Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ungbörn eru að frjósa í hel í Evrópu

$
0
0

Þórunn Ólafsdóttir skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook og gaf Kvennablaðinu leyfi til birtingar. Þórunn er stödd á eyjunni Lesbos á Grikklandi:

12464002_10154623666423438_800109993_n

Tvöþúsund og sextán er mætt. Þrátt fyrir margar tilraunir hefur mér ekki tekist að ramma tvöþúsund og fimmtán almennilega inn í orð. Hugurinn er hjá foreldrunum sem vöknuðu upp við vondan draum að morgni gamlársdags í Evrópu árið tvöþúsund og fimmtán. Litla fimm mánaða gamla barnið þeirra hafði frosið í hel á meðan þau sváfu.

„Það var ekkert hægt að gera“ sagði Barbara barnalæknir þegar hún kom og fagnaði áramótunum með okkur eftir langa vakt í búðunum. „Ekki nema að segja öllum að ungbörn séu að frjósa í hel í Evrópu árið tvöþúsund og fimmtán. En það mun ekki færa þessum foreldrum barnið sitt aftur“.

Svo skáluðum við inn nýtt ár í heitu súkkulaði. Mér var kalt í alla nótt. Þrátt fyrir heita súkkulaðið, ullarnærfötin, dúnúlpuna og tvenn pör af íslenskum lopasokkum. Kaldara að innan en utan samt.

Hugurinn var hjá hópnum sem sendi neyðarkall aðfaranótt gamlársdags. Úfinn sjórinn hafði um miðja nótt borið bátinn þeirra á land á lítilli eyju, fjarri mannabyggðum. Neyðarkallinu fylgdu hnit og upplýsingar um að í hópnum væri ólétt kona og einhver meiðsli á fólki. Þau voru án matar og drykkjar, köld blaut, hrakin og villt. Óljósar vísbendingar bentu til þess að fólkið væri statt á óbyggðri eyju þar sem ekkert væri að finna nema herstöð. Maðurinn sem kallaði eftir hjálp hafði hringt í sýrlenskan lækni sem búsettur er í París. Sá kom kallinu áfram til bresks sjálfboðaliða og vinar sem staddur er á Kos. Hann kom upplýsingunum til strandgæslunnar sem virðist enn ekkert hafa aðhafst. Síðustu boð sem bárust frá fólkinu voru að þau væru að deyja úr þorsta og kulda, rammvillt á grískri eyðieyju, algjörlega bjargarlaus.

Mig sem langaði svo að skrifa um ástina. Sigmund Freaud sagði að án ástar væri ekkert líf. Ég hef oft velt þessu fyrir mér undanfarna mánuði. Ástinni og lífinu. Því þó svo að hatrið reki fólk á flótta, þá er það ástin sem veitir því styrk til að flýja. Ástin á lífinu, börnunum, framtíðinni.

Það er líka ástin sem veitir mörgum skjól, fær fólk til að rífa sig upp með rótum og ferðast yfir hálfan hnöttinn til að hlúa að þeim sem flýja hatrið. Að gefa brauðbita, að prjóna sokka, að faðma, brosa og segja frá. Allt er þetta kærleikur í verki en það þarf meira til. Aldrei hef ég upplifað jafn mikla ást og árið tvöþúsund og fimmtán. Hún verður svo miklu sterkari og áþreifanlegri þegar mótaaflið, hatrið, er svona nærri. Því þar sem er illska, þar er líka ást. Annars væri ekkert líf.

Það að lítið barn hafi frosið í hel á gamlársmorgun og að hópur fólks sé að deyja fyrir augunum á okkur á grískri eyðieyju segir okkur þó að kærleikurinn er langt því frá að vera ráðandi afl í heiminum sem við berum ábyrgð á. Slíkar fréttir fylla allt og alla af vonleysi og vangaveltum um hvað við erum eiginlega að gera hérna. En munum að ástin á lífinu rak þau öll á flótta og skortur á ást, mannúð og kærleika við dyr Evrópu tók líf lítils barns og ógnar lífi þúsunda annarra.

Ég óska ykkur öllum farsældar og friðar á nýju ári. En fyrst og fremst óska ég þess að kærleikurinn verði ráðandi afl í orðum okkar og gjörðum á því nýja.

Leggjum harðar að okkur í nafni kærleikans og verum góð við hvert annað, hvaðan sem við komum og hvert sem við erum að fara.

Ljósmynd efst í grein úr Daily Mail


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283