Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lýðræði, skrílræði eða auðræði

$
0
0

 Hákon Helgi Leifsson skrifar:

Auðvaldið sér um sína. Hræsni, hroki, lygar og valdgræðgi þeirra sem segjast vinna fyrir hagsmuni okkar allra eru nú afhjúpaðar. Þetta vor bar með sér illan þef frá suðrænum eyjum. Fréttamenn víðs vegar að fluttu okkur fréttir af því sem allir vissu en ekki var hægt að sanna, fyrr en nú. Að Auðvaldið sér um ekkert nema sig sjálft.

Í krafti lyga, frændhygli og eiginhagsmuna tóku hér völd loddarar í jakkafötum. Einn þeirra var meira að segja svo ósvífinn að hann komst til valda með loforðum um okkar hagsmuni, mögulega til þess eins að bjarga sínum eigin.

Ég hef áhyggjur. Það virðist herja á okkur landlægt vonleysi. Venjulegt fólk er orðið svo dofið vegna síendurtekinna hneykslismála að það er farið að gefast upp.

„Þetta breytist aldrei“, „þetta hefur alltaf verið svona“, „Þeir eru allir eins“, heyrir maður daglega sagt með uppgjafartón.

Ég finn það þetta á eigin skinni, þetta er og hefur verið viðvarandi ástand hér á Íslandi í marga áratatugi. Gjaldþrot nýfrjálshyggjunnar sem pólitískri stefnu lá fyrir augum allra eftir hrun. Þrátt fyrir það, kusum við yfir okkur þá flokka sem eru helstu talsmenn hennar. Við létum einfaldlega plata okkur. Það er ekkert skrítið að fólk sé uppgefið. Hlutverk Alþingis virðist alltaf gleymast. Flokkarnir og stjórnmálamenn eiga að vinna fyrir hagsmuni okkar allra, ekki fárra.

Hvað er að gömlu stjórnarskránni?
Aristókratía, skrílræði, auðræði, lýðræði

„Með öðrum orðum er íslensk stjórnskipun reist á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði sem líta má á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og lýðhyggju (poppúlisma).“

– Skúli Magnússon, lögfræðingur og dósent við lagadeild Háskóla Íslands

Stjórnarskrá okkar Íslendinga hefur þjónað landinu. Mig langar að segja vel, en ég á ansi erfitt með það. En kannski hollt að rifja tilurð hennar upp í stuttu máli. Þannig gæti frekar sýnt fram á hvers vegna ég er á báðum áttum.

Hún er vissulega samin eftir öldurót og stríð stétta í Evrópu og annars staðar. Franska byltingin var hvatinn að nýjum samfélagssáttmálum á Vesturlöndum öllum. Áhrifavaldar hennar, stórmenni í stjórnspekinni. Montesquieu, Locke, Jefferson, Rousseau, Smith, Mill og margra ef ekki flestra stjórnspekinga upplýsingarinnar sem og fyrri tíma.

En það gleymist oft í umræðunni í hvaða tilliti hún var innleidd í Danmörku 1849. Það var ekki vegna ákalls bænda um betri hag, hvað þá fátækra verkamanna. Fáir hópar, nema þeir ríku, höfðu rödd á þessum tíma. Raunin er og það sem sjaldan kemur fram, er að stjórnarskráin var uppgjöf Friðrik 7. Danakonungs til aðalsmanna og eignarfólks. Eða, eins og það kallaðist þá, aristókrata.

Áður en ég skrifa meira þarf ég að koma nokkrum orðskýringum fram.
Hvað þýðir skrílræði, lýðræði, auðræði og aristókratía?

„Skrílræði“ er hugtak úr stjórnspeki Forn-Grikkja, á ensku ,,mobrule“. Þeir sögðu skrílræði dökku hlið eða andhverfu lýðræðis.

Aristókratía er stjórnarfar þegar aðalsfólk stjórnar [eða hinir bestu], ekki út frá eiginhagsmunum heldur þjóðar. Andhverfa Aristókratíu er þegar „hinir bestu“ hætta að stjórna með hagsmuni heildarinnar í huga og stjórna út frá eiginhagsmunum. Slíkt heitir auðræði.

Lýðræði       —–>> Skrílræði
Aristókratía  —->> Auðræði

Hér er örlítil skýringarmynd á samhengi hugtakanna í stjórnspeki Forn-Grikkja.

Með ofangreint í huga er ágætt að staldra við og hugsa á hvaða grunni stjórnarskrá okkar núverandi er samin. Ég hugsaði mikið um þetta eftir að ég las grein eftir Skúla Magnússon. En hann á tilvitnunina sem ég vísa í hér að ofan.

„Með öðrum orðum er íslensk stjórnskipun reist á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði sem líta má á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og lýðhyggju (poppúlisma).“

Þessi tilvitnun Skúla fór sem eldur í sinu í gegnum samfélagið. Fyrir það fyrsta er viðurnefnið sem mótmælendum er ljáð byggt á neikvæðum grunni. En að mínu mati eru grunnforsendurnar sem Skúli gefur sér rangar.

Hann segir að Ísland sé byggt á stjórnskipulegu lýðræði. Vissulega er búið að lappa upp á núverandi stjórnarskrá í átt að frekara lýðræði. En forsendurnar í upphafi eru rangar. Það voru ekki lýðræðishugsjónir sem hirtu vald af Friðriki 7. Heldur hugsjónir auðvaldsins.

Sterk rök má færa fyrir því að kerfið okkar í raun stjórnskipulegt auðræði.

 Framtíðin

Núverandi kerfi er gjaldþrota siðferðislega. Það er fullreynt. Þetta er ekki spurning um vinstri eða hægri pólitík. Enda er lýðræði hugtak sem kom árþúsundum á undan vinstri/hægri skilgreiningum.

Nei, ástæðan er augljós og ástæðan er einföld.

Það er grunnurinn sem er ónýtur. Það skiptir nefnilega engu máli hversu fínt hús þú byggir. Ef grunnurinn er lélegur hrynur húsið eins og spilaborg þegar á reynir. Við viljum byggja stjórnarfarið okkar á traustum grunni. Til þess var nýja stjórnarskráin samin.

Ég kalla þess vegna eftir afstöðu allra flokka sem bjóða fram til næstu alþingiskosninga. Þá skiptir engu máli hvort þeir séu til hægri eða vinstri í hefðbundnum skilningi. Enda, eins og áður er rakið,  byggist nýja stjórnarskráin ekki á slíkum skilgreiningum.

Þetta snýst ekki um félagshyggju eða markaðshyggju. Þetta snýst ekki um einn flokk eða annan. Þetta er augljóst.

Nýja stjórnarskráin er lang mikilvægasta, lang stærsta og lang brýnasta hagsmunamál okkar Íslendinga. Það hefur eingöngu einn flokkur opinberlega það sem helsta mál að koma hér á nýju stjórnarskránni. Þögnin frá öðrum flokkum er bæði lýsandi og æpandi.

Hverjum er treystandi?

Ég endurtek. Ég kalla eftir skýrri afstöðu allra flokka, sem og forseta Íslands, varðandi stjórnarskrána nýju. Ætlið þið að beita ykkur fyrir innleiðingu hennar, eða ætlið þið að verja hagsmuni auðvaldsins?

Þessi spurning kann að hljóma eins og tilfinningaleg, svart/hvítt, rökvilla. En í ljósi sögunnar, bæði vegna tilurðar þeirra gömlu sem og reynslu okkar af henni, þá tel ég svo ekki vera. Að mínu mati er ekkert mál, sama hversu stórt, dýrt eða aðkallandi það lítur út fyrir að vera, mikilvægara en nýja stjórnarskráin. Boltinn er hjá ykkur.

[Viðbót]

Núna hefur Ólafur Ragnar Grímsson gefið kost á sér aftur í embætti forseta Íslands. Komið hefur fram að honum hugnast nýja stjórnarskráin illa, enda grefur hún undan valdi embættisins. Það virðist vera tilviljunarkennt alræðisvaldið sem hann tekur sér, en alltaf „í nafni lýðræðisins“ að eigin sögn.

Vissulega gerði hann vel þegar kom að Icesave-málinu. En hvað með hin málin?

Hann synjaði beiðni almennings um að staðfesta ekki frumvarp um afnám veiðigjaldsins og setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, þrátt fyrir að undirskriftir 35.000 manns lágu fyrir. Hvar var hagur almennings þá? Hann synjaði fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma þrátt fyrir að færri undirskriftir bárust.
Hvaða hvatir lágu þar að baki?

Málskotsréttur tekur allan vafa um hvort mál rati fyrir dóm þjóðar eða ekki. Eins og staðan er núna eru það geðþóttaákvarðanir forseta. Það er vald sem engum einum einstaklingi er hollt að hafa. Allir geta verið sammála um að geðþótti og vald fer illa saman.

Það er eitt sem öll lýðræðisríki verða að geta reitt sig á ef þjóðfélaginu á að vegna vel. Það er samræmi. Ný stjórnarskrá leggur þar línur. Að mínu mati er forsetaembættið leifar af gömlum tíma.

Embættið var örlítið bein sem aristókratar gáfu konungi Danmerkur á sínum tíma til þess að hann yrði örlítið meira en punt. Það voru hins vegar ekki lýðræðissjónarmið sem lágu þar að baki frekar en fyrri daginn. Eingöngu hagsmunir auðræðisins.

 

Höfundur er að sögn  vinstrisinnaður kapítalisti, hægrisinnaður sósíalisti, forræðishyggður anarkisti og femínisti. Honum er afar illa við ramma skilgreininga og staðalímyndir.  Hákon Helgi situr í stjórn ADHD-samtakanna og er Pírati af lífi og sál.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283