Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Gegn sölu á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands

$
0
0

Fréttatilkynning frá Skiltakörlunum:

Undanfarin misseri hafa margir íslenskir bankamenn hlotið dóma fyrir markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti og spillingu.

Endurreistum bönkum og nýjum stjórnendum beið það erfiða hlutskipti að vinna sér traust meðal viðskiptavina og almennings í landinu eftir síðasta hrun.
Sala á hlut Landsbankans í Borgun á undirverði hefur vakið mikla reiði í samfélaginu. Söluferlið var ógagnsætt og um margt í líkingu við þau vinnubrögð sem dæmt hefur verið fyrir undanfarið og varað var við í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Stjórnendur bankans brugðust þeirri meginskyldu sinni að bera hag eigandanna fyrir brjósti, hver sú sem ástæðan er fyrir því.

Í því umhverfi ógegnsæis og í ljósi reynslu fyrri ára er því ætlun stjórnvalda um að selja stóran hlut í Landsbankanum mótmælt. Ítrekað hefur verið bent á að nú séu ekki séu réttar aðstæður á markaði og rétt sé að bíða með söluna. Við höfum séð þetta áður, við þekkjum þetta ferli og við viljum ekki sjá að slíkt endurtaki sig enn og aftur.

Sú stjórn sem nú situr og þrýstir á um sölu á hlut Landsbankans hefur í reynd ekki lengur umboð þjóðarinnar eins og skoðanakannanir MMR um fylgi stjórnmálaflokka hafa ítrekað sýnt. Þetta er ekki nein sveifla, þetta er stöðug mæling í nær eitt ár sem jafngildir vantrausti þjóðarinnar á ríkisstjórn Íslands.

Í ljósi þess að önnur skoðanakönnun MMR frá síðast ári sýnir að ekki sé meirihlutavilji hjá þjóðinni til að selja Landsbankann er ljóst að sala á eignarhlut ríkisins nú er í algerri andstöðu við meirihlutavilja þjóðarinnar og augljóslega knúin áfram af stjórnmálamönnum sem ætla öðrum en þjóð sinni hagnaðinn eins og nýlegt dæmi sýnir.
Í ljósi þessara aðstæðna er krafist að áform um sölu á hlut Landsbankans verði samstundis dregin til baka með yfirlýsingu þar um.
Skiltakarlarnir hafa sent stjórn Bankasýslu ríkisins áskorun um að hætta við sölu Landsbankans.

Af heimasíðu Bankasýslu Ríkisins:

„Bankasýslu ríkisins er í starfsemi sinni ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.“

Þessari stefnu Bankasýslunnar hefur ekki verið fylgt eins og ljóst er.

Ekki verður annað séð en að frekari sala banka- og fjármálastofnanna á vegum Bankasýslunnar sé því í uppnámi.
Ef Bankasýsla ríkisins lýsir því ekki yfir fyrir lok þessarar viku að hætt verði við sölu á hlut Landsbankans munu Skiltakarlarnir fara í aðgerðir til að hvetja almenning til að flytja innistæður sínar úr Landsbankanum til sparisjóða úti á landi.

Fjármálakerfið verður ekki endurreist nema í sátt við þjóðina. Það er sú sátt sem Bankasýslunni ber að virða en ekki vilja umboðslausra stjórnmálamanna sem virða ekki hagsmuni né meirihlutavilja þjóðar sinnar.

Virðingarfyllst,
Fyrir hönd fjölmargra fjölskyldna á Íslandi,

Skiltakarlarnir,
Ólafur Sigurðsson og Leifur Benediktsson

Ljósmynd/SPESSI


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283