Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Stolt og sterk þjóð býr vel að þeim elstu og yngstu

$
0
0

Ræða Katrínar Júlíusdóttur við upphaf 145. löggjafarþings þann 8. september 2015

„Kæru Íslendingar

Stolt og sterk þjóð býr vel að þeim elstu og yngstu. Hjá henni eru jöfn tækifæri til menntunar sjálfsögð. Þar er jafn aðgangur að öflugri velferðar- og heilbrigðisþjónustu sjálfsagður. Og þar er enginn skilinn eftir í gildrum fátæktar.

Sú er sýn okkar jafnaðarmanna.

Í vetur bíða okkar ærin verkefni í þinginu og ætla ég að nefna fáein þeirra sem við jafnaðarmenn leggjum mikla áherslu á að verði að veruleika. Ýmis önnur mál nefna félagar mínir Árni Páll og Sigríður Ingibjörg í ræðum sínum hér í kvöld. Allt eru þetta raunhæf verkefni sem við vonumst til að samstaða geti náðst um svo við tryggjum að Ísland verði góður valkostur til búsetu nú og í framtíðinni.

Byrjum á heilbrigðismálunum: Jafn aðgangur að heilbrigðiskerfinu er grundvallarstef jafnaðarstefnunnar. Þar kaupir sig enginn fram fyrir biðröð af því að hann er efnaður. Jafnt aðgengi óháð efnahag er grundvallaratriði í verðleikasamfélagi jafnaðarmanna. Við jafnaðarmenn viljum sjá miklar breytingar á sviði heilbrigðismála á komandi misserum og vonum að um þessar tillögur geti náðst góð samstaða hér í þinginu í vetur – vil ég hér draga fram sérstaklega fjögur atriði:

Í fyrsta lagi þarf að auka fjárframlög til sjúkrahúsanna í landinu. Staða sjúkrahúsanna er ekki nógu góð. Þau eru ekki að fá nægjanlega fjármuni til að standa undir auknum verkefnum sem fylgir þjóð sem er að eldast og hinum nýtilkomna gríðarlega straumi ferðamanna til landsins. Þannig erum við ekki að búa okkar framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki besta mögulega aðbúnað til að sinna sínum störfum.

Í öðru lagi þarf að setja meiri kraft í byggingu nýs landsspítala. Ég held að enginn velkist í vafa um að í þá byggingu þurfi að ráðast ef við ætlum að reka hér heilbrigðiskerfi í fremstu röð. Aðbúnaður sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks við óbreyttar aðstæður er algerlega óviðunandi.

Í þriðja lagi þarf að endurskoða ákvarðanatöku þegar kemur að lyfjagjöf eða það sem kallað hefur verið S-merkt lyf. Hvernig má það vera að kvóti sé á því hversu margir geti fengið ýmis nauðsynleg lyf? Hvernig má það vera að peningar ráði för þegar kemur að ákvörðun um lyfjagjöf vegna lifrarbólgu C – dæmi sem vel þekkt er orðið – en ekki faglegt mat á því hvað er best fyrir sjúklinginn? Þetta er óásættanlegt og því þarf að breyta.

Í fjórða lagi þarf að efla heilsugæsluna og aðgengi að henni auk heimahjúkrunar í samstarfi við sveitarfélögin.

Kæru Íslendingar

Ætla mætti að þegar ríkisstjórn er í þeirri stöðu að telja sig hafa ráð á því að losa sig við tekjur af veiðigjöldum, losa sig við auðlegðarskatt og raforkuskatt af stóriðju þá hefði hún ráð og líka rænu á því að búa hér vel að heilbrigðiskerfinu. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er rænuleysið hinsvegar hrópandi. Ekki er farið af nægjanlegum krafti í byggingu nýs LSH. Aukningin til heilbrigðiskerfisins er að miklu leyti til komin vegna samninga við sérfræðilækna en 32,6% aukning er á milli ára í framlögum til þeirra á meðan aukningin til LSH nær rétt fjórðungi af þeirri aukningu. Upp úr stendur að ríkisstjórnin leggur til að áfram fái fólk sem veikt er af erfiðum sjúkdómum ekki bestu lyfin. Lyf sem geta breytt lífi þeirra. Lyf sem sjúklingar í nágrannalöndum okkar eru að fá. Og áfram verða kvótar á því hversu margir geta fengið ýmis lyf.

Við jafnaðarmenn höfnum þessari stefnu hægristjórnarinnar í heilbrigðismálum og skorum á þingið allt að ná samstöðu um stórátak á sviði heilbrigðismála á þessum vetri.

Kæru Íslendingar

Í aðdraganda síðustu kjarasamninga tókum við jafnaðarmenn heilshugar undir kröfuna um 300.000 kr. lágmarkslaun. Nú tökum við undir hana að nýju með lífeyrisþegum sem við getum ekki skilið eftir úti á berangri í gildru fátæktar. Þeirra krafa um 300.000 kr. lágmarkstekjur er ekki bara sanngjörn heldur svo fullkomlega eðlileg þegar litið er til þess hvað það kostar að reka sig og sína í íslensku samfélagi.

Er einhver hér inni í þessum sal sem treystir sér til að reka heimili og allt sem því fylgir fyrir 192.021 kr. á mánuði? En 219.384 kr. ? Þetta eru dæmi um þær tekjur sem við bjóðum okkar elstu borgurum uppá að lifa við. Til eru dæmi um lægri tekjur og hærri tekjur. Sama má segja um öryrkja sem ekki eiga neitt val eða möguleika á lífsbjörg með öðrum hætti en að treysta á okkur – samfélagið sitt. Þeir ná einfaldlega ekki endum saman. Þessu verðum við að breyta. Við viljum ekki hafa þetta svona.

Við jafnaðarmenn höfum því lagt fram tillögu um hækkun lífeyris í að lágmarki 300.000 kr. sem ég vona að samstaða náist um hér í þinginu.

Kæru Íslendingar

Við samfylkingarfólk vonumst til að eiga við ykkur ánægjulegt samstarf í vetur og hlökkum til samstalsins við ykkur um leiðina fram á við.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283