Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Gamla Ísland til orustu

$
0
0

Tæplega helmingur kjósenda hefur aldrei kosið í forsetakosningum þar sem sitjandi forseti býður ekki fram. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór fyrst fram árið 1996 en hann tilkynnti í áramótaávarpi forseta að hann hygðist nú stíga til hliðar. Í apríl túlkaði Ólafur fréttaflutning af Panamaskjölum og mótmælin sem fylgdu sér í hag og tilkynnti um framboð sitt til forseta. Hann hafði semsagt öðru sinni hætt við að hætta. Í dag tilkynnti Ólafur að hann hefði nú hætt við að hætta við að hætta.

Kjósendur sem voru 18 ára árið 1996 eru 38 ára í dag. Um 100 þúsund manns hafa því aldrei kosið í forsetakosningu þar sem sitjandi forseti býður ekki fram. Um 250 þúsund eru á kjörskrá. Að auki má nefna að sjálfkörið var til embættisins árið 1992.

„Maður hefur tekið eftir því að það hefur verið ákveðin tilhneiging hjá kjósendum að kjósa forseta, sem er svona visst mótvægi við ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma,“ sagði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í Helgarútgáfu Rásar 2 þar sem fjallað var um forsetakosningar í janúar síðastliðnum. Guðjón er höfundur bóka um bæði Ólaf Ragnar og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, var í raun aldrei þjóðkjörinn því hann var kosinn af Alþingi árið 1944 en síðar sjálfkjörinn án atkvæðagreiðslu árið 1945 og 1949. „Fyrstu forsetakosningarnar voru 1952 og þá studdu tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir, sem þá voru í ríkisstjórn, séra Bjarna Jónsson en kjósendur völdu Ásgeir Ásgeirsson, sem að var úr stjórnarandstöðuflokki,“ sagði Guðjón. „Síðan endurtekur þetta sig í raun og veru þegar Kristján Eldjárn var kosinn. Þá er Gunnar Thoroddsen mótframbjóðandi hans og hann er nú eiginlega fulltrúi Viðreisnarstjórnarinnar, sem þá sat, hann hafði verið í henni. Þá kjósa menn sem sagt mann, sem er svona mótvægi má segja, að vísu ekki pólitískur maður.“

Gamla Ísland ætlar að nota Panamaskjölin til að styrkja stöðu sína

Hinn 5. apríl gekk Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á fund forseta Íslands og óskaði þingrofs. Sigmundur hafði áður krafið sjálfstæðismenn um skilyrðislausan stuðning í því sem þá var yfirvofandi vantraustsyfirlýsing á hann vegna Panamaskjalanna. Uppljóstrað var að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra voru í skjölunum. Í lekanum birtist afar skýr mynd af tveimur flokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, sem linnulaust hafa nýtt sér skattaskjól og aflandseyjar til að fela eignir frá almenningi, skattstjóra og íslensku regluverki. Auk þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar mátti finna kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavíkurborg í skjölunum auk skrifstofu Framsóknarflokksins og auðmanna.

Nýlega var svo uppljóstrað að fjölskylda Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, er á bólakafi í aflandseyjarbraski. Í kjölfar fréttanna sendi Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, frá sér yfirlýsingu þar sem hann hélt því fram að hann hefði aldrei átt fé í skattaskjóli. Yfirlýsingin inniheldur innri árekstra og er hreint út sagt ótrúlegur þvættingur sem vekur fleiri spurningar en færri.

Í kjölfar lekans hafa risaeðlur gamla Íslands vaknað. Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðaði framboð sem nú hefur verið dregið til baka. Skömmu eftir tilkynninguna varð ljóst að bæði eiginkonu Ólafs og tengdafjölskyldu má finna í skattaskjólum heimsins. Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar var sett saman í flýti. Stjórnin hefur aðeins það hlutverk að tefja kosningar nægjanlega lengi að reiði almennings sjatni örlítið og svo að einkavæða og selja ríkiseignir. Davíð Oddsson er sá stjórnmálamaður sem hannaði hrunið og kerfi skattaundanskota. Sem forsætisráðherra aflagði hann eftirlit og reglur og skapaði umhverfi þar sem klíkur gátu gengið á sjóði samfélagsins og tæmt þá. Í starfi Seðlabankastjóra gerði hann svo ekkert til að koma í veg fyrir hrun íslenska bankakerfisins. Í ritstjórastól hefur Davíð svo endurskrifað söguna sér í hag. Allt sem aflaga fór er öðrum að kenna en það fáa jákvæða sem komið hefur fram í uppgjörinu við hrunið ber Davíð einn ábyrgð á. Þrátt fyrir að Davíð hafi áratugum saman verið áhrifa- og valdamesti maður landsins, gengið úr mikilvægu embætti yfir í annað, þá á almenningur að trúa því að á hann hafi enginn hlustað í aðdraganda hrunsins. Bakvið þessa söguskoðun eru gríðarlegir peningar, fjölmiðlar og sterkur flokkur.

Umfjöllunin heldur áfram hér að neðan


Fleiri pistlar eftir Atla Þór Fanndal:

Hrægammarnir sem alltaf éta sendiboðan, umfjöllun um viðbrögð stjórnarþingmanna við eðlilegum fyrirspurnum um fjölskylduauð forsætisráðherrahjóna fyrrverandi í erlendum skattaskjólum.

Rétt um 300 þúsund, um þá tilhneigingu fólks að nýta fámenni sem afsökun fyrir spillingu og græðgi.

Eiginkonum kastað á bálið, um það þegar stjórnmálamenn beita eiginkonum sínum sem mannlegum skyldi í erfiðum pólitískum málum. 

Hvenær verður Bjarni uppiskroppa með fé annarra? Að kvöldi baráttudegi vinnandi fólks sá fjármálaráðherra ástæðu til að vitna í Margréti Thatcher til að gera lítið úr kröfu almennings um réttmæta sneið af auð samfélagsins.

Fimm milljónir fyrir árás á RÚV en ein og hálf fyrir Panamaskjölin, pistill um forgangsröðun samfélags þar sem Eyþór Arnalds og félagar fá fimm milljónir fyrir að semja skýrslu gegn RÚV en Reykjavík media fær 1.5 milljónir fyrir sjónvarpsþátt um aflandseyjarfyrirtæki ráðamanna.

Unga fólkið sem jarðsprengjufóður sérhagsmuna, umfjöllun í kjölfar ráðningar barnungs aðstoðarmanns ráðherra með enga reynslu né menntuní starfið.


Umfjöllunin heldur áfram hér að neðan

Júní 1996

Fjallað er um kjör Ólafs Ragnars sem forseta í tímaritinu European Journal of Political Research árið 1997. Árlega birtir tímaritið yfirferð yfir það helsta í stjórnmálum evrópskra ríkja. Í ritinu kemur fram að Ólafur hafi borið sigur úr býtum með um 41% atkvæða en að Pétur Kr. Hafstein, þáverandi hæstaréttardómari, hafi fengið um 29% atkvæða. Í greininni segir að forsetaembættið fari með takmörkuð völd og að sú hefð hafi mótast að embættið sé fyrst og fremst viðhafnarembætti og formsatriði. Þá kemur fram að flokkar hafi undanfarna áratugi ekki tekið virkan þátt né hafi frambjóðendur verið yfirlýstir fulltrúar flokka. Þó segir að þrátt fyrir takmörkuð völd forsetans hafi þrír stjórnmálaleiðtogar íhugað framboð til forseta. Davíð Oddsson, þá formaður Sjálfstæðisflokksins, útilokaði ekki eigið framboð fyrr en í apríl árið 1996. Þá kemur fram að Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, hafi íhugað framboð sem og Ólafur Ragnar. Á þessu má ráða að forsetaembættið hafi hugsanlega þegar verið að færast frá því að vera aðeins álitið ‘sameiningartákn’ til þess að hafa pólitíska stöðu í huga almennings og kjósenda.

Stétt, menntun og staðsetning

Fljótlega varð ljóst að Ólafur Ragnar naut umtalsverðs fylgis. Pétur Kr. Hafstein naut fyrst og fremst fylgis meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og fékk meðal annars rúm 60% atkvæða sjálfstæðismanna í skoðanakönnun sem framkvæmd var í kosningabaráttunni. Ólafur Ragnar höfðaði um leið betur til karla en kvenna. Munurinn á stuðningi þessa tveggja hópa var um 11 prósentustig. Stuðningur við hann utan höfuðborgarsvæðisins var 9 prósentustigum hærri en í borginni. Milli 50 til 60 prósent þeirra sem ekki höfðu hlotið háskólamenntun studdu Ólaf en aðeins tæp 30% fólks með háskólanám gerði slíkt.

Ameríkuvædd kosningabarátta

European Journal of Political Research bendir á að kosningabarátta Ólafs hafi í raun verið nokkuð ‘ameríkuvædd’ með áherslu á persónueiginleika Ólafs og konu hans, Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur heitinnar. Ólafur Ragnar er stjórnmálamaður og var sem fjármálaráðherra umdeildur. Það er því ekki ólíklegt að áherslan á gildi og persónueiginleika hefi verið andsvar við þeirri stöðu. Gagnrýnendur Ólafs gerðu mikið úr pólitískum ferli Ólafs. Þar á meðal voru neikvæðar auglýsingar sem birtust í Morgunblaðinu og Tímanum skömmu fyrir kjördag. Auglýsingarnar vöktu mikla athygli og umræður.

Hópur sem kallaði sig Óháða áhugamenn um forsetakjör 1996 keyptu auglýsingarnar en greiðendur þeirra eru Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða, Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hafskipa, og Ómar Kristjánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þýsk-íslenska. Enn fremur birtist ein auglýsing í Morgunblaðinu í nafni samtakanna „Í Guðs bænum ekki …“, þar sem kjósendur voru beðnir um að sameinast um þann frambjóðanda sem væri í öðru sæti svo Ólafur Ragnar yrði ekki forseti og bjarga mætti Bessastöðum. Á þeim tíma sem auglýsingin var birt mældist Guðrún Agnarsdóttir, læknir og fyrrverandi þingkona, með næstmest fylgi.

Reynsla og heiðarleiki

Í rannsókn Félagsvísindastofnunar sem gerð var eftir kosningarnar voru kjósendur hvers frambjóðanda spurðir hvað hefði skipt sköpum fyrir stuðning þeirra við ákveðinn frambjóðanda. Í tilviki Guðrúnar og Péturs sögðu í kringum 90% kjósenda þeirra að heiðarleiki og ráðvendni þeirra hefði skipt sköpum. Í tilviki Ólafs Ragnars var hlutfallið umtalsvert lægra eða rétt tæp 60%. Um starfsferil frambjóðenda sögðu aðeins tæpur þriðjungur kjósenda Ólafs að það skipti þau miklu máli en um 40% andstæðinga hans. Þá vekur athygli að aðeins 3% kjósenda Ólafs Ragnars taldi stjórnmálaskoðanir hans skipta máli við þá ákvörðun að kjósa hann. Almennt virðast stjórnmálaskoðanir frambjóðenda þó ekki mælast mjög hátt í mikilvægi því hjá frambjóðendum Guðrúnar og Péturs voru stjórnmálaskoðanir þeirra 8% annars vegar og 11% hins vegar. Vert er að taka fram að hér er um mælingu á túlkun almennings á eigið mikilvægi. Það hvað telst stjórnmálaskoðun er því misjafnt eftir því hvaða merkingu hver svarandi leggur í það.

1952 fyrsti þjóðkjörni forsetinn

Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, var, eins og áður segir, kosinn af Alþingi til eins árs og síðar sjálfkjörinn. Það var því ekki fyrr en árið 1952 sem Íslendingar kusu í fyrsta sinn forseta sinn og höfðu raunverulega milli frambjóðenda að velja. Veftímaritið Lemúrinn fjallaði árið 2012 um fjölmiðlaumræðuna í kringum þessar fyrstu forsetakosningar. Lemúrinn segir að árið 1952, eins og alltaf þegar forsetakosningar eru í nánd, hafi verið nokkur óvissa fyrst um sinn hverjir færu fram. „Orðræðan og stemningin er ansi kunnugleg. Einn var of gamall, annar talaði engin tungumál, hinn var í ónáð Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknar. Og gamlar konur voru sagðar vilja biskupinn á Bessastaði og kommúnistar Halldór Kiljan,“ segir í umfjöllun Lemúrsins. Vitnað er til greinaskrifa Ajax sem skrifaði um spekúlasjónir um væntanlega frambjóðendur. „Í stórum dráttum má skipta þessum forsetaefnum í tvo aðalflokka, stjórnmálamenn og menn, sem lítil eða engin skipti hafa haft af stjórnmálum. Í fyrra flokknum eru flestir þeir menn, sem aðgangsharðastir eru í baráttunni um embættið.
Ef forsetakosningin verður pólitísk, en á því eru nú því miður allar horfur, er eftir að vita, hvort samkomulag tekst milli tveggja eða fleiri flokka um forsetaefni, eða hvort hver flokkur býður fram fyrir sig.
Sjálfsagt verða einhverjar tilraunir gerðar til sambræðslu, hvernig sem þær takast.“ Á skrifum Ajax má greina að fátt hafi breyst þegar kemur að því um hvað er deilt. Í stórum dráttum er ákveðinn sáttmáli um að forsetaembættið sé ekki of pólitískt, í það minnsta ekki flokkspólitískt. Samhliða er þó ekki hægt að horfa framhjá því að forsetaembættið fer formlega með völd. Þá er forseti Íslands æðsti embættismaður landsins og sá eini sem kjörinn er í beinni kosningu.

Séra Bjarni Jónsson frambjóðandi valdsins

Sjálfstæðisflokkur og kjósendur Framsóknarflokks studdu almennt séra Bjarna Jónsson til embættisins. Í Morgunblaðinu, málgagni Sjálfstæðisflokks, sagði meðal annars að: „Allir þjóðhollir Íslendingar kjósa séra Bjarna Jónsson.” Bjarni var almennt talinn frambjóðandi hægrimanna og fyrirfram var talið líklegt að hann fengi kjör. Svo fór þó ekki þótt Bjarni væri vissulega nokkuð nálægt kjöri. Ágeir Ásgeirsson vann sigur með 48,3% atkvæða en séra Bjarni hlaut 45,5%. Í framboði var um leið Gísli Sveinsson, fyrrverandi forseti sameinaðs þings Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokks, og fékk hann um sex prósent fylgi. Það er því ekki ólíklegt að hann hafi í raun skemmt fyrir þeirri tilraun hægrimanna að ná forsetaembættinu. Ásgeir hafði verið alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn 1923–1934, utanflokka 1934–1937 og fyrir Alþýðuflokkinn 1937 til 1952. Ásgeir var því ekki minna pólitískur en mótframbjóðendur hans. Alþýðuflokkurinn var þess utan talsvert minni en Sjálfstæðisflokkur. Sú hefð eða tilhneiging almennings að kjósa forseta sem eru mótvægi við ráðandi öfl á því að einhverju leyti upphaf í kosningunum 1952. „Kosningarnar árið 1952 eru alræmdar fyrir það hversu harðvítugar og flokkspólitískar þær voru og blöðin hreinlega loguðu í áróðri. Menn voru vændir um lygar, lágkúru og stjórnmálalegt pot. Jafnvel var talað um að ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna segði af sér ef þeirra frambjóðandi yrði undir í kosningunni. Vinstrimenn og þá sérstaklega Alþýðuflokksmenn fylktu sér bakvið Ásgeir en sjálfstæðismenn og framsóknarmenn studdu séra Bjarna,“ segir í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um forsetakosningar á Íslandi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283