Mig langar að prófa svolítið. Tilgangurinn er bæði hluti af því verkefni sem felst í að reyna að skilja sjálfa mig og mín vandkvæði betur í von um að verða betri en einnig til að opna enn frekar umræðuna um andleg veikindi og auka skilning fólks á þeim.
Í nótt eftir svolitla andvöku og endalausar hugsanir fann ég að lokum fyrir svolítilli ógleði. Það er oft fyrsta stigið í kvíðakasti. Þá sest ég upp í rúminu til að draga nokkrum sinnum djúpt andann í von um að laga ástandið en í þetta sinn tekst það ekki.
Nokkrir djúpir andardrættir breytast í ekkasoga og loks óviðráðanlegt oföndunarkast þar sem ég veit ekki hvort ég eigi að skæla meira í von um að losa þennan þrýsting eða reyna að hætta að skæla og svo ég geti einbeitt mér að önduninni.
Að lokum er ég bara eitthvað. Allt í senn hágrenjandi, skjálfandi og með óviðráðanlega oföndun. Í þetta sinn fór ég ekki fram eða inn á bað eins og ég geri svo oft svo maðurinn minn vaknaði. Það er ómetanlegt að eiga einhvern að sem á svona stundum einfaldlega tekur utan um mann og bíður þess að þetta gangi yfir.
Eftir á var mér svo óglatt að kvöldmaturinn fór styttri leiðina heim.
Stundum velti ég því fyrir mér hvernig það sé að vera laus við alla andlega kvilla. Hvort það sé ekki alger draumur í dós. Það er það alveg ábyggilega en ég verð að líta á björtu hliðarnar og vona að reynsla mín af andlegri veilu geri mig að þeirri manneskju sem ég er. En ég verð samt að segja að án kvíða gæti ég alveg verið…
Næsta skref. Vinda ofan af öllu því sem ég slæ á frest vegna lélegs sjálfsmats og þunglyndis svo ég fái ekki annað kvíðakast. Vá, hvað ég er sannarlega mikið minn eigin vítahringur.
Ljós punktur. Ég fitnaði ekki af kvöldmatnum í gær.
Niðurstaða. Það léttir á manni að senda þetta svona út í heiminn.
Framhald. Vonandi ekki. En alveg örugglega.