Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld var greint frá því að ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal hafa bæði tengst aflandsfélögum.
„Bjarni segist hafa talið að félagið Falson & Co. hafi verið skráð í Lúxemborg. Ólöf segir að félag sem Landsbankinn stofnaði fyrir eiginmann hennar, Tómas Má Sigurðsson, hafi aldrei verið notað. Hvorugt félagið mun lengur vera til.„
Kvennablaðið hefur áður fjallað um fjármálagerninga Bjarna Benediktssonar í grein Atla Þórs Fanndal, Kröfuhafi stígur fram, þar sem meðal annars kemur fram eftirfarandi upprifjun á fjárreiðum fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar:
„Bjarni er ráðherra með ótrúlega sögu þegar kemur að því að flytja fé úr landi.
Árið 2010 fjallaði DV um það hvernig 45 milljarðar voru ryksugaðir úr íslensku hagkerfi og fluttir til útlanda skömmu fyrir hrun. Lykilmenn í plottinu voru Bjarni Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar.
„Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður flokksins, var beinn þátttakandi í viðskiptum eignarhaldsfélagsins Vafnings sem miðuðu að því að safna 45 milljörð um króna í íslenska hagkerfinu í ársbyrjun 2008. Milljarðarnir 45 voru síðan notaðir til að greiða erlend lán tveggja eignarhaldsfélaga í eigu ættingja hans, og viðskiptafélaga í Milestone. Peningarnir voru teknir að láni hjá Glitni, tryggingafélaginu Sjóvá og Kaupþingi,“ segir í umfjöllun blaðsins.
DV fjallaði ítrekað um Vafningsmálið fyrir daufum eyrum. Vafningsmálið snerist um svindl og gríðarlega færslu fjármuna úr landi. Þar á meðal var fé úr tryggingasjóði Sjóvá almennra.
Fjármálaráðherra og faðir forsætisráðherra tóku semsagt þátt í viðskiptafléttu þar sem tryggingasjóður Sjóvá var tæmdur. Tapið féll svo á ríkissjóð – almenning.
Skjáskot úr DV af tölvupóstum Bjarna frá 2009 vegna sölu íbúðar í Dúbaí þar sem fram kemur að hann á reikning í Sviss.
Bjarni og bankareikningurinn í Sviss
Sama ár eða árið 2010 fjallaði DV um sölu Bjarna á íbúð í Dubai og bankareikning sem hann á í Sviss. Blaðið birti tölvupóstssamskipti Bjarna við einstakling sem sér um eignastýringu fyrir hann sem eru hér að ofan. Í tölvupóstinum kemur fram að Bjarni óskaði eftir því að fé væri greitt inn á reikning hans í Sviss. Í samtali við blaðið sagði Bjarni:
„Málið er einfaldlega það að fyrir fjórum árum [2006] keypti ég eina íbúð í Dúbaí. Nú hefur hún verið seld… Þetta eru löngu afstaðin viðskipti. Það sem þú ert að spyrja mig um er ómerkileg endurgreiðsla á útlögðum kostnaði… Þetta er lokafrágangur á útlögðum kostnaði eftir sölu eignarinnar… Þetta eru allt fullkomlega eðlileg viðskipti og allt framtalið í mínum skattframtölum.“
Um ástæðu þess að hann er með svissneska reikninginn sagði Bjarni:
„Ég hef verið með eignastýringu í Sviss. Ég hef verið í viðskiptum við Julius Baer-bankann í Sviss. Þeir hafa séð um eignastýringu fyrir mig.“
Þá gaf hann þá skýringu að íslenskur starfsmaður sem séð hafi áður um eignastýringu fyrir hann hafi hafið störf í svissneska bankanum.
„Þetta er einfaldlega þannig að íslenskur bankastarfsmaður, sem áður sá um eignastýringu fyrir mig, hóf störf í þessum banka og ég færði viðskipti mín yfir til hans.“
Bjarni þverneitaði jafnframt fyrir að eiga „nokkur hundruð milljónir króna“ á reikningum í Sviss.
„Nei, það er algerlega fráleit tala. Ég hef aldrei átt slíka peninga… Ég er ekki stóreignamaður. Ég hef fyrst og fremst ávaxtað mínar eignir á Íslandi. En ég treysti þessum íslenska starfsmanni í þessum banka fyrir ákveðnum hluta af eignum mínum. Það eru engin hlutabréf í því sambandi.“
Er hægt að taka það trúanlegt að fjármálaráðherra hafi ekki fylgst með fjárreiðum sínum frá árinu 2010 til 2016 og að honum hafi aldrei á þessum tíma verið kunnugt um að félagið var ekki skráð í Lúxembúrg heldur á Seychelles- eyjum sem eru alræmt skattaskjól? Á almenningur að trúa því að Bjarni Sigmundur og Ólöf hafi verið grandalausir leiksoppar starfsmanna og ráðgjafa bankanna?
Nú liggur fyrir að söguna þarf Bjarni að rekja söguna, hvenær var félagið Falson & Co., lagt niður – og hvar eru eignirnar?