Það er allt í uppnámi út af frumvarpi utanríkisráðherra um að leggja niður þróunarsamvinnustofnun (ÞSSÍ). Hann segir:
„Hérna hafa síðan komið alls konar dylgjur; það eigi að láta málaflokkinn fjara út, draga úr þróunaraðstoð og svo framvegis. Þetta er náttúrlega rangt; reyna að seilast í fjármagn Þróunarsamvinnustofnunar. Þetta er að sjálfsögðu líka rangt. Ástæðurnar fyrir þessu eru einfaldlega þær, að þær eru faglegs eðlis. Við teljum að við náum út betri þróunarsamvinnu með því að gera þetta með þessum hætti,“ sagði Gunnar Bragi.
Rökin fyrir breytingunum eru rakin í frumvarpinu:
I. Forsaga, tilefni og nauðsyn lagabreytinganna.
Þrátt fyrir breytingar á síðastliðnum árum má ná frekari árangri með því að vinna að þróunarsamvinnu með heildrænni hætti og ljóst er að enn er töluvert svigrúm til að auka samhæfinguna. Með því að hverfa frá tvískiptingu, eins og hún er í dag, má ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokknum
Meginniðurstaða skýrslunnar er „að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni“
II. Markmið lagabreytinganna.
Breytingar á lögum […] sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, snúa nær einvörðungu að breyttu fyrirkomulagi og skipulagi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands í þá veru að öll verkefni ÞSSÍ færist inn í utanríkisráðuneytið [..,]. Þær fela ekki í sér breytingar á stefnumótun eða markmiðum […]. Aðrar breytingar á lögunum snúa að breyttu fyrirkomulagi hvað varðar stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði þróunarsamvinnu og stærð og hlutverk þróunarsamvinnunefndar.
Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum nr. 73/2007, um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu […]. Við skipulagsbreytingarnar verður einnig tryggt að framkvæmd og eftirlit fylgi áfram verklagi sem telst til bestu starfsvenja í málaflokknum.
Allt í lagi, Gunnar Bragi er bara að vitna í frumvarpið sjálft.
En það er meira í frumvarpinu sem er áhugavert, sérstaklega með tilliti til þessara raka sem Gunnar Bragi og frumvarpið sjálft nota. Meðal annars:
Í aðdraganda aðildar Íslands að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), DAC, árið 2013 vann fagteymi á vegum nefndarinnar sérstaka rýni 1 á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands sem sýndi fram á burði Íslands til aðildar. Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar og kom þar fram að þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni.
Núverandi fyrirkomulag er í mjög góðu lagi, traustur og faglegur grunnur fyrir starfseminni.
Meira (úr fylgiskjali frá Fjármála- og efnahagsráðuneyti):
Ekki er reiknað með að sameiningin leiði til breytinga á fjölda starfsfólks og ekki er heldur reiknað með breytingum í húsnæðismálum, en þróunarsamvinnuskrifstofa ráðuneytisins og ÞSSÍ starfa nú þegar náið saman og hafa aðsetur í sama húsnæði.
Bíddu, það þarf að ná betri samhæfingu og sveigjanleika og ÞSSÍ er nú þegar í sama húsnæði og Utanríkisráðuneytið?
Það er ekki allt, meira:
Ekki er því gert ráð fyrir því að lögfesting frumvarpsins muni hafa áhrif á rekstrarkostnað málaflokksins fyrst um sinn. Engu að síður er gert ráð fyrir því að með sameiningunni megi draga úr vissri óhagkvæmni og tvíverknaði sem þegar fram í sækir geti leitt til aukinnar hagkvæmni í stjórnun og rekstri. Gert er ráð fyrir að það svigrúm verði látið ganga til að efla aðra starfsemi málaflokksins.
Engin áhrif á rekstrarkostnað fyrst um sinn. „Gert ráð fyrir“ … „draga úr vissri óhagkvæmni og tvíverknaði“ … semsagt „kannski“ sparar þetta eitthvað, einhverntíma.
Svo ekki sé nú talað um hvers vegna breytingarnar á friðargæslu eru í þessu frumvarpi líka. Hvers vegna er það ekki sér frumvarp? ,
Semsagt, stofnunin sinnir störfum sínum á faglegan hátt. Breytingin leiðir „kannski“ til hagkvæmni, einhverntíma. Gunnar Bragi, það getur vel verið að markmiðið sé faglegt og fallegt eins og Drangey en þetta frumvarp er illa unnið og rökin fyrir tilvist þess eru skotin í kaf greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu sjálfu. Hvernig á Alþingi eiginlega að geta samþykkt eitthvað sem er svona órökstutt?