Kristín Sigurðardóttir skrifar:
Það má aldrei gleymast að í gegnum aldirnar höfum við Íslendingar búið við afar kröpp kjör og léleg húsakynni. Við bjuggum í torfbæjum vegna þess að það var sá efniviður sem þjóðin hafði til húsbygginga. Timbur var dýrt og það þurfti að flytja það inn, nema þann rekavið sem finna mátti sums staðar í fjörum. Lítið var um eldivið til upphitunar og því voru híbýlin höfð úr þykkum veggjum hlöðnum úr torfi og grjóti eftir kúnstarinnar reglum.
Hannes Lárusson var í viðtali við Morgunvaktina á RÚV föstudaginn 14. janúar.
Þar dásamaði hann íslensku baðstofuna og telur hana með því fegursta sem við Íslendingar höfum skapað. Hannes starfrækir menningarsetrið „Íslenska bæinn“ í Austur-Meðalholti í Flóahreppi. Þar hefur hann til sýnis íslenska húsagerðarlist frá þeim tíma er við bjuggum í torfbæjum og telur byggingarnar vöggu íslenskrar menningar og góð húsakynni.
Vissulega er rétt hjá Hannesi að tala megi um byggingarlist og það er sjálfsagt að viðhalda verkkunnáttu og menningu genginna kynslóða. Einnig er rétt hjá Hannesi að við þurfum að forðast ranghugmyndir og fordóma. En það gerum við best með því að kynna sögu okkar með margs konar aðferðum. Til dæmis með söfnum og sýningum líkt og Hannes er að gera með starfsemi sinni í Flóanum. En þegar samfélag er kynnt þarf forstöðumaður ætíð að spyrja sig hvort sýning eða safngripur túlki liðna tíð. Safnstjóri verður að tengja slíka starfsemi sögu þjóðar, vegna þess að það sem söfn og setur velja til sýninga mun frekar varðveitast í minni þjóðarinnar heldur en þeir þættir sem ekki fara á söfn.
Á öllum skólastigum hér á landi er saga mikilvæg námsgrein, bæði Íslandssaga en einnig saga alls mannkyns. Gallinn við íslensku sögubækurnar er að þær snérust lengst af of mikið um stjórnmál en minna var fjallað um lifnaðahætti almennings. Það er sem betur fer að breytast. Til viðbótar við hina hefðbundnu skólabækur höfum við margs konar söfn, setur og sýningar en einnig gott úrval af ævi- og skáldsögum. Þannig má hafa áhrif á hvaða atriði úr fortíðinni við ætlum að muna og hverju við munum gleyma.
Tryggvi Emilsson er einn af virtustu rithöfundum síðustu aldar. Bækur hans Fátækt fólk og Baráttan um brauðið eru sígildar bókmenntir og tölvert notaðar til kennslu í framhaldsskólum hér á landi. Þessar bækur segja á vandaðan hátt frá ömurlegum aðstæðum íslensks alþýðufólks í upphafi 20. aldar.
Hannes segir að Íslendingar eigi að skammast sín fyrir að skammast sín fyrir torfbæina. Ég held að hann ætti að vanda betur til og reyna að byggja upp setur eða sýningu þar sem við getum átt okkar eigin helför (holocaust).
Þegar við heimsækjum „Íslenska bæinn“ eigum við að geta fundið til sársauka vegna þess að forfeður okkar og mæður, ekki bara skömmuðust sín fyrir torfkofana heldur hötuðu þau þá. Þau hötuðu þá vegna þess að slík húsakynni drápu ættingja þeirra og vini, enda voru gömlu torfbæirnir sannkölluð pestarbæli, bæði mönnum og dýrum skaðleg. Þeir áttu vafalaust sinn þátt í að draga máttinn úr þjóðinni.
Vegna timburleysis var lítið um glugga og til að verja bæina kulda voru allar dyr hafðar lágar. Af þessu skapaðist mikið loftleysi innandyra, en þó var rakinn verstur. Hér á landi getur orðið mjög rigningasamt, sérstaklega sunnanlands. Í langvinnum rigningum urðu þök og veggir gegndrepa. Moldin dró í sig regnvatnið og rakinn hélst í langan tíma. Þess vegna voru veggir og loft sífellt blaut og svo súrnaði og úldnaði bleytan og skemmdi þannig út frá sér. Sams konar vandamál átti við um útihúsin og það leiddi til þess að húsdýr fengu margs konar innanmein, lömb drápust og kýr og kindur misstu nyt.
Berum virðingu fyrir því fólki sem bjó við sult og seyru í lélegum húsakosti í aldanna rás. Sýnum fátækt forfeðra okkar og mæðra virðingu og byggjum upp og varðveitum húsakynnin þeirra eins og þau voru. Þar megum við ekki ljúga neinu til hvort sem við skömmumst okkar eða ekki.