Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Út með þessa umboðslausu ríkisstjórn!

$
0
0

Kristín Vala Ragnarsdóttir flutti eftirfarandi ræðu á Austurvelli 16. 4. 2016:

13054483_10208514114426789_1069364222_o

Út með þessa umboðslausu ríkistjórn!  Sigurður Ingi – þið hafið einungis 35% þjóðarinnar á bak við ykkur samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum! Þið fengjuð 22 þingmenn ef kosningar væru í dag.  Hættið að stagla á að þið hafið meirihluta á þingi – þið höfðuð þingmeirihluta eftir kosningar 2013 en nú, þremur árum seinna, er stjórnin rúin trausti þjóðarinnar og því umboðslaus!  Þess vegna viljum við kosningar strax!

Lifandi lýðræði – hvað er það?  Á forsíðu nýjasta tölublaðs Grapevine stendur: Kerfið virkar – út með það gamla, inn með það nýja!  Við þúsundir ögndofa þjóðfélagsþegna höfum sýnt að við erun búin að fá nóg. Það er orðið kristaltært að uppgjörið á siðleysinu fyrir hrun hefur ekki farið fram. Nú þurfum við að mótmæla uns við fáum nýjar kosningar og splunkunýja ríkisstjórn – ekki haltrandi stjórn með plástra líkt og þá sem Sigurður Ingi hefur leitt í viku. Við viljum kjósa inn þá sem hafa siðferðiskennd og gildi sem við getum sætt okkur við. Við viljum ekki ráðamenn sem verja laskaðan Sigmund Davíð sem varð að hrökklast frá ráðherraembættinu eftir að ljúga blákallt í viðtali. Svo heldur hann í formanninn!

Þurfum við að kafa djúpt og leita að þeim gildum sem við viljum byggja okkar samfélag á?  Nei, það þarf ekki að leita langt. Nær 1500 landsmenn, sem valdir voru með slembiúrtaki á Þjóðfundinn 2009 völdu gildin: Heiðarleiki, réttlæti, jafnrétti, virðing, ábyrgð og kærleikur.  Einnig lýðræði, sjálfbærni, jöfnuður og traust.  Ríkistjórnin Sigmundar Davíðs féll á þessum gildum. Hún kunni ekki eða vildi ekki lifa eftir þeim.

Lilja Dögg, nýskipaður utanríkisráðherra og hennar fólk í ráðuneytinu, komsust að þeirri undarlegri niðurstöðu eftir 2 daga í starfi: Að ímynd og ásynd Íslands hafi ekki beðið umtalsverða hnekki vegna erlendrar umfjöllunar um aflandsfélagaeign íslenskra ráðamanna. En það er vitanlega ekki rétt.  Maðurinn minn var að koma frá Svíþjóð þar sem honum var margoft sagt að það eina sem heldur heiðri Íslands uppi á erlendri grund eru mótmælin fyrir framan Alþingishúsið.  Þess vegna er ég mjög stolt af því að hafa verið virkur þátttakandi og að standa hér með ykkur í dag!

Ég á möppu á tölvunni minni sem ég hef gefið heitið „Baráttan um Ísland“.  Sá tími sem ég hef hér er of stuttur til að fara yfir öll málin, en ég ætla að minnast á nokkur:

Fyrst er það náttúran.  Gerð hefur verið atlaga að hálendi Íslands og það lagt undir víðfermd lón til framleiðslu orku til stóriðju.  Jökulár sem bera örfínt set til sjávar – sem er fæða fyrir vistkerfin þar – eru nú að skilja næringarefnin eftir í lónum á hálendinu. Í gangi er námuvinnsla orkunnar úr jarðhitakerfinu á Hellisheiði – líka til að knýja stóriðju.  Raflína yfir Sprengisand og sæstrengur til Bretlands er í hugum margra möguleiki.  Nú verðum við að stöðva þessa eyðileggingu á landinu. Stofnum þjóðgarð á miðhálendinu, líkt og Landvernd og samstarfsfélög hafa lagt fram!  Kjósum flokka sem hafa verndun landsins og miðhálendisþjóðgarð á stefnuskrá sinni!

Svo er það hagkerfið.  Það væri etv unnt að réttlæta að 80% af orkuframleiðslu á Íslandi fari til stóriðju ef íslenska þjóðin væri að hagnast af þessari starfsemi.  En svo er ekki. Við seljum raforkuna til stóriðjunnar fyrir spottprís. Arður Landsvirkjunar síðan álframleiðsla hófst fyrir 45 árum er lauslega reiknaður 3%. 3%. Norðmenn fá 78% af söluvirði olíunnar í sinn olíusjóð.  Þess vegna er Noregur ríkasta land í heimi.  Í ofanálag borga erlendu stórfyrirtækin sem eiga stóriðjuna ekki skatta á Íslandi.  Þessi fyrirtæki hafa álíka klóka stjórnendur og Íslenskir auðmenn – þau koma arði sínum í skattaskjól – allt undir blessun ríkisstjórnarinnar.   Álverin nota um 75% af þeirri raforku sem framleidd er í landinu en leggja innan við 2% að mörkum hvort sem litið er á þjóðartekjur eða atvinnusköpun.

Niðurstaðan er – að eftir að eyðileggja hlálendið okkar fyrir lón og blása orkunni of hratt út úr jarðhitakerfunum okkar – fáum við einungis nokkur hundruð störf.

Einnig tökum við allt of lítil veiðigjöld af útgerðarmönnum, sem eru að auðgast af því að veiða fiskinn okkar.  Það var fyrsta skref ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs að samþykkja ekki sanngjörn veiðigjöld til þjóðarinnar. Í stað þess borgar útgerðin sér milljarða í arð á meðan að sýndarveiðigjald fer í ríkiskassann.

Í ofanálag er verið að undirbúa sölu ríkiseigna undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þess vegna situr hann sem fastast í fjármálaráðherrastólnum. Þetta vill hann klára fyrir kosningar sem sagðar eru að eiga vera í haust, ef stjórnarandstaðan verður samvinnuþýð!  Þessi söluferli verðum við að stöðva!  Ég vil að þjóðin eigi stóru bankana, ekki sérvaldir vinir og vandamenn ráðamanna.  Ég vil að þjóðin eigi heilbrigðiskerfið – ekki braskarar sem vilja auðgast á veikindum okkar.  Ég vil að þjóðin eigi orkuflutningskerfin og orkufyrirtækin – ekki fjármálaspekúlantar sem eru að falast eftir framtíðarorku.

IMG_4594

Næst dreg ég út úr möppunni minni málefni um samfélagið og lýðræðið.  Til að stemma stigu við eyðileggingu náttúrunnar og arðráni erlendra auðhringja og íslenskra útgerðarmanna – verðr Alþingi að samþykkja nýju stjórnarskrána strax.  Þess vegna þurfum við kosningar núna- og ég hvet ykkur til að kjósa flokka sem hafa nýja stjornarskrá í stefnu sinni. Sama með forseta!  Kjósum forseta sem vill nýja stjórnarskrá! Nýja stjórnarskráin var skrifuð af almennum borgurum, ekki atvinnupólitíkusum.  Rætur hennar eru í þjóðfundinum 2009 og síðan öðrum þjóðfundi 2010 sem fjallaði sérstaklega um nýja stjórnarskrá.  Nýja stjórnarskráin styrkir lýðræðið.  Ég vil nýju stjórnarskránna strax – og það óbreytta!

Það er ekki hægt að mótmæla hér á Austurvelli nema að minnast á spillinguna sem ríkir í okkar samfélagi.  Hér ríkir frændsemi, hagsmunapot, vinapot og blinda á hagsmunatengsl og mikilvægi ábyrgðar ráðamanna.  Það er hægt að draga fram mörg dæmi.  T.d. Sala Landsbankans á Borgun til föðurbróður fjármálaráðherra.  Lekamálið – Hanna Birna hékk í ráðherrastólnum í meira en ár – en hefði vitanlega átt að taka ábyrgð og segja af sér strax!  Geir Haarde var gerður að ambassador í Washington eftir að vera dæmdur af Landsdómi fyrir afgöp í starfi! Svo eru það tengsl margra ráðamanna við aflandsfélög – nokkuð sem þekkist varla í öðrum löndum – og ég geri ráð fyrir að margt eigi eftir að koma fram á næstu vikum.  Yfirlit yfir fjárflæði út frá Íslandi til Lúxemborgar, Panama og Tortóla – og síðan til Íslands aftur – sem yfirlit var yfir í Fréttatímanum í gær – er hneyksli. Umhverfið var búið til undir verndarvæng ríkisstjórna fyrir hrun. Það er ekki nema von að landið hafi farið á hausinn.  Munið að lánatakan hjá Alþjóða gjardeyrissjóðnum eftir hrun var helmingi lægri en það fé sem stungið hafði verið undan í skattaskjól.

Svo er það vellíðan þjóðfélagsþegna og velferðarkerfið okkar.  Sala heilbrigiðkerfisins er tímaskekkja.  Til að auka vellíðan þjóðfélagsþegna þurfum við þess í stað að styrkja ríkiskerfið sem verið er að fjársvelta.  Þetta er velþekktur leikur nýfrjálshyggumanna.  Láta ríkiskerfið rotna vegna fjárskorts, síðan benda á að ríkiskerfið sé ekki að skila þeirri þjónustu sem það á að gera, og einkavæða síðan kerfið.  Við þurfum að sjá til þess að allir hafi aðgang að sanngjarnri og öflugri ríkisreknri heilbrigðisþjónustu – sem næer ekki einungis yfir almenna heilsu, heldur einnig geðheilsu og tannheilsu. Einnig þurfum við að gefa öryrkjum reisn. Við þurfum kosningar strax til að koma í veg fyrir sölu heilbrigðisþjónustunnar!

Það var grein í Kjarnanum í gær með yfirskriftinni hvað liggur að baki hjá skipuleggjendum mótmæla? Og ein vinkona mín svaraði á fésbók:

,,Ætli það sé ekki einfaldlega það að langlundargeðið er brostið. Niðurrif heilbrigðisþjónustu, sala ríkiseigna, faldir fjársjóðir úr sveltum sameiginlegum pottum, auðmannadekur og ill meðferð á landinu…. nú fyrir utan almennt stefnu- og getuleysi vegna spillingar.“  Ég hefði ekki getað orðað þetta betur!

Í nýjasta tölublaði Stundarinnar má sjá viðskiptalegar krosstengingar formanna framsóknarflokksins og sjálfstæðis-flokksins. Styrkjum Kjarnann, Stundina og Reykjavík Media til að halda áfram að fletta ofan af spillingunni.  Nýtum þá þekkingu til að byggja upp sanngjarnt samfélag sem við getum verði stolt af!  Nýtið tækifærið og talið við fólkið í kring um ykkur hér í dag. Myndið ný tengsl.  Hlustið á hvort annað! Vinnið saman! Við erum sterkt afl saman!

Ég vil að lokum nota tækifærði til að þakka Jæja hópnum – og öðrum hópum sem vinna með þeim – fyrir þrautseygjuna við að skipulegga mótmælin. Teljararnir! Skiltakarlarnir! Jæja! Takk! Þið hafið réttlætiskennd og von um að hægt sé að breyta samfélaginu til hins betra og að það þróist áfram.

Þið eruð hetjur í mínum huga!

Gefumst ekki upp!

Út með þessa umboðslausu ríkisstjórn!

Kosningar strax!

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283