Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ragnheiður biskupsdóttir

$
0
0

Á sviði Eldborgar í Hörpunni sýnir Íslenska óperan íslenska óperu sem er ekki bara óvenjulegt heldur algjört nýnæmi.

Íslendingar hafa ekki verið mikið í því að skrifa óperurnar þótt þeir hafi alið margan frábæran söngvarann eins og flestir vita. Þeir eru sko aldeilis þarna, frábæru söngvararnir og hún Þóra okkar er ekki bara dásamleg söngkona heldur hefur hún afar mikla útgeislun á sviði.

Viðar Gunnarsson, Þóra Einarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson. Ljósm. Gísli Egill Hrafnsson_vefur

Elmar Gilbertsson sem syngur Daða, ástmann Ragnheiðar biskubsdóttur, hefur þessa alveg glimrandi fallegu og skæru tenórrödd. Reyndar eru ekkert nema fallegar söngraddir þarna og ímynda ég mér að erfitt væri fyrir dagsins nörd að segja eitthvað annað þar sem um alveg glænýtt íslenskt efni er að ræða og því erfitt að fara í saumana á túlkun karaktera sem heimurinn hefur séð hundrað sinnum því um það er ekki að ræða.

Elmar og Þóra. Ljósmynd Gísli Egill Hrafnsson_vefur

Þekktust er líklega saga og leikrit Guðmundar Kamban af þessum atburðum en bæði verkin báru nafnið Skálholt. Ef eitthvað væri þá myndi ég vilja dassa aðeins meira stórlyndi í sjálfan biskupinn Brynjólf, sunginn af hinum dásamlega barítón, Viðari Gunnarssyni, en það má líklega skrifa á leikstjórn og kannski er það ekki einu sinni rétt hjá mér.

Sagan er íslensk en þó alþjóðleg. Hún gerist á 17. öld en gæti vel gerst í okkar nútíð, þá bara með öðru sniði því sagan fjallar um ótta við ósýnilegt yfirvald, hefðir, lygi og svik, ástir og harm eins og óperu er von og vísa, nema að þessi er byggð á skráðum atburðum úr biskupsdæminu Skálholti.

Mér finnst alveg dásamlegt að ástkær dægurlagahöfundur skuli taka sig til og skrifa tónlist við óperu og vinna þeir virkilega vel saman, Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson, sem gerir textann. Textinn er að sjálfsögðu stirðbusalegur á köflum en á það ekki að vera þannig í alvöru óperu? Textinn inniheldur líka alveg dásamlegar tilvitnanir í ljóða- og skáldasögu okkar Íslendinga, má þar nefna ,,Allt eins og blómstrið eina” sem er leiðandi í verkinu og vel gert.

Höfundarnir Friðrik Erlingsson og Gunnar Þórðarson á frumsýningu. Ljósm. Kristinn Svanur Jónsson.

Höfundarnir Friðrik Erlingsson og Gunnar Þórðarson á frumsýningu. Ljósm. Kristinn Svanur Jónsson.

Í bíómyndum sér maður sætar ljóskur vatna músum á óperum, það hef ég aldrei gert fram að þessu, kannski hef ég ekki skilið þann menningarlega harm sem verið er að segja frá í þýskum ítölskum og frönskum eða breskum óperum, en ég barðist við tárin í lokin því sagan kemur nálægt manni og snertir hjartastreng.

Búningarnir eru frábærir, alveg ofsalega frjálslegir en þó smekklegir og töff hannaðir. Ég ætla að hrósa sviðsmyndinni því ég veit hvaða takmörkunum það er háð að gera sviðsmynd á sviði Eldborgar. Þetta er bara virkilega smekklega gert og skemmtilega.

Eiðurinn. Ljósmynd Gísli Egill Hrafnsson_vefur

Það eina sem mín sérvitra lund gæti mögulega sett bitran tón við væri leikstjórn, sem ég á auðvitað ekkert með að gera, því þarna leikstýrir Stefán Baldursson, reynslubolti og nánast fræðimaður á sviði leikhússins, en það er bara ég.

Annars segi ég bara áfram óperan og meira íslenskt, takk!

Hér má finna allar upplýsingar um söngvara sýningarinnar, umfjöllun um verkið og sýningartíma.

Ljósmyndir úr sýningu eru eftir Gísla Egil Hrafnsson

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283