Baldur Ágústsson fjárfestir hefur ákveðið að bjóða aftur fram krafta sína til embættis forseta. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Baldurs. „Eins og mörg ykkar vitið þá hef ég gefið kost á mér til embættisins einu sinni áður, árið 2004. Heita má að nær óþekkt hafi verið að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta og taldist gott að ég fékk 13000 atkvæði,“ skrifar Baldur. „Framboðið var ánægjuleg reynsla og jók áhuga minn á embættinu og vegferð lands og þjóðar.“
Baldur útlistar sýn sína á forsetaembættið í grein sem kallast Af virðingu við land og þjóð. „í öllu því ölduróti sem hefur yfir okkur gengið undanfarna vikur,mánuði – og ár ef við lítum aftur fyrir „hrunið“ 2008 – er erfitt að finna eitthvað sem hefur verið „í lagi“ allan þann tíma.“ Þá segir hann að stöðuleika og trausta þjóðfélagsmynd hafi vikið fyrir gjaldþrotum fólks sem hann kallar „hinnar venulegu fjölskyldu.“
„Öryggi og hamingja hefur vikið fyrir fátækt, atvinnuleysi, fólksflótta, hruni heilbrigðiskerfisins, vaxandi misskiptingu auðs og margskonar „bankaránum”,“ skrifar Baldur. „Það er sárara en tárum taki að við, þessi 300 þús. manna hópur sem fær nær ókeypis hita, rafmagn, vatn og gnægð matvæla úr sjó og landi hafi ekki efni á að hlú að fátækum, öldruðum og sjúkum, menntakerfinu og löggæslunni svo fátt eitt sé nefnt.“
Á textanum er ljóst að Baldur er ekki meðal þeirra sem telur hlutverk forseta fyrst og fremst að blessa menningu og setja niður tré.