Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hin unaðslega Verdejo-þrúga frá Spáni

$
0
0

Það eru kannski ekki ýkja margir sem þekkja spænsku verdejo-þrúguna en það er hins vegar töluverð ástæða til þess að kynnast henni betur. Verdejo-þrúgan er ræktuð aðallega í Rueda sem er lítið hérað austur af Madrid. Verdejo-þrúgan er búin að vera til í Rueda í yfir 1000 ár og talin koma frá Afríku. Héraðið liggur í mikilli hæð en það virðist henta þrúgunni afar vel. Henni er oft líkt við Pinot Gris-þrúguna og margir telja bestu hvítvín Spánar einmitt gerð úr þessari þrúgu. Þrúgan gefur af sér afar ávaxtarík vín og oft má finna sítrónu og límónu, steinefni og flotta sýru.

valdevid6

 

Eitt af bestu vínhúsum svæðisins er Val de Vid. Þetta er ekki stórt hús, ekrur á um það bil 20 hektarasvæði  en hefur að auki stjórn á einum 40 hektörum til viðbótar. Steingrímur Sigurgeirsson vínskríbent á vinotek.is var svo heppinn að fá að kíkja í heimsókn og meðfylgjandi texti er að mestu leyti fenginn að láni frá honum með hans leyfi.

José-Antonio Merayo stofnaði vínhúsið árið 1996 og leggur áherslu á nútímalega víngerð þar sem ferskleiki Verdejo er í fyrirrúmi (þótt í einni blöndunni megi einnig finna smotterí af þrúgunni Viura). Vínin eru að mestu leyti flutt út en 90% framleiðslunnar fer á erlenda markaði.

Þetta er eitt af mörgum spænskum vínhúsum þar sem að konur stjórna víngerðinni og segir víngerðarkonan Mila að stíll hússins byggi á því að draga fram hreinleika og ferskleika Verdejo. Þrúgurnar eru tíndar að næturlagi til þess einmitt að tryggja ferskleika þeirra sem best. Víngerðin sjálf er líka hæg og við lágt hitastig til að ná sem mestu af ávextinum úr þrúgunum.

Val de Vid býr til 3 hvítvín og eitt þeirra fæst hér í Vínbúðunum á alveg frábæru verði: 

Val de Vid Verdejo kr. 2.190

valdevidverdejo

 

Þetta vín er alger hvalreki fyrir vínáhugafólk og eins og áður sagði er það á alveg ótrúlegu verði. Vínið fékk 4 stjörnur bæði hjá Steingrími og Þorra Hrings sem m.a. hafði þetta um vínið að segja:

„Þetta vín er ljós-gulgrænt að lit með kryddaðan og unaðslegan ilm af peru, sítrónu, hvítum blómum, stikilsberjum, kalkríkri jörð, kerfil og melónu. Þetta er sumarleg og afar ljúffeng angan sem minnir að sumu leyti á Sauvignon Blanc frá Loire. Í munni er það þurrt, ríflega meðalbragðmikið, sýruríkt og með góða lengd, vel byggt og matarvænt. Þarna eru sítróna, stikilsber, grænar kryddjurtir, læm, pera og melóna. Stórskemmtilegt og ferskt hvítvín sem litlu munar að fái hálfa störnu í viðbót sem gerir það að einhverjum bestu hvítvínskaupunum í vínbúðunum. Hafið með fiskréttum, ljósu pasta, geitaosti og svo er það bara gott eitt og sér. Verð kr. 2.190.- Frábær kaup.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283