Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Formaður Bárunnar: „Það eru tvær þjóðir í þessu landi“

$
0
0

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir er formaður Bárunnar, stéttarfélags á Suðurlandi. Rætt var við hana Halldóru í 1. maí blaði Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Halldóra segir við blaðið að tvær þjóðir búi á Íslandi

„Önnur greiðir skatta til samfélagsins. Hin leikur lausum hala í algleymi siðleysisins.“

Báran stéttarfélag er nefnt í höfuðið á Bárunni á Eyrarbakka sem var stofnað 1903. Báran, stéttarfélag var stofnað í núverandi mynd þann 25. júní 2002. Var það í kjölfar sameiningar þriggja félaga í Árnessýslu en félagssvæði Bárunnar nær yfir svæðið frá Ölfusá að Þjórsá. „Báran, stéttarfélag hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðinn ár. Styrkur félagsins er klárlega fólkið sem tekur þátt í félagsstarfinu og starfsmenn. Við erum með öfluga skrifstofu sem reynir að taka á öllum þeim málum sem inn á borð koma. Framtíðarsýnin er öflugt kraftmikið stórt félag á Suðurlandi,“ segir Halldóra.

„Allir þurftu að láta í sér heyra þó þess væri ekki óskað.“

Halldóra er fædd og uppalin í Þorlákshöfn. „Móðir hennar var Lilja Bóthildur Bjarnadóttir frá Guðnabæ í Selvogi og faðirinn Sveinn Sumarliðason frá Feðgum í Meðallandi. „Það var gott að alast upp í Þorlákshöfn, segir Halldóra. Þegar ég var að alast upp var mikil vinna og lífsbaráttan nokkuð hörð. Samfélagið var að byggjast upp með duglegu, áræðnu og ósérhlífnu fólki. Við krakkarnir vorum mikið á ferðinni þar sem eitthvert líf var, í bátunum, fiskhúsunum og fengum að vinna með fólkinu þegar við gátum staðið í lappirnar. Við byrjuðum að vinna strax eftir skóla 12 ára. Lífið snerist yfirleitt um hvað fiskaðist og hvernig unnið yrði úr aflanum. Í minningunni var ekki verið að velta því mikið fyrir sér hvað maður vildi verða eða gera í framtíðnni. Fólk var meira statt í núinu, vann sín verk og bar virðingu fyrir þeim.“

Lífskjörin voru mikið til umræðu í Þorlákshöfn á þessum tíma , segir Halldóra. „Maður fylgdist vel með því og er það eiginlega í blóð borið að hafa skoðun á þeim málum. Allir höfðu miklar og sterkar skoðanir, þurftu að láta í sér heyra þó þess væri ekki óskað. Við vorum svo heppin að stundum komu „kynlegir kvistir“ inn í samfélagið sem var svo hollt og gott. Vernharður Linnet jazzari kom inn í þorpið okkar og hóf störf sem kennari. Hann kenndi í mörg ár og hafði mikil áhrif á okkur sem hann kenndi. Hann fór mikinn í kennslu var „pólitískur, trúlaus og villtur almennt“ sem sagt mjög skemmtilegur en fór mjög fyrir brjóstið á sumum. Amma mín Halldóra átti stóran þátt í því að kenna mér að bera virðingu fyrir manni og málefnum og Vernharður að kryfja málefnin.“

Framtíðarsýnin er öflugt kraftmikið stórt félag á Suðurlandi.

„Draumurinn er að allir þeir aðilar sem að með einhverjum hætti vinna að hagsmunagæslu fyrir hinn almenna launamann verði undir einu stóru þaki undir nafninu Vinnumarkaðshús Suðurlands,“ segir Halldóra.

Halldóra vann lengi hjá Glettingi í Þorlákshöfn. „Það var alltaf verið að spá í kaup og kjör en bein afskipti af verkalýðsmálum voru ekki til staðar. Vinnan mín sem launafulltrúi til margra ára í Glettingi hf Þorlákshöfn kenndi mér mikinn og góðan grunn sem mér nýtist í dag við þau verkefni sem ég er að fást við. Eftir 2001 hellti ég mér í verkalýðsmál og ekki varð aftur snúið eftir það.
Báran, stéttarfélag hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðin ár. Styrkur félagsins er klárlega fólkið sem tekur þátt í félagsstarfinu og starfsmenn. Við erum með öfluga skrifstofu sem reynir að taka á öllum þeim málum sem inn á borð koma. Framtíðarsýnin er öflugt kraftmikið stórt félag á Suðurlandi.“

„Við höfum oft á góðum stundum nokkrir félagar látið okkur detta í hug að stofna Verkamannaflokk sem gætir hagsmuna hins vinnandi manns.“

Hver er staða og styrkur verkalýðsfélaganna í dag? Og pólitíkin … Halldóra segir ekki alla sammála um stöðu verkalýðshreyfingarinnar. „Innan hreyfingarinnar virðast rúmast öll flóran úr pólitíkinni. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur ekki verið opinberlega tengd neinum flokki eins og félagar okkar á Norðurlöndunum. Því miður hefur samstarfið við stjórnvöld ekki gengið nógu vel og hefur mönnnum tekist að núllstilla það á þessu kjörtímabili, það er algjörlega dautt. Þegar vinstri flokkarnir voru við völd báru menn þá von í brjósti að nú værum við “hólpin“ en því miður brást sú von sem ég held að því miður endurspeglar núverandi fylgi. Samfylkingin hefur nú þegar viðurkennt þessi mistök. Tilhneiging allra flokka er að standa vörð um fjármagnseigendur og nú sem aldrei fyrr. Við höfum oft á góðum stundum nokkrir félagar látið okkur detta í hug að stofna Verkamannaflokk sem gætir hagsmuna hins vinnandi manns.

„Önnur greiðir skatta til samfélagsins hin leikur lausum hala í algleymi siðleysisins.“

Hvað er framundan? Hver er hugsjónin mikla innan verkalýðsfélaganna? „Verkefnin í hreyfingunni eru stór og viðamikil. Við þurfum að standa vörð um vinnumakarðinn. Það er ýmislegt í gangi í okkar þjóðfélagi sem er engum til sóma. Upp hafa komið mannsalsmál og annað í þeim dúr þar sem virðingin fyrir þeim leikreglum sem eiga að gilda á vinnumarkaði er fótum troðin. Húsnæðismálin eru nú í brennidepli. Við erum með klassiskt langtíma verkefni, félagsmenn okkar þurfa að lifa af laununum og geta búið í sómasamlegu húsnæði þar sem okurvextir keyra ekki allt um þverbak.“
Halldóra segir þjóðina ráðvillta og að traustið sé horfið. „Ríkisstjórnin er rúin trausti og hefur hreinlega farið hamförum í vitleysunni. Unga fólkinu okkar þykir fjórflokkakerfið ekki ganga upp og píratar eru eitthvað nýtt og öflugt afl sem tala sama tungumál. Misskiptingin er að verða algjör; það eru tvær þjóðir í þessu landi eins og fram hefur komið. Önnur greiðir skatta til samfélagsins hin leikur lausum hala í algleymi siðleysisins. Lái þeim hver sem vill að vilja breytingar á þessari ringulreið sem verið hefur undanfarið.“

P1080785

Ég held að þjóðin verði að ákveða hvað hún vill verða þegar hún verður stór.

Hverju á hreyfingin að sinna helst á næstu misserum? „Við þurfum að bregðast við þeim undirboðum sem nú eru í gangi á vinnumarkaði. Tilboð í verk eru jafnvel 59% af áætluðum kostnaði. Það er mikill uppgangur núna í atvinnulífinu, lítið atvinnuleysi en í loftinu liggur eitthvað kunnuglegt þema. Hinn vinnandi maður á að niðurgreiða verkin. Við höfum séð þetta áður og ég ætla að vona að okkur takist að snúa bökum saman og sporna við þessum óskapnaði. Við þurfum að leggja áherslu á að innleiða keðjuábyrgð verktakafyrirtækja sem þýðir að tryggja laun starfsfólks samkvæmt kjarasamningum óháð hvort launamaður starfi hjá undirverktaka eða yfirverktaka.“

– Á hreyfingin að vera „ópólitísk“? „Verkalýðshreyfingin er pólitísk, hún er bara ekki einsleit. Þar takast menn á þvert á flokka. Á þingum ASÍ sem eru á tveggja ára fresti liggja fyrir niðurstöður úr málefnavinnu fulltrúa þeirra rúmlega 100 þúsund félaga sem eru innan ASÍ. Stefnan er mörkuð í heilbrigðismálum, húsnæðismálum, kjaramálum, menntamálum og svo framvegis. Þetta er lífleg og skemmtileg vinna.“

– Er þjóðin í biðstöðu? Ber ástandið merki um óvissu eða er  fólk að bíða eftir gulli og grænum skógum?
„Að forsetaframbjóendur skuli detta hver um annan þveran endurspeglar ráðvillta þjóð. Það er svo margt að gerast í víðri veröld, þessi stóri flóttamannavandi, misskipting og ringulreið. Getum við horft fram hjá þessu? Ég held að þjóðin verði að ákveða hvað hún vill verða þegar hún verður stór. Gera upp við sig ákveðna skýra raunhæfa og trausta framtíðarsýn, sem skilar okkur betri stöðugleika og agaðra þjófélagi“ segir Halldóra Sigíður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags.

Birtist fyrst í 1. maíblaði Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Texti og myndir: Þorlákur Helgason.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283