir frammistöðu skólanna eftir innleiðingu byrjendalæsis, en innleiðingarárið er auðkennt með gulum punkti. Brotalínan sýnir meðaltal sex ára að innleiðingarárinu meðtöldu.
Svo virðist sem frammistaðan sveiflist tilviljunarkennt í kringum meðaltalið en batni hvorki né versni eftir því sem skólarnir ná betri tökum á hinni umdeildu aðferð. Jafnframt virðist sem neikvæð þróun áranna á undan (að árinu -1 undanskyldu) hafi stöðvast.
Jafnframt kann villidýrsauganu að sýnast að sveiflur milli ára minnki eftir innleiðingu byrjendalæsis. Niðurstaðan á stöðluðum lestrarprófum sé lægri en jafnari en áður var. Hugurinn tekst auðveldlega á flug – leiðir aðferð sem hefur margvísleg markmið til eilítið lægri útkomu á einu tilteknu markmiði, frammistöðu á stöðluðu prófi? Skilar aðferðin jafnari árangri, þannig að sveiflur milli árganga minnki?
Eða eru gögnin á rölti eftir tilviljunarstíg?
„How to lie with statistics“
Ein af mínum uppáhaldsbókum er hin klassíska „How to lie with statistics“ frá 1954. Ég gleymdi henni á Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála vorið 1992 en sú stofnun varð síðar Námsmatsstofnun og nú síðast Menntamálastofnun. Ég hef grun um að bókin sé komin í leitirnar.
Í þessari frábæru bók lýsir blaðamaðurinn Darrell Huff helstu brellum sem hægt er að nota til að afvegaleiða lesandann við framsetningu tölfræðilegra gagna. Ein besta brellan er sú að nota ekki allan lóðrétta ásinn og ýkja þannig gögnin eins mikið og þurfa þykir.
Vitaskuld geta verið góðar ástæður fyrir því að stytta lóðrétta ásinn svo auðveldara sé að skoða litlar hreyfingar á línu sem breytist annars lítið. Þannig er til dæmis hægt að sýna tvær eða þrjár staðalvillur frá meðaltalinu í stað þess að sýna allan ásinn. Þessu má líkja við það að fara með smásjá á gögnin.
Slíkar tæknilegar tilfæringar eru hins vegar afar blekkjandi þegar þær eru settar fram án heildarmyndarinnar. Næsta mynd sýnir þannig sömu gögn og myndirnar á undan, nema allur kvarðinn frá 0 og upp í 60 stig er sýndur. Sem fyrr er innleiðingarárið sýnt með gulum hring.
Það má ýmislegt segja um þessa mynd en eitt er líklega öruggt. Hún hefði seint ratað á forsíðu Fréttablaðsins.
Frá sjónarhóli barna skiptir mestu máli frammistaða á prófi þar sem einstaklingur getur fengið á bilinu 0 og upp í 60 í einkunn. Frammistaða einstakra barna rokkar upp og niður þann skala en innleiðing byrjendalæsis er ekki mikilvægur áhrifaþáttur í því. Meðaltal þessara skóla er einfaldlega rétt um 30 – sem er meðaltal allra nemenda á landinu.
Hvar stöndum við þá?
Eftir að hafa verið táldregin af áhugaverðum myndum er niðurstaðan því miður fremur hvunndagsleg. Hvað frammistöðu í stöðluðu lesskilningsprófi virðist það ekki skipta einstaka nemendur miklu máli hvort þeir töku prófið í skóla þar sem byrjendalæsi er beitt í 1. og 2. bekk.
Í öllum skólum eru sumir byrjaðir á öðru bindinu af Harry Potter meðan aðrir hafa loksins komist að því að Sísí sá sól en eru óvissir hvað það er sem Óli á eiginlega. Verkefni kennaranna er því ennþá erfitt og mikilvægt að þeir fái sjálfir að velja verkfærin í sinn verkfærakassa.
Persónulega hef ég sætt mig við það að stundum er fljótlegra að henda gömlum nemanda út af Facebook en að reyna að ljúka því verki sem misfórst fyrir mörgum árum.