Mér er tjáð að hver einasti bóndi í Landeyjum og Fljótshlíð geti bent nákvæmlega á hvar Gunnarshólma er að finna – hólmann þar sem Gunnar sneri aftur. Hólminn er á landareign þess bónda sem spurður er og það er rökstutt með tilvísun í sjálfa söguna! Það er að sjálfsögðu gott að fá það á hreint hvar Gunnarshólmi er en að sama skapi bagalegt að hann skuli vera á svona mörgum stöðum. Bagalegust er þó sú óvéfengjanlega staðreynd að hvergi er minnst á Gunnarshólma í Njálu; hólminn þar sem Gunnar tók sína örlagaþrungnu ákvörðun er einfaldlega ekki til. En ástmögur þjóðarinnar þurfti þennan hólma í kvæðið sitt og breytti um leið upplifun okkar af sögunni og þar með varð Gunnarshólmi jafn mikil staðreynd og sú staðreynd að hann er ekki til.
Hér er kannski kjarninn í því sem að Njálu snýr: hún er hluti af hinni íslensku bókmenntakanónu, hún er biblía eða kóran okkar Íslendinga, það má taka létt á henni eða gerast svo bókstafstrúar að sjálfur fjandinn væri sæmdur af. Njála nýtur og þeirrar sérstöðu að vera í sérstöku dálæti hjá skólakerfinu, tugþúsundir nemenda skrönglast í gegnum menntaskóla með því að annað hvort lesa hana eða ekki en komast ekki hjá því að heyra á hana minnst og fá hugboð um að Njála er merkileg og mikilvæg.

Njála
Þorleifur Örn Arnarson hefur áður sviðsett sögur úr íslenskri bókmenntakanónu: Engla alheimsins og Sjálfstætt fólk; nú er komið að Njálu. Í kynningu hefur verið sagt að Njáls saga skuli afbyggð, í viðtali í leikskrá er gengið svo langt að líkja Njálu við rannsóknarskýrslu, sambærilega rannsóknarskýrslu alþingis eftir hrun, þar sem má að sögn greina einhvers konar söguskoðun tengda sjálfstæðisbaráttunni. Í nefndu viðtali er talað um Njálu sem “bók”, sem er að vísu hugtakanotkun framandi þeim gagnrýnanda sem hér skrifar. Hann hefur vanist því að Njála sé saga og það er sem kunnugt er allnokkurt bil á milli “bókar” og “sögu”; Njála í þeirri mynd sem við þekkjum hana verður til á mörkum munnlegrar geymdar og ritaldar og sagan ber þess merki; óþarft að fara nánar útí þau fræði hér.
Það les náttúrulega hver þá Njálu sem vill: hún er ástarsaga, átakasaga, örlagasaga, kvennasaga, pólítísk saga, skopsaga, lagaklækjasaga – og meira til. Af viðtali í leikskrá við aðstandendur sýningarinnar verður ekki annað skilið en að þeir hafi undirbúið sig með því að líta til bókmenntafræðinnar, lögfræðinnar og kynjafræðinnar auk margs annars. Þeir bera mikla virðingu fyrir bæði bókinni og sögunni, sem og ýmsu sem sagt hefur verið og skrifað um Njálu í tímanna rás. Njála er “heimild um rætur okkar”, hún fjallar um “ferli og sjálfsmynd þjóðar”, í Njálu “er að finna einhvers konar vísi að íslenskri þjóðarsál” og “Íslendingar hafa sótt sjálfsmynd sína í Brennu-Njáls sögu”. Um þessa eiginleika Njálu má sjálfsagt deila, en þeir eru ekkert endilega slæmur grunnur fyrir leiksýningu sem vill sækja innblástur í þetta viðamikla verk.

Njála
Og hvernig tekst svo til? Hvaða Njálu sjáum við á sviði Borgarleikhússins? Því er ekki auðsvarað. Upptaktur sýningarinnar ber vott um taumlausa virðingu fyrir bókmenntaarfinum og hinum akademíska heimi. Sigrún Edda Björnsdóttir situr fremst á stóra sviði Borgarleikhússins í hálftíma áður en sýning hefst og les upp úr fræðigreinum um Njálu; ber þar einkum á ýmsu efni eftir Helgu Kress, en kenningar hennar eru í leikskrá sagðar innblástur aðstandenda sýningarinnar og dansarnir einkum nefndir í því sambandi. Sigrún Edda heldur svo áfram að verja “bókina” eftir að sjálf sýningin hefst og leikhópurinn fer að hennar mati að fara helstil frjálslega með Njálu. En allt kemur fyrir ekki og á endanum er Sigrún Edda borin út af sviðinu, leikhópurinn og hans frjálslega meðferð á skólabókarnjálu tekur öll völd. Upp úr þessu sprettur sýning sem á augljóslega að vera karnevalísk og sækir innblástur í allar mögulegar áttir: Njáll birtist sem Jabba the Hut úr Star Wars, Titanic er umgjörðin fyrir fyrsta fund Gunnars og Hallgerðar, Elvis Prestley birtist í miklu partíi, við fáum fleiri hugskot úr dægurmenningu en tölu verður á komið, reykur, júróvisjón, rapp, einn dans um hár og annar um kristnitökuna og í lokin þrammar fram á svið heill Karlakór Kópavogs hástöfum syngjandi Brennið þið vitar í takt við atburðarásina. Meiri reykur. Svo eitthvað sé nefnt af öllum uppátækjum sem sýningin samanstendur af. Leikhústæknin er að sjálfsögðu nýtt til hins ítrasta og skortir ekkert þar á.

Njála
Sýningin skiptist í sex hluta: Formálinn segir frá bræðrunum Hrúti og Höskuldi Hallgerðarföður, þá kemur Hallgerðarsaga og á eftir henni Gunnarssaga. Eftir hlé er kristnitökukaflinn túlkaður með 7. Píanósónötu Prokofievs og dansað við, fimmti hluti heitir Njálssaga og sá sjötti og síðasti Kárasaga.
Með látum, sprelli, hugmyndaauðgi, fjöri og fyndni brýtur leikhópurinn niður sjálfan bókmenntaarfinn. Ekki til mergjar þó, hér er lítið um afbyggingu að ræða í þess orðs fræðilegu merkingu. Hins vegar er ýmislegt um afskræmingu, sem mönnum getur fundist sitthvað um; afstaða þess er hér ritar er að Njála þolir það.
En víkjum að fyrirbærinu karneval. Kenningar Helgu Kress um karneval ættu að geta nýst leikhúsinu; samkvæmt þeim er Njála miðaldakarneval og brennan á Bergþórshvoli hámark þess karnevals. Karnevalið felur í sér hugmyndafræðilega afstöðu. Hlutverk þess er að snúa öllu á hvolf, ljóstra upp, afbyggja og sýna hið rétta eðli hlutanna. Í upphafi var karnevalið aðferð hinna lægri stétta til að skopstæla yfirstéttina og til þess var beitt grótesku háði. Áherslan lögð á líkamsparta og líkamsvessa og tilgangurinn að sýna fram á að ekkert er heilagt við yfirstéttarpakkið, það er búið til úr líkama rétt eins og við hin. Þannig er hugmyndaheimur miðalda afbyggður og allt tekið niður á jarðneskt plan.
En hefði þetta átt að getað gengið upp í Njálu Borgarleikhússins hefði þurft að leggja til grundvallar sýningunni annars konar byggingu leiktexta, vinna útfrá öðrum dramatúrgískum meginreglum. Hér er Njálu fylgt í tímaröð atburða og orsakasamhengi hlutanna hvergi brotið upp né varpað á það gagnrýnu ljósi. Orka sýningarinnar fer í uppátækjasama kæti leikhópsins og í rauninni minnir sú estetík og dramatúrgía mest á rúmlega hálfrar aldar gamalt verk Peters Weiss: “Ofsóknin og morðið á Jean-Paul Marat flutt af vistmönnum Charenton-geðveikrahælisins undir stjórn markgreifa de Sade”. Það gildir um þá sýningu og Njálu Borgarleikhússins að það er ekki sagan sem er í fókus heldur sýningin sjálf. Njála Borgarleikhússins er í þeim skilningi póstmódernískt metaleikhús – leikhús um leikhús – og það getur vissulega verið skemmtilegt leikhús en hér tekur það harla litla afstöðu til efnisins og verður helstil sjálfhverft. Póstmódernisminn hér hverfist um hina femínísku sýn aðstandenda á hugmyndaheim Njálu og það má í því sambandi minna á orð Helgu Kress, þar sem hún tekur undir staðhæfingu Einars Ól. Sveinssonar, “Njálssaga er karlmanna rit”, en á annarri forsendu – sumsé þeirri að afstaða Njálu til kvenna standi í beinu sambandi við karlmennskuhugtak sögunnar, og að í Njálu ríki ættasamfélag og feðraveldi (ætli flestir geti ekki skrifað uppá það?). En þetta ættasamfélag og feðraveldi skortir í Njálu Borgarleikhússins, sýningunni er fleytt áfram á þeim brotum sem höfundum þykir vert að tína fram líkt og væru þau ósamstæðir smáréttir á hlaðborði. Afraksturinn er frumlegar hugdettur, stundum skemmtilegar, aldrei sérlega ögrandi.

Njála
Samt er margt vel gert í Njálu Borgarleikhússins. Hugmyndaauðgin í sjónrænni útfærslu er styrkur sýningarinnar ef horft er framhjá því sem að ofan segir. Fjölbreytnin er gríðarleg og á stundum minnir sýningin meira á konseptverk eða gjörning en leikhús í hefðbundnum skilningi. Leikhópurinn kemur fyrir sem ágæt heild og gerir eins vel og takmörkuð persónusköpun handrits býður upp á. Hinn forni texti, sem sóttur er í Njálu liggur yfirleitt vel í munni leikara en ég leyfi mér að nefna sem fremsta meðal jafningja þær Brynhildi Guðjónsdóttur í hlutverki Njáls og Sigrúnu Eddu í hlutverki Bergþóru – þeirra meðferð á njálutextanum var hrein unun í eyra.
Leikmyndin er unnin af metnaði og í samræmi við þær villtu hugmyndir sem leysa hverjar aðra af hólmi í rás atburða; hið sama má segja um búningana sem eru ærið fjölbreytilegir og sóttir úr ýmsum áttum. Sérstaklega verður að nefna hljóðmynd og tónlist þeirra Árna Heiðars Karlssonar, Valdimars Jóhannssonar og Baldvins Þórs Magnússonar – á köflum umbreyttist sýningin í rokktónleika, og þótt undirrituðum hafi kannski ekki alls staðar þótt útfærslan hæfa efninu var hljóðið og tæknivinnan öll vönduð og kröftug. Lýsing Björns Bergsteins Gunnarssonar setti fókus á fremur óskipulegt hreyfimynstur sýningarinnar þannig að hún studdi við framvindu atburðarásar.
Hvað sem öðru líður er um að gera að drífa sig á Njálu Borgarleikhússins. Þrátt fyrir aðfinnslur þess er hér ritar er aldrei að vita nema leynist í látunum hinn hreini Njálu tónn sem einhver áhorfandi telur að hljómi til sín. Þá væri vel.

Njála
Borgarleikhúsið: Njála
Leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarson
Leikrit: Mikael Torfason og Þorleifur Örn Arnarson
Danshöfundur: Erna Ómarsdóttir
Aðstoðardanshöfundur: Valgerður Rúnarsdóttir
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Sunneva Ása Weisshappel
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlistarstjórn: Árni Heiðar Karlsson
Tónlist: Árni Heiðar Karlsson og Valdimar Jóhannsson
Hljóðmynd: Valdimar Jóhannsson og Baldvin Þór Magnússon
Leikarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Björn Stefánsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir.