Fréttatilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem mótmæla yfirlýsingu forsætisráðherra
Í viðtali við Ríkissjónvarpið í fréttum í gærkvöldi lýsti forsætisráðherra því yfir að hann hefði ástæðu til þess að vera bjartsýnn fyrir hönd flokksins, þrátt fyrir ólgutíma í pólitík. Það sagðist hann gera með því að byggja á því sem flokkurinn: “hafi gert, sagst ætla að gera…og síðan framkvæmt”.
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla þessari yfirlýsingu forsætisráðherra og minna á að helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins var að afnema verðtryggingu neytendalána.
Þetta helsta kosningaloforð flokksins hefur hinsvegar ekki verið framkvæmt.
Framsetning forsætisráðherra um verk flokksins í viðtali við RÚV, er því hvorki rétt né heiðarleg gagnvart heimilum landsins. Ríkisstjórnin hefur framkvæmt ýmis verk á kjörtímabilinu sem komið hafa heimilunum vel.
Hins vegar hefur Framsóknarflokkurinn svikið kjósendur sína um sitt megin kosningaloforð sem átti að verða grundvöllur að bættum fjárhag heimilanna.