Tara Ösp Tjörvadóttir skrifar:
Eigin fordómar höfðu haldið mér í gíslingu þegar ég opnaði mig opinberlega um veikindi mín, eftir 11 ára baráttu, í lok síðasta árs. Stór hluti ævi minnar hefur farið í að mastera feluleik sem er ekki að gera mikið fyrir framtíðina nema ég fái skyndilega löngun til að reyna við Íslandsmetið í honum.
Það að byrðin af því að fela þunglyndið hafi verið þyngri en sjúkdómurinn sjálfur er átakanleg staðreynd hjá mörgum sem glíma við andlega sjúkdóma. Eigin fordómar hindra okkur í að sækja hjálp, þeir hindra okkur í að tala um baráttu okkar, en það er ekki fyrr en við förum að tala um veikindin sem okkur fer að batna. Meðaltími sem þunglynd manneskja bíður eftir að fá hjálp frá því hún veikist og þar til hún leitar sér hjálpar eru 10 ár og þunglyndi rétt eins og aðrir sjúkdómar getur versnað með tímanum.
Það að þunglyndi sé meginorsök vanvirkni einstaklinga í heiminum er mikið áhyggjuefni og sjúkdómurinn fer ört vaxandi. Við þurfum að grípa inn í áður en það er um seinan.
Við þurfum að fræða börnin og unglingana okkar um andlega sjúkdóma til að fyrirbyggja eftir bestu getu langvarandi andleg veikindi.
Við þurfum að kenna samfélaginu að tala um andlega sjúkdóma og fjalla um þá eins og líkamlega sjúkdóma.
Verum stolt af baráttum okkar og annarra við andleg veikindi og styðjum hvort annað því við erum langt frá því að vera ein.
Í framhaldi af frelsun minni úr þeim þunglynda skáp sem ég bjó í fór ég af stað með verkefnið Faces Of Depression (100 andlit þunglyndis). Verkefnið var hugsað til að vekja samkennd með sjúkdómnum auk þess að vera vettvangur fyrir fólk til að opinbera veikindi sín. Ég setti það markmið að mynda 100 Íslendinga og kláraði það verkefni í lok febrúar.
Horfið í andlit þessa fólks og sjáið þau mikilvægu skilaboð sem þau senda út í samfélagið:
Baráttan á langt í land og næsta verkefni mitt er fræðslu-heimildarmyndin Depressed Nation, eða Þunglynda þjóðin, þar sem ég mun meðal annars taka viðtöl við fólk sem hefur reynslu af þunglyndi.
Myndin mun fræða þig bæði um þunglyndi, áhrifin sem fordómar hafa og hvað við getum gert til að gera samfélag okkar að virkari, samstæðari og heilbrigðari stað til að búa á. Hún verður á íslensku, með áherslu á að fræða börn og unglinga í grunn- og menntaskólum, og hún verður gefin út með enskum texta svo boðskapurinn dreifist sem víðast.
Fordómar eru byggðir á fáfræði og skorti á samkennd og það er það sem heimildarmyndin mun vinna með. Ég trúi því að með fræðslu getum við eytt þeim fordómum sem andlegir sjúkdómar verða fyrir í samfélaginu.
Fyrra verkefnið kostaði ég að mestu leyti sjálf en nú þarf ég á ykkar hjálp að halda. Ég hef sett af stað söfnun á Indiegogo þar sem hægt er að leggja fram frjáls framlög eða velja að fá frábær verðlaun fyrir styrk.
Markmiðið er að ná viðtölum fyrir myndina óháð búsetu og efast ég ekki um að ég finni frábært fólk um allt land sem hefur sögu að segja.
Líf mitt umturnaðist þegar ég steig fram með veikindi mín, og ég hvet alla til að gera það sama.
Takk fyrir að vera hluti af baráttunni fyrir fordómalausu samfélagi!