Anna Rósa grasalæknir skrifar:
Á aðventunni baka ég yfirleitt gamaldags piparkökur að hætti mömmu með hveiti, sírópi og allri annarri óhollustu. Ekki nóg með það heldur má eiginlega segja að ég sé með piparkökublæti því ég drekk líka „piparkökur“ allan veturinn. Það er svokallað chai te eða kryddte sem ég drekk af miklum móð en það bragðast glettilega líkt piparkökum. Ég byrja að drekka kryddteið þegar hausta tekur en það er alveg sérdeilis kröftugt og manni hlýnar niður í tær við að drekka það. Yfir vetrartímann drekk ég teið nánast á hverjum degi eftir kvöldmat því hunangið í því fullnægir sætuþörfinni hjá mér og nasl seinna um kvöldið verður alger óþarfi. Oft geri ég kryddteið tvöfalt sterkara en í þessari uppskrift og þá verð ég alveg tvöfalt hressari!
Kryddin sem eru í teinu eiga það sameiginlegt að vera góð fyrir meltinguna en svo eru þau líka góð til að styrkja ónæmiskerfið og örva blóðrásina og síðast en ekki síst, þá gefa þau manni orku og draga úr þreytu. Þó ég drekki teið á kvöldin heldur það ekki vöku fyrir mér, en einnig er tilvalið að fá sér það á morgnana.
Piparkökute grasalæknisins
10 heilar kardimommur
5–6 negulnaglar
½–1 kanilstöng
6–8 svört piparkorn
6–8 sneiðar af ferskri engiferrót
3–4 ferskar túrmerikrætur, sneiddar
hnífsoddur af rifinni múskathnetu
1 bolli (2 dl) vatn
1–2 tsk. svart te í lausu, t.d. Earl Grey
1 bolli (2 dl) hrísmjólk
1–2 tsk hunang
Myljið kardimommur í mortéli og setjið í pott ásamt öðru kryddi og vatni. Látið sjóða undir loki í ½–1 mínútu. Bætið svörtu tei út í og látið sjóða í stutta stund í viðbót. Bætið síðan við hrísmjólk og látið suðuna koma upp. Síið, hellið í könnu og bætið hunangi út í. Einnig má nota fjallagrös í staðinn fyrir svart te, en þá eru fjallagrösin sett út í með kryddinu strax í upphafi.
Fyrir þá sem ekki nenna að gera te en vilja styrkja ónæmiskerfið má benda á rótsterku blönduna mína, Sólhatt og hvönn í staðinn. http://www.annarosa.is/en/vorur/tinkturur/solhattur-hvoenn Nánari upplýsingar um Önnu Rósu grasalækni má finna á www.annarosa.is og á Facebook.