Setningarávarp Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi á 100 ára afmæli stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna,12. mars 2016.
Hundrað ára saga stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna og Alþýðusambands Íslands er saga uppbyggingar á innviðum samfélagsins.
Ísland er óþekkjanlegt frá því sem var fyrir 100 árum. Þá eitt fátækasta land í heimi, svo seint sem 1976 skilgreint þróunarríki hjá Sameinuðu þjóðunum, en í dag í fremstu röð í efnahagslegri velsæld, jöfnum tækifærum og jafnrétti kynja.
Þrátt fyrir fordæmalaust fjármálahrun hefur okkur tekist betur að glíma við þann vanda en dæmi eru um í öðrum ríkjum sem urðu fyrir áfalli. Byrðum var dreift með réttlátari hætti en í öðrum löndum og þeir sem meira hafa milli handanna hafa borið hlutfallslega mestu byrðarnar. Þess vegna tókst viðsnúningurinn svona vel.
Framhaldið hefur ekki verið jafn gott. Sitjandi ríkisstjórn er verklaus og forsætisráðherra er hættur í vinnunni og tekinn við störfum sem leiðtogi minnihlutans í borgarstjórn. Rúmlega 80 þúsund manns skrifa undir áskorun um betra heilbrigðiskerfi, en svarað er með því að setja upp bráðadeild í bílageymslu. Með þann mannauð sem við eigum í heilbrigðiskerfinu eru okkur allir vegir færir til að byggja upp örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Það vitum við jafnaðarmenn og það munum við gera.
Fjármálakerfið er komið í hendur ríkisins og vildarvinir stjórnaflokkanna bíða í ofvæni eftir að fá að verða hinir nýju Borgunarmenn. Fá að komast yfir aðstöðu sem skilar miklu meiri tekjum en gert var ráð fyrir í upphafi. Það er lífsnauðsynlegt að gera alvöru breytingar á fjármálakerfinu áður en sala hefst á eignarhlutum ríkisins. Við þurfum að teikna upp nýtt kerfi í þágu íslenskra heimila og fyrirtækja sem vinnur með heilbrigðum hætti og ætlar sér eðlilegan arð af þeim verðmætum sem starfsemin skapar. Ekki sjálftöku eða Borgunararð. Ekki arð sem er búinn til með því að taka lán, eins og í tilviki VÍS. Bara eðlilegan arð. Þetta er hægt og verður að vera forgangsatriði fyrir stjórnmálahreyfingu jafnaðarmanna.
Fólk flykkist til Íslands vegna þess hve falleg náttúran er, en líka vegna þess hve gott orðspor fer af Íslandi sem landi mannréttinda og jafnréttis. Þetta eru ómetanlegar auðlindir. En við verðum líka að vera land sem er öruggt að heimsækja. Ferðamenn eiga ekki að þurfa að hætta lífi sínu og annarra vegna lélegra innviða. Hér eiga allir að vera öruggir en til þess þurfa ferðamenn að taka þátt í að greiða fyrir þá þjónustu sem samfélagið veitir á meðan þeir dvelja hér.
Það sem hefur verið mér mest hugleikið undanfarin ár er staða ungs fólks. Undanfarnar vikur höfum við lesið á netinu og í blöðunum greinar eftir ungt fólk sem kallar eftir meiri stuðningi, betra velferðarkerfi, betri störfum og nýjum gjaldmiðli. Aðstöðumunurinn milli Íslands og Norðurlandanna þegar kemur að lífskjörum ungs fjölskyldufólks er himinhrópandi.
Lykilverkefni okkar jafnaðarmanna er að skapa hér samfélag sem ungt fólk vill taka þátt í. Þangað eigum við að beina kröftum okkar, í að skapa góð, spennandi og vellaunuð störf, standa með barnafjölskyldum og laga barnabæturnar og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Síðast en ekki síst að auðvelda ungu fólki að eignast heimili, hvort sem það er á leigumarkaði, í félagslega reknu kerfi eða í einkaeigu.
Góðir flokksstjórnarfulltrúar.
Þótt bilið sé mikið milli okkar og Norðurlandanna stórt þegar litið er til ungs fjölskyldufólks, er athyglisvert að sjá Ísland standa í dag í fremstu röð í flestum alþjóðlegum samanburði. Þar stöndum við næst grannlöndum okkar á Norðurlöndunum. Hvernig má það vera? Þar hefur hreyfing jafnaðarmanna verið sameinuð alla síðustu öld, en hér klofin í 70 ár. Þar setið við völd drýgstan hluta síðustu aldar, á meðan stjórnarseta okkar hér á landi hefur verið eins og
sumarveðráttan á Suðurlandi: Fagrir sólskinsdagar sem við vitum að geta staðið all nokkra hríð en drukkna í minningunni í rigningu, sudda og slagviðri.
Árangurinn náðist þrátt fyrir allt vegna tveggja mikilvægra þátta: áfangasigra og samstarfs ólíkra umbótaafla.
Barátta síðustu aldar hefur verið barátta stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna – ekki bara Alþýðuflokks – fyrir umbótum, í samvinnu við öfluga verkalýðshreyfingu. Og það sem ekki tókst hjá öðrum, var unnið áfram af hinum. Réttindi á vinnumarkaði og borgaraleg réttindi hafa verið nátengd og kröfugerð í verkfallsátökum stundum tekið við af óskalistum jafnaðarmannaflokka og svo öfugt. Samningsstaða við stjórnarmyndun nýtt til hins ítrasta.
Sumar breytingar tókust vel, en svo eyðilagðar vegna sérhagsmuna og af þeim sem sjá ofsjónum yfir samfélagslegri eign sem gengið getur mann fram af manni. Verkamannabústaðakerfi Héðins frá 1929 og húsbréfakerfi Jóhönnu frá 1989. Hvorttveggja var eyðilagt í tíð framsóknarmanna í félagsmálaráðuneytinu um síðustu aldamót og þjóðin skilin eftir með fá úrræði til að leysa húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta greitt markaðskjör.
Sumt sem við höfum gert hefur tekist vel og stendur sem minnisvarði um unna sigra. Baráttan fyrir öryggi á vinnustöðum sem hófst með Vökulögunum og verkföllum til að knýja á um betri aðbúnað og baráttan fyrir frelsi frá afkomuótta með atvinnuleysistryggingum, sjúkratryggingum og almannatryggingum.
Og sumt eru verkefni sem virðast aldrei alveg klárast. Sömu laun fyrir sömu vinnu voru umsamin fyrir meira en hálfri öld en hafa ekki enn orðið að veruleika. Við höldum ótrauð áfram að leysa það verkefni.
Og þau eru fleiri réttlætismálin sem seint virðast ætla að ná fram. Strax í upphafi gerðu þingmenn jafnaðarmanna kröfu um jöfnun atkvæðisréttar og eignarhald almennings á auðlindum í jörðu og virkjunarrétti fallvatna. Auðlindir í þjóðareigu, einn maður – eitt atkvæði. Kröfur um breytingar á grundvallarreglum hafa frá upphafi fylgt þessari hreyfingu.
Þess vegna skipta breytingar á stjórnarskrá okkur svo miklu máli. Við vitum að leikreglurnar skipta miklu – ótrúlega miklu.
Trú arfleifð okkar og í samræmi við þá ríku lýðræðishefð sem Samfylkingin byggir á, stöndum við fyrir þessum flokksstjórnarfundi í dag og eigum upplýsta umræðu um fyrirliggjandi tillögur stjórnarskrárnefndar um þrjú ný ákvæði í stjórnarskránni. Fyrir fundinum liggur engin tillaga forystu flokksins um eina leið eða aðra. Hér getum við rætt málin og heyrt ólík sjónarmið.
Það er mikilvægt að muna að óháð þessum tillögum stendur ennþá samþykkt stefna flokksins um að Samfylkingin muni berjast áfram fyrir því að þjóðarvilji til heildarendurskoðunar stjórnarskrár verði virtur og unnið verði áfram með tillögur stjórnlagaráðs á nýju kjörtímabili. Um það er alger samstaða. Jafnaðarflokkur sem ætlar að vera trúr uppruna sínum á 100 ára afmælinu getur ekki lagt árar í bát.
Við eigum í samstarfi við aðra stjórnarandstöðuflokka að leggja fram stefnu um hvernig hægt sé að leiða til lykta heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili, með lýðræðislegum hætti og með beinni aðkomu almennings.
Það verður gaman að fylgjast með umræðunni hér á eftir. Í umræðu undanfarnar vikur hafa heyrst mörg sjónarmið og nú liggja fyrir umsagnir um nýju tillögurnar þrjár, sem væntanlega verður tekið tillit til í nefndarvinnunni.
Í grófum dráttum má skipta sjónarmiðunum um afstöðu sem ég heyri meðal flokksmanna í þrennt. Sumir telja þær fullnægjandi, aðrir telja þær skref í rétta átt og enn aðrir að þær séu mögulega til ills. Ég skil öll þessi sjónarmið og ég heyri í okkar hópi að ég er ekkert einn um að velta þeim öllum fyrir mér og kalla eftir rökum með og á móti.
Það er bara eitt sjónarmið sem ég hef heyrt fleygt í umræðunni undanfarna daga sem ég er hjartanlega ósammála og það er sú staðhæfing að jafnvel þótt breytingar séu góðar eigi ekki að samþykkja þær því þá gætu þær mögulega útilokað eða tafið frekari stjórnarskrárbreytingar, jafnvel tekið þær af dagskrá í 30 ár. Hver ætti að taka kröfuna um frekari breytingar af dagskrá?
Við?
Þetta viðhorf snertir nefnilega grunn jafnaðarhreyfingarinnar eins og ég skil hann. Hreyfingin hvílir á trúnni á að við getum breytt samfélaginu og að við viljum alltaf árangur frekar en kyrrstöðu. Sjálfstraustinu sem fylgir vissu um að erindi okkar er ósigrandi og að við getum sannfært hvern sem er um réttan málstað.
Samfylkingin reis úr djúpstæðri sannfæringu fólks um að við gætum verið breytingaafl, ekki mótmælaafl.
Forverar hennar á vinstri væng íslenskra stjórnmála voru góðir í að vera mótmælaafl, en ekki alltaf góðir í að breyta. Sjálfur upplifði ég þetta svo sterkt í Alþýðubandalaginu rétt rúmlega tvítugur árið 1988: Þar var stór hópur – nærri helmingur flokksins – sem var tilbúinn til að fara ekki í ríkisstjórn af því að við gætum ekki náð fram tafarlausri afturköllun allra tímabundinna aðgerða til að takmarka verðbætur á laun.
Sú stjórnarseta leiddi Alþýðuflokk og Alþýðubandalag saman í ríkisstjórn og tryggði gríðarlegar umbætur í húsnæðismálum, velferðarmálum, samkeppnismálum, réttlátara skattkerfi, byggði þjóðarsátt, opnaði landið og lagði grunninn að EES. Í ljósi sögunnar, hefði verið betra að sleppa þessu bara og leyfa íhaldinu að stjórna áfram?
Þarna sannfærðist ég og margir af minni kynslóð um mikilvægi ófullkominna áfangasigra. En við þurfum greinilega áfram að sannfæra nýjar kynslóðir um að við getum verið hvort tveggja í senn: Raunsæ og tilbúin að fagna áfangasigrum en á sama tíma heit í hugsjónabaráttu okkar fyrir endamarkmiðinu.
Við gleðjumst í dag yfir sigrum síðustu 100 ára og horfum með aðdáun til löngu liðinna atburða. En það er hægt að horfa á síðustu hundrað ár í gegnum önnur gleraugu. Öll þessi skref voru umdeild. Í engu fólst fullnaðarsigur í einu skrefi. Við vitum að Bríet Bjarnhéðinsdóttir var afar ósátt við að kosningaréttur kvenna árið 1915 var bara bundinn við giftar efnakonur. En dropinn holaði steininn og þessi nýfengnu réttindi sannfærðu fleiri um rétt kvenna til stjórnmálaþátttöku og skapaði sóknarfærin. Hver hefði sagan orðið ef Bríet hefði talað gegn kosningarétti kvenna, af
því að hann náði ekki til allra kvenna? Ef hún hefði trúað því að samþykkt hans hefði komið í veg fyrir kosningarétt kvenna næstu 30 ár?
Flestir vita að Jón Baldvinsson náði Vökulögunum fram 1921. Það var gríðarlegur og sögulegur sigur sem tryggði sjómönnum sex stunda hvíld, kom í veg fyrir þrælkun og bjargaði lífi og limum sjómanna. Færri vita að Jörundur Brynjólfsson, fyrsti þingmaður jafnaðarmanna, lagði fram frumvarp sama efnis 1919 en um 8 stunda hvíld. Það var fellt. Honum var bent á við þinglega meðferð að hann gæti mögulega komið sex stundum í gegn, en lét ekki á það reyna. Var hann prinsíppmaður af því hann kvikaði ekki frá ítrustu kröfum? Voru sex stundirnar hans Jóns Baldvinssonar þá eftir alltsaman svik en ekki sigur? Auðvitað ekki.
Góðir flokksstjórnarfulltrúar og hátíðargestir.
Nú eru miklir umbrotatímar og Samfylkingin fer ekki varhluta af þeim. Við höfum nú tekið á óþolandi stöðu flokksins, sundrungu og endalausum vangaveltum um umboð eða umboðsleysi formanns flokksins með því að flýta formannskjöri og halda alvöru landsfund í vor þar sem kosið verður um alla forystuna. Meira afgerandi verður það ekki.
Með því gefst okkur tækifæri til að hreinsa loftið og raða upp á ný forystu með skýrt umboð flokksfólks. Við þurfum líka að grípa þetta tækifæri til að tala af hreinskiptni um það sem aflaga kann að hafa farið hjá okkur undanfarin ár og sameinast um svör við þeim spurningum sem að okkur er ávallt beint á vinnustöðunum, í fjölmiðlum og heita pottinum.
Ef við gerum það ekki mun sú forysta sem kjörin verður 4. júní mæta jafn vopnlaus til þjóðmálaumræðunnar og við höfum gert síðasta árið. Það má ekki gerast.
Við búum vel. Við þurfum ekki að biðjast afsökunar á stefnu okkar eða fólkinu okkar. Við getum verið stolt af að hafa haft metnað til stórra samfélagsbreytinga, en við þurfum að viðurkenna að við sóttum okkur ekki nægilegt afl til að knýja þær í gegn, til þess samfélags sem við erum sprottin úr.
Kannski er það lærdómur af síðustu árum. Jafnaðarflokkur 21. aldar þarf að vera í miðju samfélagsins, ekki á jaðri þess. Hann þarf að þora að taka sér stöðu í kallfæri við alla og vinna samfélagsbreytingum fylgi. Hann þarf að vera óhræddur að leita til fólks og fá stuðning þess gegn grónum valdakerfum og fjölbreyttum sérhagsmunaöflum. Hann þarf að vera óhræddur að vinna öll mál fyrir opnum tjöldum og ná þannig yfirhöndinni gagnvart klíkuskap og þeim sem segja eitt opinberlega en gera annað þegar enginn sér til. Og hann þarf að vinna í nánum tengslum við verkalýðshreyfinguna.
Við skulum í dag á sameiginlegum afmælisdegi þakka samstarf og glæsilegan sameiginlegan árangur. Á nýrri öld eigum við að þróa það enn frekar. Á Norðurlöndunum tíðkast það að flokkur og verkalýðshreyfing setji sér sameiginleg markmið og fulltrúar beggja fari saman yfir árangurinn. Þannig held ég að við eigum líka að vinna.
Til að binda slíkt fyrirkomulag frekar niður samþykkti einmitt síðasti landsfundur Samfylkingarinnar að við munum í næstu ríkisstjórn vinna efnahagsáætlun með verkalýðshreyfingunni og með aðkomu annarra félagasamtaka og leggja
slíka ályktun fyrir Alþingi.
Um allan heim einkennist stjórnmálabaráttan af nýjum átökum og á köflum örvæntingarfullri leit kjósenda að stjórnmálaafli sem nær að vera fulltrúi kjósandans og endurspegla áhyggjur hans og vonir. Bilið milli þess hlutverks og þess hlutverks hefðbundinna stjórnmálaflokka að stjórna samfélaginu, hefur vaxið og kjósendur skynja hefðbundna stjórnmálaflokka ekki sem fulltrúa sína með sama hætti og áður. Þessi leit að flokki sem getur verið „trúverðugur fulltrúi“ umturnar flokkakerfinu, eins og við höfum séð í fylgissveiflum hér á landi allt frá hruni.
Sú leit getur líka leitt okkur í ógöngur, eins og við sjáum víða um heim, þegar háværir öfgamenn höfða til lægstu
mannlegra hvata og færa alla umræðu út á jaðar fordóma, útskúfunar og mannfyrirlitningar.
Sögulegur árangur jafnaðarstefnunnar felst í því að hún hefur í meira en heila öld verið í senn fulltrúi kjósanda í baráttu við ráðandi öfl OG ábyrgt afl til að tryggja landsstjórn í þágu almannahagsmuna. En það verður erfiðara og flóknara með degi hverjum að brúa bilið þar á milli, hér á landi sem í öðrum löndum.
Verkefni okkar á nýrri öld er að þróa svör við þessari stærstu spurningu vestrænna stjórnmála. Til þess þurfum við allt þetta:
Hugsjónaeld, svo fólk treysti sýn okkar; Útfærðar praktískar leiðir að endamarkinu, svo fólk viti að boðskapurinn sé ekki bara tómar skýjaborgir og atkvæðinu verði ekki kastað á glæ; Heilindi og hreinskiptni og vilja til að viðurkenna mistök, ekki hannaða atburðarás eða látlausan gorgeir um eigin verk.
Loforð um að eiga lifandi samtal við þjóðina og bera stórar ákvarðanir undir hana og bakland okkar, ekki bara fyrir kosningar heldur ávallt þegar erfið mál koma upp.
Á þessum grunni getum við skapað þau stjórnmál mannvirðingar, samvinnu og samheldni sem þjóðin þarfnast svo sárt.
Við skulum einsetja okkur það á þessum tímamótum.