Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að finna þá framtíð sem hver á skilið

$
0
0

Heimildaleikhús er merkilegt leiklistarform og getur verið af ýmsu tagi: sögulegt leikhús, sem styðst við ritaðar heimildir, þjóðfræðilegt leikhús, sem styðst við frásagnir úr menningu ákveðins tíma og staðar eða mannfræðilegt leikhús, sem styðst við frásagnir þess fólks sem upplifði og hefur eitthvað að segja um þá atburði sem settir eru á svið. Hvert svo sem efnið er og hvernig sem nálgunin er, þá er oftast um að ræða frásagnir sem lúta lögmálum leikhússins og bygging leiktextans er oftast hefðbundin.

Heimildaverk fanga áhorfandann eða lesandann auðveldlega. Það má til dæmis minna á heimildaskáldsögur Björns Th. Björnssonar, Hraunfólkið og Haustskip, sem nutu mikilla vinsælda og eru vonandi lesnar enn. Þá er komin fram á sjónarsviðið ný tegund bókmennta að mér skilst, svonefndar skáldævisögur, sem hljóta að minnsta kosti að sumu leyti að styðjast við heimildir, hvort sem það er stopult minni höfundar eða eitthvað sem áreiðanlegra má teljast. Og svo gripið sé til dæma úr leikhúsheiminum, þá er Brák Brynhildar Guðjónsdóttur, sem sýnd var á sínum tíma í Landnámssetrinu í Borgarnesi, gott dæmi um heimildaleikhús þar sem unnið er út frá 8 línum í Egilssögu og Mr. Skallagrímsson, sem hefur nýlega verið tekinn aftur til sýninga í sama setri er eins og Brák dæmi um blöndu af sögulegu og þjóðfræðilegu leikhúsi.

Flóð

Flóð

Flóð er heimildaleikhús í þess orðs fyllstu merkingu og það er mannfræðilegt; í verkinu er hver einasta replikka sótt í munn einhvers þess sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri í októberlok 1995 og lifði það af. Aðstandendur sýningarinnar hafa rætt við fólk, tekið viðtöl og í lok sýningarinnar fáum við loks að heyra í hljóðmyndinni eigin raddir þeirra sem miðlað hafa af reynslu sinni. Leikendur þagna, leikhúsið myrkvast og hverfur og eftir lifa raddirnar sem lifðu af hinar skelfilegu náttúruhamfarir.

Það er aðdáunarvert hversu vel handritshöfundum, Hrafnhildi Hagalín og Birni Thors, tekst að feta hið vandrataða einstigi milli tilfinningasemi og hlutlausrar nálgunar – að svo miklu leyti sem nálgun í leikhústexta og listrænni upplifun getur kallast hlutlaus. En viðfangsefnið er tekið varfærnum, en ákveðnum höndum: það er mikilvægt að muna, jafnvel þótt minnið sé sjaldnast óbrigðult.

Þetta er grundvallarviðhorf sýningarinnar og því er fylgt eftir ákaflega smekklega í hnitmiðaðri leikstjórn Björns Thors, frábærri lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar og sömuleiðis gríðarlega vel útfærðri hljóðmynd Garðars Borgþórssonar. Þarna er hvergi að finna hnökra á, sýningin er fylgin sér frá fyrsta augnabliki til hins síðasta og leikhópurinn miðlar efninu þannig að áhorfandinn er frá fyrstu mínútu ákveðinn að fylgja honum eftir í leitinni að sögunni um snjóflóðið sem breytti tilverunni … og þau eru áreiðanlega mörg og af margvíslegu tagi, flóðin og hamfarirnar sem krefjast þess af okkur að við munum, að við leggjum á minnið, að við látum ekkert falla í gleymskunnar dá. Saga okkar Íslendinga er full af sögum sem beinlínis krefjast þess að þeirra sé leitað, þær teknar til úrvinnslu og sagðar nútímamönnum. Þannig þroskumst við, bæði sem manneskjur og þjóð.

Flóð

Flóð

Snjófljóðið féll úr Eyrarfjalli aðfaranótt hins 26. október 1995. Það var í raun búið að vara fólk við, öllum var ljós hættan á flóði, en engan hafði grunað að snjóflóð félli úr Skollahvilft og ekki heldur að það yrði svona mikið og afdrifaríkt. En eins og hefur mátt lesa í blöðum fyrir skömmu, í frásögnum af flóðinu vegna þess að 20 ár eru liðin og við hæfi að rifja upp, þá var eins og allir legðust á eitt um að bjarga mannslífum, leitar- og björgunarmenn voru hvíldarlítið að störfum allt þar til bjargað hafði verið síðasta manni lífs og fundið síðasta fórnarlambið.

Í leikmyndinni er lögð áhersla á úrvinnsluna: leikhópurinn kemur saman kringum tvö búkkaborð þar sem gefur að líta alls kyns muni sem tengjast því lífi sem hvarf í flóðinu og þessir munir búa til þorpið sem var: pappakassar, stígvél,
polariodljósmyndir, diskastafli, sjúkrakassi, sími, gjallarhorn og bókastafli … Öll þessi brot verða að þorpinu og minningabrotunum um þorpið. Þá er eftir að búa til söguna, þá sögu sem hætta er á að hverfi í og með flóðinu. Minningabrotunum er raðað saman í þeirri von að þau skapi þá heild sem þarf til að skilja, til að sætta sig við, til að komast áfram. Úrvinnsla hefur hér tvöfalda merkingu, þótt orðið sé aldrei sagt upphátt á sviðinu: menn vinna úr einhverju, gera eitthvað úr einhverju, breyta minningarbroti í heild og um leið hafa menn unnið sig úr því, eru ekki lengur bundnir í fjötra þess. Menn öðlast framtíð á ný – geta tekið þátt í upprás sólar næsta dags.

Flóð

Flóð

Leikhópurinn er ekki í búningum eða gerfum í þeirra orða skilningi. Hann kemur til dyranna nákvæmlega eins og hann er klæddur og látlausir og hversdagslegir búningarnir falla vel að efninu. Hér er eins og hver leiki sig og þó ekki – það heyrist glögglega að hver einasta replikka er sótt annað, að hún búi yfir sinni eigin sjálfstæðu sögu og að hver og einn leikenda er sér meðvitaður um að lánsbragð sé að hverju orði. Það kallar á efnistök í samræmi og hér er borin djúp og einlæg virðing fyrir hverju orði sem sagt er, enda eru þau sótt í átakanlega lífsreynslu lifandi fólks; kannski sátu einhverjir í salnum og heyrðu líkt og enduróm eigin orða og eigin reynslu.

Leikendurnir eru eins og sniðnir að sýningunni og halda vel utanum efnið og efnistökin: Halldóra Geirharðsdóttir bregður sér léttilega á milli þess að vera í tæru sambandi við áhorfendur yfir í tilfinningaþrungin andartök hins mannlega harmleiks og er í þessari sýningu eins og kafteinn í brúnni, leiðir, útskýrir og vekur nýjar hugsanir sem fleyta sýningunni áfram, Hilmir Jensson fylgir fast á eftir og fyllir upp í myndina. Hann á kátlegasta andartak sýningarinnar þegar hann eins og uppúr eins manns hljóði vitnar í Laxness, þar sem segir að næst því að missa föður sinn sé fátt ungum mönnum hollara en að missa móður sína – og steindrepur svo alla hina laxnesku hugsun sem lifað hefur með þjóðinni allt frá því að Brekkukotsannáll kom út með átakanlega jarðneskri athugasemd og í fullkomnu samræmi við efnið.

Flóð

Flóð

Það hljómar kannski eins og klisja, en fáir hafa sviðsnærveru á við Kristbjörgu Kjeld. Hún þarf ekki nema taka sér stöðu á sviðinu og líta út í salinn, þá er hún allt í einu eins og klettur, náttúrufyrirbæri í sjálfri sér, verðugur andstæðingur Eyrarfjalls og býður byrginn þeirri ógn sem hvílir yfir allri sögunni. Andstæða Kristbjargar er Kristín Þóra Haraldsdóttir, barnsleg og brothætt, hún vekur samúð okkar þegar í upphafi með því að vera sú sem ekki man en verður að fá að vita. Hennar viðkvæma ásýnd opnar sýninguna og lokar henni og fer vel á því.

Flóð felur í sér átök og þau ná langt út fyrir sviðsbrún. Áhorfandinn tekur þátt í sýningunni á þann hátt sem gerist í bestu leikhúsum: atburðirnir sem sagt er frá koma honum við og hreyfa við honum: þau eru kannski fleiri, flóðin sem krefjast þess að við munum og veitum minningunum farveg í líf okkar – svo við megum finna þá framtíð sem við eigum skilið.

Borgarleikhúsið: Flóð
Handrit: Hrafnhildur Hagalín, Björn Thors
Leikstjórn: Björn Thors
Leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist og hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikendur: Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Kristín Þóra Haraldsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283