Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Apartheid“ íslenskra húsnæðismála

$
0
0

Allt frá stríðsárum hafa gilt óskráð lög, eins konar aðskilnaðarstefna á milli eigenda og leigjenda húsnæðis á Íslandi. Pólitísk mismunun þessara þjóðfélagshópa er eins og svart og hvítt í litrófinu.

Í pólitískum skilningi hafa leigjendur alltaf verið meðhöndlaðir eins og annars flokks þjóðfélagshópur á Íslandi. Húsnæðispólitíkin hefur einvörðungu hverfst um séreignastefnuna. Lengi vel fengu t.d. leigjendur engar húsaleigubætur til jafns við vaxtabætur eigenda í sambærilegum aðstæðum.

Hrunið var að einu leyti hápunktur og antiklimax ýktrar séreignastefnu á íslenskum húsnæðismarkaði. Þegar fasteignabólan sprakk opinberaði sig risavaxin kerfisvilla á íbúðamarkaði. Þá hafði fasteignaverð hækkað langt umfram kaupmátt á örfáum misserum.

Höfuðástæða rússíbanareiðar á íslenskum húsnæðismarkaði er einsleitni. Í nágrannalöndunum myndar stöðugur leigumarkaður kjölfestu og jafnar sveiflur á fasteignamarkaði. Í Svíþjóð er t.d. 52% húsnæði einbýli og 18% búseturéttir. Afgangurinn, 30%, er leiguhúsnæði. Þar af eiga sveitarfélög á viðkomandi svæði helminginn (15%) og einkaaðilar afganginn.

Í Svíþjóð er litið á húsnæði sem hverja aðra þjónustu sveitarfélaga, svo sem lífsnauðsynjar á borð við vatn, orku o.s.frv. Húsnæði er jú lífsnauðsyn. Annað sjónarmið er að fyrirbyggja eftir föngum braskvæðingu á almannaþörf. Fólk getur búið alla ævi í þessum íbúðum. Fyrirframgreiðsla er yfirleitt einn mánuður.

Í Kalmar-léni er t.d. leiguverð um þessar mundir fyrir 2ja til 4ra hb. 50 til 100 fm íbúðir frá ca 70 til 140 þ. ISK á mánuði og upp úr eftir staðsetningu og stærð.

Sveitarfélögin í Svíþjóð reka leiguíbúðir með hóflegum tekjuafgangi og langtímasjónarmiðum í rekstri. Athuga ber að íbúðir sveitarfélaganna eru ekki „félagslegar“ íbúðir, það eru engin efri tekjumörk skilyrt. Þar með fæst eðlileg íbúablöndun sem spannar þverskurð þjóðfélagsins.

Í Svíþjóð ráða sveitarfélögin leiguverðinu á viðkomandi svæði í krafti stærðarinnar. Við hlið þeirra þrífast svo einkarekin leigufélög í eigu stórra fagfjárfesta, lífeyrissjóða o.s.frv.

Þrátt fyrir allt sem á gekk syngja íslensk stjórnvöld enn sömu séreignamöntruna í húsnæðismálum. Allar aðgerðir í húsnæðismálum eftir hrun hafa meira eða minna snúist um meingallað húsnæðismódel.

Ekkert bólar á uppbyggingu á almennum leigumarkaði á pari við sænsku útfærsluna, eða hliðstæður frá Danmörku eða Þýskalandi. Í Þýskalandi eru leigjendur í meirihluta, eða um 61%. Þar er litið á húsnæðisbrask og ýkt eignaverð sem andsamfélagslegt fyrirbæri.

Á Íslandi er hlutfall séreignar uppundir 80%, sem er með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Þannig er ungt fólk neytt út í áhættufjárfestingu sem snýst upp í andhverfu sína með reglulegu millibili á Íslandi. Valkosturinn var ekki og er ekki til staðar.

Skuldaleiðréttingin er gott dæmi um ofangreinda aðskilnaðarstefnu á Íslandi. Þar fengu ólíklegustu húsnæðiseigendur sinn hlut af risastórri millifærslu af almannafé til einstaklinga. Leigjendur fá svo bakreikninginn í formi hækkunar fasteignaverðs, sem þýðir hækkun á leigu. Í kynningu leiðréttingarinnar kallaði forsætisráðherra þetta „nýja hugsun í húsnæðismálum“. Í sömu kynningu afgreiddi forsætisráðherrann leigjendur í einni setningu: Þeir geta safnað sér fyrir íbúð.

Nýframlagt húsnæðisfrumvarp er hnotskurnardæmi um hversu „ný“ hugsun stjórnvalda er í húsnæðismálum. Frumvarpið staðfestir áratuga aðskilnaðarstefnu með óljósum og ófjármögnuðum loforðum um íbúðir fyrir „efnaminni leigjendur“.
Frumvarpið lýsir hugsunarhætti sem flest Evrópulönd hafa yfirgefið. Það er „Kategoriboende“ þar sem efnalítið fólk er dregið í dilka og safnað saman í „bæjarblokkum“ eða hverfum með einsleitum íbúðum.

Samtök leigjenda á Íslandi eru vonsvikin yfir metnaðarleysi og moðreyk stjórnvalda í húsnæðismálum. Húsnæðisvandinn á Íslandi er pólitískt vandamál, ekki tæknilegt.

Er fjórflokkurinn yfirhöfuð fær um að leysa húsnæðisvandann á Íslandi?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283