Bergrún Brá sjálfboðaliði í Konukoti og nemi í félagsráðgjöf skrifar:
Ég hef fengið þann heiður að vera mamma, ég er dóttir, ég er systir, ég er vinkona, ég hef verið kærasta, ég kann að elska og ég kann að gefa af mér.
Ég bý í pínulítilli íbúð en það fer mjög vel um okkur mæðgur. Ég hef þak yfir höfuðið, við eigum ekki mikinn pening en við eigum þó rúm, sæng og allt það nauðsynlega sem við þurfum í þessu lífi. Ég á bíl sem er alltaf að bila, já alltaf og oftar en ekki hefur hann bilað úti á miðri götu. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk á erfitt með að stoppa og athuga hvort aðstoðar sé þörf. Ég stöðva alltaf ef einhver er stopp út á götu á biluðum bíl, ég kannski verð 5-15 mín of sein, himinn og jörð farast ekki.
Ég stunda sjálfboðavinnu og ég elska það. Að gefa af sér er eitt af því besta sem ég held að nokkur manneskja getur gert. Að líða vel í hjartanu eftir smá góðverk er góð tilfinning.
Að vinna með heimilislausu fólki er eitt af því mest gefandi starfi sem ég hef tekið þátt í. Ég er svo glöð að vera búin að kynnast tveim yndislegum stelpum sem hafa sama áhugamál og ég, að gefa sem mest af sér og hjálpa öðrum.
Það á enginn að þurfa að sofa úti. Það er enginn sem kýs sér það.
Ég veit að það er rosalega mikið af fordómum í garð útigangsfólks. Fordómar eru eitthvað sem við lærum, við lærum að líta niður til fólks og við lærum hvernig við eigum að koma fram við náungann.
Það er enginn 5 ára sem segir að þegar hann/hún ætli að verða stór þá ætli viðkomandi að vera heimilislaus fíkill. Það er ekki draumur neinnar konu að búa í athvarfi fyrir heimilislausar konur, þar sem þú þarft að fara út á morgnanna í skýli fyrir útigangsfólk og svo færðu að koma aftur inn kl. 17 og svona gengur þetta dag eftir dag eftir dag.
Ég heyri fólk svo oft segja, að það sé nú alveg hægt að drífa sig bara út á land og fá vinnu þar og húsnæði. Til hvers eiginlega að vera heimilislaus í Reykjavík þegar þú getur farið út á land að vinna og haft það gott. Já, að því að það er svo auðvelt fyrir manneskju sem er langt leidd í neyslu að rífa sig upp og fara út á land og vinna.
Einnig heyrir maður, reyndar orðið sjaldnar í dag að það eigi ekki að gefa sprautusjúklingum hreinar nálar. Það er ekki eins og það sé verið að láta fólk fá efni til að sprauta sig. Hvað ætli það kosti mikið að vera með 10 HIV smitaða á móti þess að gefa þeim nálar? Já auðvitað núna hugsa margir, af hverju eru þau ekki bara send í meðferð? Þetta er einmitt hugsunarhátturinn sem er svo rangur.
Ekki dæma fólk út frá því að það er ekki búið að fara í sturtu í 2 vikur og lyktar kannski aðeins. Þau eiga ef til vill ekki heimili til að fara í sturtu, eða að það var allt fullt í athvarfinu þegar þau komu þangað við, til að fá hrein föt og að fá að borða. Ekki vera búin að ákveða að þetta fólk sé vont fólk. Þau eru eins og við, misjöfn en flest hjartahlý og yndisleg.
Heimilslaust fólk á börn, þau eiga móður, faðir, systir, dóttur, kærasta/u og vinkonu og vin og þau kunna líka að elska og að gefa af sér. Heimilislaust fólk mundi líklega vera rosalega sátt við pínulitlu íbúðina mína og bilaða bílinn minn. Þeim finnst líka gott að sofa með hlýja sæng, í hlýju mjúku rúmi. Þau mundu vera ánægð með að eiga smá pening og hafa einhvern stað til að vera á um jólin. Þau mundu vera ánægð að geta eytt jólunum með börnunum sínum og gefa þeim gjafir. Trúðu mér, þetta er ekki líf sem einhver kýs sér.
Láttu gott af þér leiða og gefðu af þér. Þó það sé ekki nema að hjálpa gömulu konunni í búðinni að bera pokana út í bíl, stoppa og gefa start og brosa, brosa til afgreiðslustráksins, þakka bílnum á Laugaveginum fyrir að hleypa þér framhjá og brosa, bjóða heimilislausa manninum og konunni sem sitja niðri í bæ, góðan daginn og brosa til þeirra. Það þarf ekki mikið til að gleðja, það þarf oft ekki nema lítið bros og það getur yljað náunganum um hjartarætur. Við erum ekki að flýta okkur það mikið í lífinu að við getum ekki staldrað við og horft í kringum okkur.
Njóttu andartaksins og þakkaðu fyrir hvað þú átt. Þó það sé ekki mikið.
-Bergrún Brá