Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hver er hræddur við fegurð grimmdarinnar?

$
0
0

Við horfum inn í rými sem er að minnsta kosti þrískipt þversum eftir sviðinu, hvert rými er rammað inn af þykkum sléttum viðarvegg og gluggarnir á milli rýmanna skakkir og skældir en síðasti veggurinn er að hluta til gerður úr tuskuböngsum sem leiða hugann að barni – syni þeirra Mörtu og Georgs sem allt snýst um en sem aldrei birtist og á svo sinn þátt í hápunkti verksins í blálokin. Leikmyndin gefur í skyn meiri dýpt en sést, þykkt veggjanna gerir að gluggarnir mynda líka rými, það má nota þá sem borð, það má leika í þeim og þá verða sviðsbrúnirnar allt í einu margar. Þegar litið er á leikmyndina á hinn veginn, þá er allt hornrétt, gluggarnir hverfa og eftir standa tveir gangar – heimili þeirra hjóna, Mörtu og Georgs. Þetta er gríðarlega vel hönnuð leikmynd af Grétari Reynissyni og reyndar finnst manni á köflum eins og verk Albees hafi verið samið inn í þessa leikmynd og leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar – svo listilega fellur allt hvert að öðru frá upphafi til enda.

Lýsing Þórðar Orra Péturssonar er smekkleg á þessari mínímalísku leikmynd og leggur áherslur í góðu samræmi við leik og leikstjórn. Hið sama má segja um búninga Helgu I. Stefánsdóttur, sem gefa hverjum karakter réttan blæ og lyfta undir anda verksins alls. Þá skal ekki sleppt að nefna hina frábæru hljóðmynd og tónlist Margrétar Kristínar Blöndal, sem smellpassar og gefur ýmist óhugnanlegan eða kómískan tón í anda efnisins. Stórgóð þýðing Sölku Guðmundsdóttur hljómar íslenskulega og gefur hverri persónu sinn blæ og tón.

Margrét Vilhjálmsdóttir

Margrét Vilhjálmsdóttir

Söguþráðurinn er þekktur: þau koma heim úr háskólaveislu, hjónin Marta og Georg. Hann kennari við sagnfræðideildina, hún dóttir rektors; í háskólaveislunni söng hún skopstælingu á hinni þekktu vísu “Who’s afraid of the big bad wolf” – vísan sú þekkist úr Disneysmiðjunni þar sem unnið er úr sögunni um þrjá litla grísi sem byggja sér hús úr hálmi, viði og steini en úlfurinn illi blæs niður fyrstu húsin tvö, en reynir svo að troðast niður reykháfinn á steinhúsinu sem honum tekst ekki að blása niður og endar í pottinum á hlóðum og er soðinn til bana (sagan er fremur sadistísk þegar öllu er á botninn hvolft).

Það fer engum sögum af því hverjar undirtektir söngur Mörtu fær í veislunni – hún setur Virginiu Woolf í stað úlfsins í vísunni – en hún ákveður að bjóða til eftirpartís. Þegar nýi ungi líffræðikennarinn Nick og Honey eiginkona hans birtast, hefst það sem stundum hefur verið nefnt “eitraðasta eftirpartí leiklistarsögunnar”. Marta og Georg eiga sér nefnilega leynilegan leik, sem snýst um að veitast hvort að öðru með orðum, að ráðast á þar sem þau eru veikust fyrir en það er þar sem þau hafa opinberað sinn innsta hug, hleypt hvoru öðru inn í sálarkima sem eru öðrum lokaðir. Þangað er atlögunum stefnt, átökin gerast þar sem trúnaðartraustið hefur opnað glufu og ekki hætt fyrr en sársaukinn er óbærilegur; síðan kemur gagnatlagan til að kvitta fyrir fyrri árás og þannig heldur leikurinn áfram þar til bæði eru örmagna. Einmitt þetta kvöld færist áður óþekkt alvara í leikinn, hann verður nánast banvænn, kannski vegna þess að Mörtu varð á að tala um son þeirra hjóna við líffræðikennarann unga. Sonurinn er leyndarmál þeirra Mörtu og Georgs og óljóst hver hann er og hvað hefur um hann orðið – nema litið sé til nafnanna, sem eru hin sömu og nöfn fyrstu forsetahjóna Bandaríkjanna og þá er stutt í að túlka soninn sem birtingarmynd hins ameríska draums og álykta að hann hafi farið fyrir lítið.

Hilmir Snær Guðnason

Hilmir Snær Guðnason

Virgina Woolf var breskur rithöfundur, gagnrýnandi og feministi, fædd 1882 og framdi sjálfsmorð 1941. Verk hennar höfðu mikil áhrif á kvennabaráttu 20. aldar og í sögum sínum skrifaði hún um hversdagslega atburði og lagði áherslu á tilfinningalíf söguhetjanna. Þegar Marta skopast að Virginíu með söng sínum í háskólaveislunni er hún að vekja athygli á ótta hinnar menntuðu bandarísku millistéttar á að ameríski draumurinn sé tálsýn – draumurinn sem hér birtist í syninum sem aldrei sést og hlýtur hin ömurlegustu örlög í lokin.

Edward Albee er eitt af þekktustu leikskáldum Bandaríkjanna og talinn í hópi þeirra höfunda sem voru hallir undir absúrdismann; hann fetaði þó snemma þá leið að taka á bandarískum samtíma og gagnrýna hann af miskunnarleysi. Ameríski draumurinn var viðfangsefni hans þegar í fyrsta leikverki hans, Sögu úr dýragarðinum, sem og því næsta, Dauða Bessie Smith. Albee hlaut heimsfrægð með Hver er hræddur við Virginiu Woolf, ekki síst eftir að það hafði notið vinsælda á Broadway og var á endanum kvikmyndað með þeim hjónum Richard Burton og Elisabeth Taylor í aðalhlutverkum. Það ratar nokkuð reglulega á fjalirnar og telst til klassískra vestrænna leikbókmennta.

Elma Stefanía

Elma Stefanía Ágústsdóttir

Egill Heiðar Anton Pálsson leikstjóri og hans teymi allt vinnur stórsigur með túlkun sinni á verki Albees. Sýningin er látin gerast í nútíma og sá “ameríski draumur” sem er yrkisefni Albees gæti allt eins verið sóttur í okkar íslenska nútíma. Þótt greini á milli staða og stunda sem mannkynið gistir á okkar jörð eru einstaklingarnir sér líkir. Vanlíðan Mörtu og Georgs er allri vanlíðan lík og hver sem hefur til vanlíðunar fundið þekkir sig í þeim hjónum. En í sorgarleikjum býr líka andstæðan, húmorinn, og það vantar ekki húmor í texta Albees. Þegar einstaklingurinn er sem óðastur að berjast við að ná tökum á aðstæðum sínum birtist vanmáttur hans í sinni skýrustu mynd og það er einatt kaldhæðnislegur og miskunnarlaus húmor. Í öllu er lögð áhersla á þessa kómísku hlið verksins og það er farsæl leið.

Kómíkin leynist oftar en ekki undir textanum og með því að leggja áherslu á hana er verkið fært til nútíma. Með því vaxa líka hlutverk ungu hjónanna, sem leikin eru af Eysteini Sigurðarsyni og Elmu Stefaníu Ágústsdóttur. Eysteinn er í upphafi ferils síns, nýútskrifaður úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands og vekur verðskuldaða athygli í hlutverki hins unga líffræðikennara sem hafður er að leiksoppi í grimmdarlegum leik hinna miðaldra hjóna; Elma Stefanía hefur þegar getið sér góðs orðstírs fyrir leik í Þjóðleikhúsi okkar og er meðal ungra og vaxandi leikkvenna. Honey er ekki sú pera sem skín skærast af hálfu höfundar en Elma Stefanía gerir hana ekki að neinni glyðru, hér er Honey sterk í sér og gædd bæði eðlis- og tilfinningagreind. Bæði sýndu þau Eysteinn og Elma Stefanía hvers þau eru megnug og nýttu vel þau tækifæri sem buðust til að standa jafnfætis reynsluboltunum Margréti Vilhjálmsdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni.

Eysteinn Sigurðarson

Eysteinn Sigurðarson

Verkið gerist á mörgum plönum samtímis – verkið sjálft er saga um hjón sem bjóða ungum hjónum til sín í næturpartí og samdrykkju; þau bregða sér svo aftur í leik ýmist með eða móti ungu hjónunum um leið og þau berjast sjálf af grimmd og hörku. Sú barátta segir líka ákveðna samfélagssögu og á sem slík erindi við okkur Íslendinga; verðum við ekki að horfast í augu við okkar eigin gildi af fullri alvöru og einlægni og takast á við þau af sama vægðarleysi og Marta og Georg sýna hvort öðru og ungu hjónunum? Um leið sjáum við fjóra leikara leika á þremur plönum samtímis hið fæsta: þau eru gerandi, þolandi og áhorfandi, allt í senn. Það reynir á áhorfandann að fylgjast með þessum hildaleik og gerist ekki betra!

Í leikhúsi gætir þess oft að leikurinn fylgi textanum og það er ekki óeðlilegt; textinn er jú einatt það sem lagt er til grundvallar sýningu, sýning er “túlkun á textanum”. En hér er eins og dæminu sé snúið við. Frá upphafi til enda er eins og hreyfingar, látbragð, tilfinningar og líf hverrar persónu hafi orðið til á undan textanum, Albee komið á æfingu og skrifað verk sitt sem eins konar lokahnykk. Leiktextinn fylgir leik og æði á þann hátt sem ég hygg að glatt hefði Stanislavskí.

20160107-_D3A0913 copy (1)

Það kemur ekki á óvart að Margrét og Hilmir Snær taka Mörtu og Georg engum vettlingatökum. Leikur þeirra er hárnákvæmur, hver einasta hreyfing og augngota fæðist í andartakinu, eðlilega og tilgerðarlaust, tilsvörin oddhvöss og beinskeytt og hamskiptin milli þess að vera árásarmaður og fórnarlamb svo skörp og svo fallega unnin að unun er að. Þau vekja hrylling sem nístir merg og bein, andartökin örstuttu þegar Marta og Georg ná saman í leiknum sínum, þegar annað vinnur á hinu eða þeim saman tekst að smita ungu hjónin af hinum görótta og baneitraða leik sem drepur alla fegurð og sakleysi – eða er það eitthvað annað, sem drepið er? Tálsýnir? Lífslygi? Svari hver fyrir sig, en með hverju slíku andartaki vex þeim hjónum ásmegin, þau skipta í hærri gír og áhorfanda finnst eins og grimmdin eigi sér engin takmörk.

Samtímis þessu vex líka fegurð grimmdarinnar og nær hámarki í lokasetningu Mörtu, sem einnig er lokasetning verksins; þau hjónin eru rúin allri orku, öllum tilgangi lífs, þau eru búin að murka úr sér sálina og samt ná þau Margrét og Hilmir Snær, já, þessi samstillti leikhópur allur, að skilja eftir sig einhverja óútskýranlega fegurð. Eða er það bara feginleiki yfir því að þessum magnaða hildarleik sé lokið og að í þeim lokum sjálfum sé að finna einhverja mannkyns von?

Borgarleikhúsið: Hver er hræddur við Virginiu Woolf?
Höfundur: Edward Albee
Þýðing: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson
Leikmynd: Grétar Reynisson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlist/hljóðmynd: Margrét Kristín Blöndal
Leikarar: Margrét Vilhjálmsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Eysteinn Sigurðarson, Elma Stefanía Ágústsdóttir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283