Auður Magndís Auðardóttir skrifar:
Um aðildarumsókn BDSM á Íslandi að Samtökunum ´78
Nú liggur fyrir að BDSM á Íslandi hafa verið kosin aðildarfélag að Samtökunum ´78 á fundi sem var einn fjölmennasti félagsfundur Samtakanna í 38 ára sögu þeirra (ef ekki sá fjölmennasti).
Mig langar að þessu tilefni að stinga niður nokkrum orðum. Fyrst vil ég biðja BDSM á Íslandi hjartanlega velkomin í Samtökin ´78. Ég er glöð að þið fenguð inngöngu og hlakka til að starfa áfram í því fjölbreytta og öfluga hinsegin félagi sem Samtökin ´78 eru orðin. Í öðru lagi langaði mig að skrifa örlítið um þá hugmyndafræði sem liggur að baki aðildarumsókninni og þá umræðu sem hefur átt sér stað um hana.
Kynhegðun vs. kynhneigð
Það hvað telst til kynhegðunar og hvað telst til kynhneigðar hefur síður en svo verið fasti í gegnum söguna. Samkynhneigð sem partur af sjálfsmynd fólks er vestrænt nútímafyrirbæri. Það var meðvituð orðræða samkynhneigðra á síðustu áratugum 20. aldarinnar að færa fókusinn frá kynhegðuninni og yfir á að þetta væri partur af sjálfsmyndinni. Fólk fæðist ekki með samkynhneigða sjálfsmynd – hún verður til í samhengi menningarinnar og sögunnar og er síkvik. Stutt er síðan litið var á samkynhneigð sem eitthvað sem fólk gerir fremur en eitthvað sem fólk er – og í mörgum löndum heims er það enn svo. Þessi skoðun var ríkjandi hérlendis bæði á meðal fólks sem stundaði samkynhneigð og meðal annarra. Þannig var menningarlegt samhengi samkynhneigðarinnar. Fólk sem stundaði samkynhneigð hafði ekki bundist félagi og rætt upplifanir sínar og þar með voru ekki forsendur fyrir því að litið væri á samkynhneigðina sem part af sjálfsmyndinni – þar til mjög nýlega.
BDSM hneigðir standa nú þar sem samkynhneigðir stóðu, hvað þessa umræðu varðar, fyrir 35 árum. Kúgun BDSM hneigðra árið 2016 er alls ólík kúgun samkynhneigðra árið 1978 en hún er engu að síður til staðar og líkindi eru með stöðu þessara tveggja hópa. Einkum þegar við skoðum orðræðuna um kynhegðunina vs. sjálfsmyndina. Í okkar menningu hefur hingað til að mestu verið rætt um BDSM sem kynhegðun. BDSM félagið sjálft talaði um BDSM sem áhugamál í lögum félagsins sem samþykkt voru fyrir einhverjum árum síðan en hafa síðar tekið breytingum.
Eftir því sem fleiri BDSM hneigðir fóru að koma saman og ræða um sína upplifun og sína reynslu af mismunun, ótta og útskúfun varð BDSM hneigð til sem sjálfsmynd. Fólk áttaði sig á að þetta væri stór og órjúfanlegur hluti af því hvernig þau elskuðu, hvernig þau upplifðu náin sambönd og hvernig þau stunduðu kynlíf. Sú upplifun, að þetta væri í raun kynhneigð og hluti sjálfsmyndar, varð til í þessu samfélagi BDSM hneigðra. BDSM sem hneigð og hluti sjálfsmyndar gat ekki orðið til fyrr en samfélag BDSM hneigðra hafði styrkts, rætt saman og fundað – árum saman. Samkynhneigðir eru hópur fólks sem á sér þá sögu að hafa gengið í gegnum einmitt þessa hugmyndafræðilegu breytingu, frá kynhegðun til sjálfsmyndar. Vegna þessarar sögu ættum við að skilja það ferli sem BDSM hneigðir hafa gengið í gegnum á undanförnum árum og bjóða þau velkomin í samstarf við okkur.
Fókus baráttunnar
Því hefur verið fleygt að Samtökin ´78 muni missa fókus á réttindabaráttu sinni með auknu samstarfi við BDSM á Íslandi. Ef við skoðum þá sögu sem rakin er hér að ofan, sem er sagan frá kynhegðun og yfir til sjálfsmyndar, má færa rök fyrir því að BDSM hneigð passi eins og flís við rass inn í Samtökin ´78 við hlið samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, pankynhneigðra og eikynhneigðra.
En jafnvel ef við kjósum að taka skilgreiningarvald á því hvort BDSM sé hneigð eða ekki í okkar eigin hendur og færum rök fyrir því að þetta sé raunverulega aðeins kynhegðun eða blæti, þá mætti einnig færa rök fyrir því að BDSM passi undir regnhlífina. Ég vil taka það fram að mér finnst að skilgreiningarvaldið á því hvort tiltekin þáttur í lífi fólks, í þessu tilfelli BDSM, sé blæti eða hneigð skilyrðislaust eiga að liggja hjá þeirri manneskju sem er að upplifa þessa þætti. Sjálfsskilgreiningarvald á tilfinningum sínum og upplifunum hefur verið rauður þráður í baráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, trans fólks og intersex fólks og við ættum því einnig að leyfa öðru fólki að njóta þessa valds í sínu lífi.
En segjum sem svo að BDSM sé eingöngu alltaf blæti. Í því samhengi má benda á tvennt. Annars vegar að það er ekkert sem segir að blæti geti ekki talist hinsegin. Það snýst um kynverund, kynlíf og í mörgum tilfellum um uppbrot á samfélagslegum stöðlum. Fyrir mér getur slíkt mjög vel átt heima undir hinsegin regnhlífinni. Ef fólk verður fyrir óréttlæti vegna síns blætis finnst mér skyldleiki þess við fólk sem verður fyrir óréttlæti vegna kynhneigðar vera slíkur að fólk geti vel tilheyrt sömu regnhlífarsamtökunum.
Hins vegar hefur undanfarin ár hefur skapast góð sátt við að bæði trans fólk og intersex fólk tilheyri Samtökunum´78 og að þau beiti sér í þeirra baráttu. Hvað intersex fólk varðar þá rann umsókn þeirra mótatkvæðalaust í gegn á aðalfundi 2015 að undangegnum einum kynningarfundi. Hvorki það að vera trans né að vera intersex hefur nokkuð með kynhneigð að gera og margt trans og intersex fólk er gagnkynhneigt. Það er því ekkert nýtt að Samtökin ´78 beiti sér gegn mismunun á grundvelli annarra þátta en kynhneigðar. Það væri vissulega að einhverju leyti nýr fókus að taka inn fólk sem verður fyrir óréttlæti vegna kynhegðunar sinnar – en ef við skoðum sögu samkynhneigðar má þó sjá að það var akkúrat einmitt sú staða sem samkynhneigðir voru í lengi. E.t.v. væri því fókusinn ekki að fara neitt óskaplega langt í burtu.
Laskað vörumerki Samtakanna ´78
Að endingu langar mig að minnast á þann ótta að Samtökin ´78 séu nú „laskað vörumerki“. Að aðild BDSM á Íslandi hefði ekki átt að verða að veruleika vegna þess að neikvæð ímynd BDSM í hugum almennings muni ógna jákvæðri ímynd Samtakanna ´78. Þessi ótti er skiljanlegur og hann ber vott um hversu hversu óörugg við sem höfum lengur verið í Samtökunum ´78 erum gagnvart samfélagi sem veitti sumum okkar sjálfsögð mannréttindi rétt í gær. Það óöryggi er raunverulegt og skiljanlegt. Við þessu langar mig þó að segja mannréttindabarátta er ekki vinsældakeppni og verður ekki stýrt af afstöðu meirihlutasamfélagsins til okkar. Þannig hafa engir sigrar nokkurntíman unnist. Samtökin ´78 bera í dag undirtitilinn „samtökin hinsegin fólks á Íslandi“. Ef við gefum BDSM hneigðum sjálfsskilgreiningarvald til að skilgreina sínar upplifanir og setja á þær orð, rétt eins og við höfum krafist þess að fá að gera varðandi okkar eigið líf, þá liggur ljóst fyrir að þau eru hinsegin.
Við getum ekki sem félag hinsegin fólks á Íslandi hafnað hluta hinsegin fólks á þeim forsendum að þau verði fyrir svo miklum fordómum og ímynd þeirra í samfélaginu sé svo neikvæð að við séum hrædd um að það skaði orðspor hinna sem eru hinsegin á annan hátt og fyrir eru í félaginu. Það er andstætt grunngildum mannréttindabaráttu. Það er óréttlátt. Slíkt útspil hefði stórskaðað ímynd Samtakanna ´78 sem í tugi ára hafa barist fyrir víðsýni og fordómaleysi. Ég er glöð að við höfum ákveðið að gera það áfram.
Höfundur er félagsfræðingur með kynja- og stjórnmálafræði ívafi. Auður Magndís hefur verið virk í femíniskri baráttu í um 15 ár og í hinsegin baráttu í um 4 ár. Hún starfar nú sem framkvæmdastýra Samtakanna ´78 en skrifar að sögn þennan pistil ekki sem slík þó auðvitað hafi starfið áhrif á afstöðu hennar í málinu sem um ræðir.