Athugasemdir Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð við tillögu Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi fyrir Norðurál ehf á Grundartanga
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur sent Umhverfisstofnun bréf með athugasemdum, en stofnunin lagði nýlega fram tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Norðurál ehf á Grundartanga. Í athugasemdum Umhverfisvaktarinnar er því harðlega mótmælt að Norðuráli verði heimilað að auka ársframleiðslu sína á áli úr 300.000 tonnum í 350.000 tonn.
Afstaða Umhverfisvaktarinnar er meðal annars rökstudd með því að umhverfisvöktun vegna mengunar frá Norðuráli hafi ekki verið fullnægjandi og því ekki hægt að treysta niðurstöðum hennar. Því er einarðlega mótmælt að Norðurál hafi áfram umsjón með vöktun, mælingum og mati á þeim, ásamt útgáfu skýrslna vegna eigin mengunar.
Umhverfisvaktin krefst þess að mælingar á loftmengun vegna flúors og annarra eiturefna utan þynningarsvæðis álversins á Grundartanga fari fram með fullnægjandi hætti allt árið, en ekki aðeins helming ársins eins og nú er.
Jafnframt er fullyrðingum forsvarsmanna Norðuráls um skaðleysi framleiðslunnar gagnvart búfé mótmælt sem röngum, þar sem annað hafi komið í ljós, en þessar fullyrðingar eru notaðar af fyrirtækinu til stuðnings ýmsum kröfum sínum.
Athugasemdir Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð við einstaka liði í tillögu Umhverfisstofnunar má lesa í heild á vefnum www.umhverfisvaktin.is