„Það fara engin mál í gegnum þetta þing,“ sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, á þingi rétt í þessu. Hann sagði stjórnarflokkana ekki skilja annað en að fólk fjölmenni á Austurvöll og sýni að það sé ekki tilbúið að taka þátt í leikriti ríkisstjórnarflokkanna.
Bjarni Benediktsson svaraði með því að rifja upp „Kæri Jón“ bréf Róberts en bréfið tengist tilraunum Róberts Marhsall til að halda NFS-fréttastöðinni gangandi með því að biðla til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, raunverulegs eiganda 365 miðla, um að standa fjárhagslega með rekstri NFS.
Bjarni hafði áður sakað stjórnarandstöðuna um að vera ómálefnaleg. Bjarni hefur farið hamförum á þingi og sakaði bæði Svandísi Svavarsdóttur, þingkonu VG, og Róbert Marshall um að pluma sig best í átökum. Hann sagði stjórnarandstöðuna reyna að skilgreina vandann upp á nýtt með því að tala eins og vandamálið felist í veru manna á listunum.
Róbert Marshall sagði ekki koma til greina að hleypa ríkisstjórninni núverandi í gegn með sín óskamál og boða til kosninga svo eftir eigin hentugleika.