Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lífsgæðakapphlaupið – slökum aðeins á

$
0
0

Við Íslendingar erum allskonar og höfum marga góða kosti. Við teljum okkur vera stolt, metnaðarfull, dug­leg, hjálpsöm og góðhjörtuð þegar á reynir. Margir kost­ir okkar geta þó einnig verið gallar. Stundum erum við alltof stolt, alltof metnaðarfull og alltof kuldaleg á kostnað góð­mennsk­unnar. Undanfarin ár hefur mér þótt íslenska þjóðarsálin festast æ meir í samkeppni. Metn­aðurinn er svo mikill að við gleymum því stundum algjör­lega að samfélagið skortir ekki fleira áhrifafólk heldur vantar meira af góðhjörtuðu fólki.

Allir eru að rembast við að standa undir gríðarlegum kröfum samfélagsins og taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Ég tek því miður oft alveg jafn mikinn þátt í því og aðrir en mig langar það samt ekki. Það getur bara verið svo erfitt að synda á móti straumnum. Áreitið og skilaboðin í hinu hraða og tæknivædda þjófélagi dynja á okkur endalaust jafnvel án þess að við áttum okkur á því.

Við konur eigum að vera sætar og sexý. Við eigum að vera smart klæddar, hugsa vel um heilsuna, standa okkur vel í námi, ná frama á vinnumarkaði og á sama tíma halda fallegt heimili sem á ávallt að vera tilbúið fyrir myndatöku í Hús og híbýli.

Börnin má ekki skorta neitt. Þau eiga að vera fallega klædd og herbergin þeirra óaðfinnanleg. Við verðum líka að muna að sinna börnunum og eiga gæðastundir með þeim. Við eigum að stunda útivist, hitta vinkonurnar reglulega, sinna stórfjölskyldunni og auðvitað að hlúa að ástinni.

Karlar eiga að vera harðir og sterkir og þeim er ekki ætlað að bera tilfinningar sínar eða veikleika á torg. Karlar eiga að vera í góðu formi og þeir eiga að standa sig vel. Þeir eiga að vera fyrirvinnur heimilisins, þrátt fyrir að konur vinni að jafnaði jafnlanga vinnudaga og þeir. Þeir eiga að vera „successful“ því það eykur karlmennsku þeirra. Bílskúrinn á svo helst að vera fullur af nýjustu græjum því hvort sem við ætlum að hlaupa maraþon, hjóla í kringum landið eða klífa fjöll þá verðum við að eiga rétta útbúnaðinn.

Einhverjum finnst ég kannski ósanngjörn að setja þetta svona upp, en ef við horfum í kringum okkur þá er erfitt að þræta fyrir þetta. Kröfurnar eru endalausar og skilaboðin koma allsstaðar að, beint og óbeint frá vinum og vandamönnum, úr dægurmenningunni, tímaritum og netsíðum. Óteljandi skilaboð um hvernig megi græða meira, missa fleiri kíló, fá betri fullnægingar, sléttari húð, stinnari rass eða stílhreinna heimili og það síast smám saman inn ómeðvitað að maður þurfi að gera betur. Gera betur á öllum sviðum! Því miður verður samkeppnin og metnaðurinn stundum til þess að við látum velferð annarra lúta í lægra haldi. Stundum óttast ég það að við séum svo upptekin í því að standa okkur í lífinu að við týnum algerlega samkenndinni.

Ég þekki til dæmis unga stúlku sem lenti nýlega í árekstri þar sem smábíl hennar og stórum flutningabíl lenti saman. Bíllinn hennar snerist á veginum og fór yfir á rangan vegarhelming. Hún sat í bílnum sínum, alein, hrædd og hágrátandi þegar hún sér fólk koma að. Hún þorði ekki að hreyfa sig, en enginn kom til hennar, fólkið stóð við götuna og glápti inn í bílinn og aðrir bílar tóku sveig framhjá. Enginn þeirra kom til að athuga hvort hún væri slösuð eða jafnvel bara til að bjóða henni huggun á meðan hún beið lögreglunnar.

Ég hélt að það væru ósjálfráð viðbrögð fólks að hlaupa til þegar aðrir eru í neyð. Ég hélt að flestir hjálpuðu til án þess að hika. Þannig finnst mér að það eigi að vera og í þannig þjóðfélagi vil ég búa.

Getur verið að okkur líði ekki vel og mörg okkar séu hreinlega að kikna undan álaginu? Nýlegar byltingar í samfélagi okkar benda til þess. Ég persónulega elska bylt­ingarnar. Hjarta mitt slær örar þegar ég sé styrkinn sem fólkið hér býr í raun yfir. Mér finnst það vera alvöru styrkur – að þora að segja: „Ég vil ekki hafa þetta svona“.

Ég fyllist stolti en auðvitað um leið sorg þegar ég sé hverja manneskjuna á fætur annarri þora að standa upp og viðurkenna að margt í lífinu sé of erfitt. Hvort sem sú leið er farin að bera á sér brjóstin, skrifa bréf til félagsmálaráðherra, að tísta um kynjamisrétti eða geðsjúkdóma. Aðferðin skiptir ekki öllu, það sem skiptir máli er að við erum að viðurkenna hvert fyrir öðru að við erum mannleg, við gerum mistök og að lífið hefur ekki alltaf farið mjúkum höndum um okkur. Og það er bara allt í lagi að tala um það.

Ég veit að sumt fólk hneykslast á byltingunum. Finnst þær merki um smáborgarahátt. Sumir njóta þess að hrista höfuðið yfir því sem aðrir gera eða kjósa að sitja heima við tölvuna, tilbúnir til að láta í sér heyra á kommentakerfunum. Sumir virðast einmitt þrífast á því að setja út á og gagnrýna allt og alla. Þessar sömu manneskjur stíga aldrei fram sjálfar, standa ekki fyrir neitt og gefa aldrei höggstað á sér. Ég er ekki að tala um fólk sem leggur eitthvað til málanna eða veitir hvatningu og stuðning. Ég er að tala um fólkið sem kommentar einungis í þeim tilgangi að hæðast að öðrum, til að brjóta niður og valda vanlíðan. Mín tilgáta er sú að þessu fólki líði manna verst en það skortir hugrekki til að viðurkenna það.

Ég vona svo heitt og innilega að við nýtum okkur ólguna sem nú er í samfélaginu til að endurskoða kröfurnar sem við erum alltaf að reyna að standa undir. Skilgreina þarfir okkar betur og meta hvað okkur er til góðs. Hvað skiptir okkur raunverulega máli?

Ég segi: Notum orkuna okkar vel, hendum í byltingar ef við erum ósátt en njótum þess þó að vera til. Einblínum á að njóta samvista við fólkið okkar þó herbergin séu skítug, njótum þess að borða góðan mat þó við séum aðeins of þung, njótum þess að hlæja og dansa þó við séum ekki í draumastarfinu, njótum þess að vera góð hvert við annað án þess að vilja fá eitthvað í staðinn. Látum okkur náungann varða. Lífið er stutt, slökum aðeins á kröfunum og njótum þess að vera til.

Ljósmynd: Heiða Halls


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283