Í þau 20 ár sem Eva Joly var rannsóknardómari í Frakklandi var hún eiðsvarin og þagði. „Nú er hið talaða orð mitt eina vopn,“ segir hún.
Árið 2006 kom út bókin Justice under Siege eftir Evu. Þar gerir hún grein fyrir sakamálarannsókn og málarekstri sínum og samstarfsmanna sinna gegn franska olíurisanum Elf. Inn í spillingarvef áhrifakaupa, mútugreiðslna og fjársvika drógust ráðherrar og forstjórar. Árum saman, meðan rannsókn Elf-málsins stóð yfir, gættu lífverðir Evu vegna margvíslegra hótana og innbrota á heimili hennar. Frásögnin er áhrifamikil og ályktanir hennar þurfa ekki að koma á óvart:
„Alþjóðavæðing fjármálastarfseminnar og tæknibyltingar hafa gjörbreytt viðmiðum okkar. Án takmarkana, án reglna og undir leyndarhjúpi hefur stórfelld spilling grafið um sig og ógnar nú undirstöðum lýðræðisins og brýtur niður traust almennings sem er ómissandi stoð stjórnmálastarfseminnar.“
Reynsla Evu Joly hefur kennt henni að dómstólum í öllum löndum reynist auðveldara að dæma „niður fyrir“ sig en „upp fyrir“ sig. Þetta merkir að réttarvörslukerfi og dómstólar taka mildilega eða jafnvel alls ekki á fólki í efstu lögum samfélagsins. Forréttindahópar lifa með öðrum orðum í hægindum refsileysis (impunity).
Eva Joly, sem er nú virkur þátttakandi í stjórnmálum í Frakklandi, átti árið 2003 þátt í að semja svokallaða Parísaryfirlýsingu fjórtán rannsóknardómara frá mörgum Evrópulöndum. Meðal þeirra sem undirrituðu yfirlýsinguna voru spænski rannsóknardómarinn Baltazar Garzón, Antonio di Pietro, fyrrverandi dómari frá Ítalíu, og svissneski dómarinn Bernard Bertossa.
Parísaryfirlýsingin felur í sér þrjár einfaldar grundvallarreglur sem styðja eiga réttlátt dóms- og réttarkerfi:
1) Gagnsæi er eðlileg fylgiregla frelsis; gagnsæi án frelsis brýtur í bága við mannréttindi. Ef ógagnsæi fylgir frelsinu greiðir það leið til lögbrota.
2) Hnattvæðing laganna er lífsnauðsynleg hnattvæðingu viðskiptanna. Lönd sem hylma yfir lögbrot og fjársvik ættu ekki að hafa óskertan rétt til bankastarfsemi.
3) Lögbrot valdamanna skaða mikilvæga þjóðarhagsmuni. Hert viðurlög, heimild til eignaupptöku og aðhald með bankastarfsemi eru varnir sem grípa verður til gegn slíkri samfélagsógn.
Hvernig skyldi fyrsta grunnreglan um gagnsæi og frelsi horfa við því nýja Íslandi sem þjóðin batt vonir við að risi við sjóndeildarhringinn í kjölfar bankahruns og búsáhaldabyltingar og síðar í kjölfar tilrauna til lýðræðisumbóta og siðbótar í viðskiptalífi og stjórnmálum?
Varla verður því á móti mælt að íslensk þjóð njóti frelsis í almennum skilningi og borgararnir hafi tiltölulega mikið svigrúm til athafna í viðskiptalífi, stjórnmálum og í margvíslegu öðru tilliti. En ekki er allt sem sýnist. Hér á landi hefur þróast siðmenning samtryggingar í stjórnmálum og viðskiptum á löngum tíma með ríku forræði tiltekinna flokka og hópa. Auðvelt er að nefna helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hún snerist í fyrstu um skiptingu fjárhagslegra ávinninga dyggra flokksmanna af veru bandaríska setuliðsins á Keflavíkurflugvelli. Um hálfri öld síðar gætti hennar enn þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir árin 2002 og 2003. Forystumenn þessara tveggja flokka hlutuðust með beinum hætti til um að þóknanlegir menn fengju að kaupa bankana.
Leyndarhyggja og ógagnsæi kyndir undir tortryggni, enda leiðir af reglu Joly að þar sem frelsi ríkir án gagnsæis eykst hættan á lögbrotum.
(Úr bókinni „Þræðir valdsins“ eftir Jóhann Hauksson sem kom út 2011)