Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ástandið á heimilinu

$
0
0

Erling Ingvason skrifar:

524349_10200343018531537_1569872846_n

Sæll vinur, ég skrifa þér þetta því það er komið upp alveg hábölvað ástand á heimilinu.

Gamli pabbi er kominn á pallinn bakdyramegin og drykkjufélaginn hans – þessi skrítni – er með honum, hann segist vera edrú, segist reyndar aldrei hafa drukkið; þetta sé bara allt ímyndun og þeir séu vitleysingar sem haldi því fram.

Hann lofar að borga með sér ef við hleypum honum inn og nú eru meðvirku mamma, afi, amma og litlu krakkarnir, sem muna ekki hvernig hann var, byrjuð að spyrja mig hvort við eigum ekki að gefa honum séns. Mamma er náttúrulega alveg gaggalagú, virðist vera búin að gleyma hvernig hann barði hana og kúgaði.

Ég öskraði víst aðeins of hátt á þau, gerði þau hrædd en það verður bara að hafa það, þessi mannskratti kemur ekki inn fyrir hússins dyr ef ég fæ nokkru ráðið.

Hann hefur aldrei sagt fyrirgefðu eða iðrast nokkurn skapaðan hlut eftir að gamla húsið brann til grunna þegar hann var hérna síðast; alltaf bara rifið kjaft og kennt brunaliðinu um, við vitum samt öll að það var hann sem kveikti í, hann drapst með logandi sígarettu í sófanum, hann kannaðist aldrei við neitt og hélt því blákalt fram að hann hafi aldrei reykt.

Nú öskrar hann að þetta hafi verið okkur öllum að kenna, við höfum öll verið að leika okkur með eldspýtur og bensín, sama ósvífnin og skortur á sjálfskoðun alltaf hreint, það var hann sem átti að vera á vaktinni og að passa húsið.

Einu mennirnir sem mér finnst koma til greina að hleypa hérna inn eru frændurnir; þessi sem skrifaði sjálfshjálparbókina um árið og hinn sem var að útskýra aflands-ruglið á forsætisráðherranum í sjónvarpinu um daginn, nú segir sá gamli að sá ætli sér, ekki bara að brenna húsið, heldur líka að selja það útlendingum!

Þetta er nú meira ruglið og ég skil ekkert í fólkinu mínu að trúa einu orði sem hann segir. Þetta er svo leiðinlegt því mér fannst eins og famelían væri nokkurn veginn búin að jafna sig á þessu og þá birtist þessi draugur alveg upp úr þurru…ég bara þoli þetta ekki.

Nú eru góð ráð dýr… og vel þegin, áttu einhver? Á maður að taka þetta bara á æðruleysinu eða hvað?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283