Þann 6. febrúar í fyrra skrifaði ég fréttaskýringu um „Norðurslóðaforsetann“ Ólaf Ragnar Grímsson í DV. Leitt var líkum að því að hann myndi bjóða sig fram til forseta árið 2016 ef honum mistækist að verða einskonar sendiherra og verndari Norðurslóða á alþjóðavettvangi.
Greininni lauk á eftirfarandi hátt:
„Eftir liðlega tíu ár á stóli forseta, árið 2007, tók Ólafur Ragnar við viðurkenningu fyrir forystu um samstarf og sjálfbæra þróun á norðurslóðum á ráðstefnu í Alaska. Verðlaunin voru veitt af Norðurstofnuninni, Institute of the North, sem hefur aðsetur í Anchorage í Alaska. Þótti Ólafur Ragnar hafa verið ötull um málefni og baráttu fyrir aukinni samvinnu íbúa á norðurslóðum, sjálfbæra þróun og verndun náttúrunnar.
Eins og ráða má af svörum við spurningum um ferðalög forsetans undanfarin misseri hefur áhugi hans á málefnum norðurslóða síður en svo dalað. Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort Ólafur Ragnar hyggist bjóða sig fram til forseta enn á ný árið 2016. Umræðan hefur orðið til þess að búið er að stofna síður á Facebook þar sem annars vegar er skorað á hann að bjóða sig fram á ný en hins vegar að láta gott heita árið 2016 og stíga niður af forsetastóli eftir 20 ár á Bessastöðum. Þegar þetta er skrifað höfðu um 1.100 manns á Facebook lýst velþóknun við hann sæti til 2020 en hátt í 900 vildu að hann sæti aðeins til 2016.“
Hvað ætlaðist hann fyrir?
Af þessu tilefni er ástæða til að rifja upp að í marsmánuði 2012, daginn sem Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt í fimmta skipti, sagði hann eftirfarandi:
„Og eftir þónokkra umhugsun þá varð það niðurstaða mín að verða við þessum óskum, en þó með þeim fyrirvara, eins og ég nefndi í yfirlýsingunni, að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði varðandi stjórnskipun og stöðu mála í landinu, þá hafi menn á því skilning að ég muni þá ekki sitja út allt næsta kjörtímabil, og forsetakosningar færu þá fram fyrr en ella.“
Ekki vildi Ólafur Ragnar ræða þessi orð sín eftir að hann hafði náð kjöri og ritari hans taldi óviðeigandi að framlengja orð Ólafs Ragnars úr kosningabaráttunni inn í forsetatíð hans.
Engar skýringar hafa síðar verið gefnar á þessum ummælum forsetans og ekkert bendir til þess að hann sé á förum þegar um eitt og hálft ár er eftir af kjörtímabili hans.
Vel er hugsanlegt – og aðeins sett hér fram sem tilgáta – að fyrir þremur árum hafi Ólafur Ragnar bundið vonir við að geta gerst eins konar alþjóðlegur sendiherra og verndari norðurslóða og gegnt mikilvægu hlutverki hjá alþjóðastofnunum varðandi þær og loftslagsbreytingar. Hafi skipuleg vinna hans að slíku markmiði ekki borið árangur enn má telja líklegt að hann íhugi að minnsta kosti að bjóða sig fram eitt kjörtímabil enn sem forseti íslenska lýðveldisins.“