Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mamma er dauð! Lengi lifi mamma!

$
0
0

Á yfirborðinu er Móðurharðindin einfaldur farsi, en þegar rýnt er í móðu(ri)na er eins og þar dyljist ýmislegt bitastæðara.

Söguþráðurinn er einfaldur: Fjölskyldufaðirinn er látinn, börnin mæta heim á ættaróðalið til að hola hinum látna í gröfina og þá koma nú alldeilis hlutir upp á yfirborðið. Ættmóðirin er sú sem raunverulega stjórnar þessari (marg)brotnu fjölskyldu. Hún er mögnuð örvaskytta og sendir pílur í allar áttir og margar samtímis, drifkrafturinn á stundum óljós, en það sem rekur hana áfram er meðal annars framhjáhald eiginmannsins, botnlaus vonbrigði yfir eigin lífi og taumlaus mannfyrirlitning. Það er fátt í hennar fari sem gleður börnin eða þögla þjóninn Snæbjörn. Né heldur séra Svalbrand sem af veikum mætti reynir að tína saman nothæf brot í útfararræðuna en fær enga hjálp hjá ekkju eða börnum.

Það er skelfilegt ástand í þessari aumu fjölskyldutætlu; enginn elskar annan og öllum er sama um alla. Nema sjálfa sig, sem er greinilegast í fari móðurinnar. Hún stjórnar samskiptum innan og utan fjölskyldunnar eins og miskunnarlaus harðstjóri og af henni stafar mannfyrirlitning, ástleysi og hatur.

_MG_1169

Og samt verður hún svo óstjórnlega fyndin. Kjartan Guðjónsson leikur móðurina og það er greinilegt að hún á sér fyrirmynd. Þessi kerling er til. Stjórnsöm og frek og heimtar forgang í öllum mannlegum samskiptum. Þær voru óborganlegar, senurnar í kirkjunni, þegar verið var að kistuleggja og jarða og skal engu spillt fyrir væntanlegum áhorfendum með því að kjafta frá – bara bent á að horfa á hendur Sigga Sigurjóns!

Kannski það hafi verið ætlun höfundar og leikstjóra, Björns Hlyns Haraldssonar, að skopast bara að öllu saman og skapa kátlegan farsa. Slá öllu upp í grín, enda sagan og karakterarnir eins ýkt og hugsast getur. Það tekst vel. En farsann hefði mátt vinna betur, gefa fleiri persónum leyndarmál og skuggalegar fyrirætlanir í kjölfar dauða ættföðurins, því hér blasir við þétt farsaflétta: hvaðan kemur þjónninn Snæbjörn? Af hverju lafir hann eins og lufsa á þessu heimili, hvað telur hann sig eiga inni? Sigurður Sigurjónsson fer á kostum í hlutverki Snæbjarnar og vekur ósvikinn hlátur í vel fókuseruðum leik. Það er auðvelt að fara offari í þöglu hlutverki en Sigurður sannar enn að hann er einn okkar snjallasti gamanleikari.

_MG_1774

Hvaðan kemur dóttirin, lögfræðingurinn María? Hvað á hún að baki áður og eftir að hún flutti að heiman? Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer fallega með Maríu og það má spyrja af hverju hún er svo karlmannslaus og einmana – og maður þá næstum genginn í lið með mömmu gömlu og það vill maður alls ekki!

Screen Shot 2015-10-28 at 12.05.02

 

Árni Pétur Guðjónsson er flottur í hlutverki hinn forsmáða sonar Arnmundar, með kynhneigðina sem móðirinn forðast eins og pestina að viðurkenna. Maður skilur mætavel af hvaða rótum sálarflækjur hans eru komnar, en hvaðan kemur honum þolinmæðin gagnvart mömmu? Og blessaður presturinn, ágætlega pokalegur í meðförum Hallgríms Ólafssonar, fær undirfurðulegustu jarðarför ferils síns að annast – hefur hann ekki eitthvað safaríkt í skáp sem úr mætti gera einhvern mat?

Það má vissulega velta þessu fyrir sér, en það breytir því ekki að Móðurharðindin er skemmtileg sýning og margt kostulegt að hlæja að, jafnvel með tilheyrandi bakföllum. Og takk fyrir það.

Búningar Axels Hallkells og Leilu Arges eru ágætir og þjóna sögunni og karakterum, leikmynd Axels vel unnin en hvort tveggja geldur þess að leikstjóri hefur fallið fyrir frekar ódýrum klisjum hryllingskúltúrsins – mér finnst ekkert að græða á þrumum og eldingum og köngulóarvef og þótt bæði lýsing og hljóð sé ágætlega unnið er hvort tveggja á skjön við það sem ætti að vera hápunktur sýningarinnar og skal nú vikið að honum:

Það er eins og einn leikari geri nokkra uppreisn gegn hinum yfirborðslega farsa og hafi jafnvel nokkurn stuðning til þess í handriti. Það er nefnilega eins og eitthvað bitastæðara dyljist í sögunni og höfundur hugsi útfyrir ramma farsans, en leikstjóri þori ekki að fara alla þá leið.

_MG_1233

Kjartan Guðjónsson vinnur ótvíræðan leiksigur í hlutverki móðurinnar frú Friðriku. Hlutverkið er ein gígantísk klisja frá upphafi til enda og það ætti að vera nánast vonlaust að gæða svo ýkta og ótrúlega persónu holdi og blóði. En Kjartan vekur skilning á orðum hennar og gjörðum, sársauka og kvöl. Það er galdur sem vekur furðu og aðdáun, því frú Friðrika er svo sannarlega viðurstyggileg. Það dylst engum að hún stjórnar umhverfi sínu með frekju, ofstopa, fautaskap, andstyggð, rangindum, dónaskap, lygum, ósanngirni, virðingarleysi, heimsku, sjálfselsku, skeytingarleysi og taumlausri mannfyrirlitningu … já, frú Friðrika kann sér engin takmörk þegar kemur að því að gera lítið úr börnum hennar og öllum öðrum í hennar umhverfi. Er hægt annað en skopast að svona andstyggilegri manneskju og móður? En Kjartani tekst að láta okkur finna til með henni!

Rétt áður en kemur að síðasta þætti Móðurharðindanna erum við farin að skilja þessa harðskeyttu og hjartalausu konu, jafnvel farin að finna fyrir væntumþykju í hennar garð, aumkunarverðri og brjóstumkennanlegri. Við skynjum að hún er vonarlaus fangi í eigin grimmd. Það eru sannarlega óhugnanleg örlög og hér eru hvörf í sýningunni sem sannarlega hefði mátt spila meira úr. Því þegar hér kemur sögu hverfur frú Friðrika – skýringarlaust!

Það er ekki óspennandi tilhugsun að frú Friðriku hafi verið komið fyrir kattarnef. Hún á það svo sannarlega skilið, eins og hún er búin að haga sér. En hér hefði þurft að gefa meira í skyn, kitla grunsemdartaugarnar, ögra ímyndunarafli okkar áhorfenda betur. Á endanum tekur forsmáði sonurinn við hlutverki móðurinnar og allt verður við það sama í raun. Ekkert breytist. Mamma er dauð! Lifi mamma!

Og niðurstaðan? Að við séum fyrirfram dæmd til að ganga okkur sjálfum í móður stað? Að hið sjúka móðurveldi muni ávallt viðhalda sjálfu sér og að allar tilraunir til að vinna bug á því séu dæmdar til að mistakast? Það er hreint ekki uppörvandi boðskapur, en vel þolanlegur í þeim húmoríska búning sem einkennir Móðurharðindin. Og jafnvel ekki laust við að maður fari heim til að taka til í fjölskyldumunstrinu!

Þjóðleikhúsið
Móðurharðindin
Höfundur: Björn Hlynur Haraldsson
Dramatúrg: Símon Birgisson
Leikstjórn: Björn Hlynur Haraldsson
Leikmynd: Axel Hallkell
Búningar: Leila Arge og Axel Hallkell
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283