Eins og kunnugt er hefur kvikmyndin “Hross í oss” hlotið fjölda verðlauna á ferðum sínum um heiminn og haft hefur verið fyrir satt að hún sé sú kvikmynd í heiminum sem flest verðlaun hefur hlotið á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum árið 2013. Af því tilefni verður haldin sýning á verðlaunagripunum í húsnæði Kaffi-félagsins að Skólavörðustíg 10.
Gripirnir verða til sýnis almenningi frá og með fimmtudeginum 13. febrúar fram að Edduverðlaunahátíðinni, uppskeruhátíð kvikmyndagerðarfólks, sem verður haldin laugardaginn 22. febrúar 2014.
Þar gefst áhugasömum gott tækifæri til að skoða verðlaunagripina í návígi og jafnvel handfjatla þá. Við hittum Benedikt í morgun þar sem hann var að mæla út innviði Kaffi-félagsins og koma gripunum fyrir í huganum.
Ertu búin að finna verðlaunagripunum stað eftir að sýningu lýkur, Benedikt?
Nei, þetta er innanhússvandamál hjá okkur hjónum og við þurfum að finna til nýjar hillur fyrir alla þessa gripi. Nú ríkir ákveðið ófremdarástand þar sem gripirnir eru um þessar mundir bara á víð og dreif og verða fyrir hnjaski barna og gæludýra. Við sjáum fram á að þurfa að henda út eldri verðlaunagripum fyrir þá nýju.
Hvaða verðlaunagripur er nú fallegastur?
Sá gripur sem vinnur best á er sá sem ég hlaut á hátíðinni í San Sebastian, listamaðurinn Serra á heiðurinn af þeim grip og í honum eru einhver gæði. Flestir verðlaunagripirnir eru hálfgerð reðurtákn utan þann sem ég hlaut á Les Arcs-hátíðinni en hann er meira skeiðarlaga.
Kvikmyndin „Hross í oss” er enn sýnd í Bíó Paradís og hefur hún nú verið í sýningu í íslenskum kvikmyndahúsum á fimmta mánuð og hafa hátt í 15 þúsund manns séð kvikmyndina á Íslandi þegar þetta er skrifað.
Hér fylgir listi yfir verðlaunin sem verða til sýnis á Kaffi-félaginu og vert að geta þess að kaffið á Kaffi-félaginu er eitthvert besta kaffi í bænum og á morgnana eru lands- og heimsmálin rædd þar af miklum móð.
Kutxa-New Directors Award, San Sebastian Film festival 2013
Best Director, Tokyo Film Festival 2013
Prix de la Ville d’Amiens, Amiens Film festival 2013
Prix d’interprétation feminine (Best actress), Amiens Film Festival 2013
The Grand Jury Prize, Les Arcs Festival 2013
The Prize for the Best Music, Les Arcs Festival 2013
The Youth prize, Tarragona Film Festival 2013
Tridens Competition; Best Film of Feature Debuts, Tallinn Film Festival 2013
The International film critics FIPRESCI AWARD, Tallinn Film Festival 2013