Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Svandís Svavarsdóttir: „Ríkisstjórn ríka fólksins er illa við skatta!“

$
0
0

Skattaskjól hafa verið meginumræðuefnið undanfarna daga og vikur. Tilefnið er langt frá því að vera ánægjulegt og nú er svo komið að Ísland á sannarlega heimsmet. Afhjúpun Mossack Fonseca leiðir í ljós að gríðarlegur fjöldi íslenskra ríkisborgara hefur tengst aflandsfélögum í skattaskjólum á undanförnum árum og áratugum.


Fleira efni tengt Panamaskjölum og viðbrögðum við þeim:


Krafan er ekki aðeins um kosningar. Hún er ekki síður um gegnsæi. Og þá þarf að gera meira en að þrífa rúðurnar í höfuðstöðvunum.

Krafan er ekki aðeins um kosningar. Hún er ekki síður um gegnsæi. Og þá þarf að gera meira en að þrífa rúðurnar í höfuðstöðvunum.

Markmiðið með starfsemi af þessu tagi er fyrst og fremst leynd, undanskot frá skattgreiðslum til almannavaldsins sem grafa undan velferð og innviðum í heimalandinu. Vinstrimenn og sósíalistar hafa um allan heim barist gegn tilvist skattaskjóla af augljósum ástæðum og minnt okkur öll á að stjórnmál snúast um vinstri og hægri. Fyrst og fremst um jöfnuð og það hvernig við byggjum saman samfélag þar sem taumlaus græðgi ræður ekki ferð, allir fá tækifæri og allir fá að njóta sín.
Nú blasir við okkur öllum að ríkt fólk, braskarar og íslensk yfirstétt, hafa um langt árabil nýtt sér skattaskjól til að koma fjármunum undan velferðarkerfinu og nauðsynlegu eftirliti. Enn verri er sú staðreynd að á sama tíma hefur ríkisstjórn þeirra ríku aukið á ójöfnuðinn og dregið úr jöfnuði í hvívetna. Það er líka allur almenningur sem að lokum ber kostnaðinn og verður fyrir aukinni gjaldtöku þegar einkavæðing grunnþjónustunnar færist í aukana. Enn er því borið við að fjármagn skorti og framhaldsskólinn, heilbrigðiskerfið og LÍN mæta niðurskurði á meðan milljarðar eru í skattaskjólum. Sveitarfélög fá ekki réttlátan skerf af skatttekjum svo að þrengja þarf að skólum og nærþjónustu og ekki eru lögð réttmæt gjöld á ört vaxandi straum ferðamanna til að byggja upp innviði og efla náttúruvernd. Ríkisstjórn ríka fólksins er illa við skatta!


Fleira efni tengt Panamaskjölum og viðbrögðum við þeim:


Við í VG höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að hefja skuli rannsókn á aflandsfélögum og skattaskjólum, umfangi starfseminnar, hversu mikið fjármagn það er sem samfélagið hefur mögulega orðið af og hvaða úrbætur þarf að gera til að koma lögum yfir þá sem hafa með rangindum haft fé af almenningi og tryggja að þeir borgi sinn skerf. Vonandi fær Alþingi möguleika á því að taka afstöðu til tillögunnar. Tilefnið er ærið og umfangið svo gríðarlegt að augu heimsins hljóta að beinast að því hvernig Ísland tekur á þessum málum bæði í lengd og bráð.

Mossack fonseca

OECD hefur um árabil staðið fyrir baráttu gegn skaðlegri starfsemi skattaskjóla með ýmsu móti. Við verðum að bregðast við og ganga rösklega fram í þeirri baráttu, freista þess að uppræta þessa starfsemi með öllum mögulegum ráðum. Að sjálfsögðu verður mikið viðnám við slíkri viðleitni hjá því ríka fólki sem nýtir skattaskjólin og óhugnanlegt er að heyra fjármálaráðherra Íslands, sem sjálfur nýtti sér skattaskjól í eigin þágu, tala af léttúð um starfsemi af því tagi. Það er bæði óásættanlegt og óverjandi að slíkur stjórnmálamaður skuli vera ráðherra skattamála á Íslandi. Í þinginu hefur hann verið spurður hreint út um mögulega afsögn og telur það víðs fjarri að slíkt komi til greina. Forsætisráðherrann hefur nú sagt sig frá embætti og kosningum hefur verið flýtt um eitt þing. En það er ekki nóg. Þetta gengur ekki einn dag í viðbót.
Almenningur þarf að komast að borðinu og gefa lýðræðinu rödd. Krafan er einföld: Kosningar strax!

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG

Birtist fyrst í 1. maí blaði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Þúsundir mótmæltu og enn er mótmælt eftir að upplýsingar úr Panamaskjölunum komu fyrir augu almennings.

Þúsundir mótmæltu og enn er mótmælt eftir að upplýsingar úr Panamaskjölunum komu fyrir augu almennings.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283