Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hamfarir í húsnæðismálum

$
0
0

Hamfaraástand ríkir um þessar mundir í húsnæðismálum höfuðborgarinnar.
Ástandið minnir að mörgu leyti á borgarastyrjöld.
Að neðan er sviðsmynd húsnæðismála skoðuð í því ljósi.

Stríðandi fylkingar

Í reykvísku borgarastyrjöldinni er barist um byggingarlóðir, hótel og húsnæði. Stofn innrásarhersins eru amerískir og enskir túristar ásamt öðrum þjóðarbrotum. Illvæg vopn þeirra eru alvöru gjaldmiðlar. Sem eru ofjarlar örmyntar í spennitreyju. Helstu bakhjarlar innrásarliðsins eru lífeyrissjóðir landsmanna, „fagfjárfestar“ og bankar. Þessar stofnanir leggja til eldsneytið sem knýr innanlandsátökin áfram. Stríðsherrar eru verktakar, með leiguliða frá ýmsum löndum. Vígstöðvar eru dreifðar um borgarlandið. Vígvélar og sprengjudrunur halda vöku fyrir óbreyttum borgurum á átakasvæðum.
Vanmáttugir andstæðingar innrásaraflsins eru alþýða, ungt fólk og leigjendur.

Fórnarlömb

Í kjölfar styrjalda fylgja fórnarlömb. Í húsnæðisstríði höfuðborgarsvæðisins má skipta þeim í tvo meginhópa. Ungt fólk að byrja búskap. Sem vantar þak yfir höfuðið. Fyrir þennann þjóðfélagshóp er öruggt húsaskjól annaðhvort fjarlægur draumur, eða forréttindi ungra úr efnafjölskyldum.

Seinni hópurinn er leigjendur.

Þeir sem eiga um sárast að binda af völdum hamfara í húsnæðismálum höfuðborgarinnar eru leigjendur. Leigjendur eru flóttamenn í eigin landi og hrekjast um vegna stríðsátakanna. Sumir flýja reyndar land, fjöldi (húsnæðis)pólítískra flóttamanna frá landinu fer vaxandi. Að hafa vit á að forða sér kallast spekileki á íslensku.

Hermangarar / stríðsgróði

Byggingarbransinn er svo ábatasamur þessi misserin að glæpagengi eru mætt til leiks. Það er gott dæmi um heilbrigðisstuðulinn í húsnæðismálum landsins. Krimmar eru fljótir til þegar skjótfenginn gróði er í boði. Annað tákn tímans er dæmi um rótgróið útgerðarfyrirtæki sem seldi skip og kvóta og er nú í fasteignarekstri. Útgerð er annars talin ein ábatasamasta atvinnugrein landsins.

Hermang og brask er hefðbundinn fylgifiskur stríðsátaka. Nýlega skilaði fjármálafyrirtæki uppgjöri fyrir síðastliðið ár. Fyrirtækið ávaxtar meðal annars fjármagn fyrir lífeyrissjóði. Það skilaði myljandi hagnaði á síðasta ári. Sem var hundruðum milljóna hærri en árið áður. Ekki fylgir sögunni að hve miklu leyti hagnaðurinn til kom vegna síhækkandi fasteigna og leiguverðs.

Fyrirtækið hefur verið stórtækt í uppkaupum á húsnæði í miðborginni og víðar. Segja má að viðskiptamódel þess byggist á síhækkandi fasteignaverði. Sennilega selur svo fyrirtækið eignapakkann eftir vissan tíma og hirðir hækkunina. Hver kaupir? Líklega lífeyrissjóður. Þannig heldur „007,Deja VU“ Matadorspilið áfram, hring eftir hring.

Þessa hagnaðarhringekju borga svo leigjendur og aðrir sem þurfa á húsnæði að halda. Á Íslandi mega fjármálafyrirtæki athugasemdarlaust Gamma sér svona á eignamarkaði. Þannig er íslensk eignabóla tjökkuð upp öðru sinni innan eins áratugs. Þrítugir kvartárskapítalistar í jakkafötum ráða ferðinni á fasteignamarkaði. Sjóndeildarhringur þeirra nær einn ársfjórðung fram í tímann.

Stjórnmálamenn og verkalýðsforystan situr í aftursætinu.

Eignaverð hækkar mun örar en laun almennings. Leiguverð er svipað og útborguð laun alþýðu.
Síhækkandi fasteignaverð þykir svo sjálfsagt á Íslandi að Viðskiptablaðið birti litla frétt í fyrra. Hún var að eignaverð hafi staðið í stað þann mánuðinn. Líkleg skýring er þó að mælingin hafi verið ómarktæk vegna verkfalls á tilteknu tímabili.

Stríðsglæpir

Yfirleitt er erfitt eða ómögulegt að sækja stríðsherra til saka fyrir glæpi sína. Jafnvel þótt verknaðurinn blasi við öllum. Reykvíska byggingastríðið er engin undantekning. Minnismerkin æpa um ókomna tíð. Nýtingarhlutfallsleg nauðgun á nærumhverfi. Kaldir kumbaldar í hrópandi mótsögn við staðaranda. Einsleitar kassaþyrpingar í arkítektónískri andhverfu við umhverfð. 60 herbergja hóteli troðið inn í gamalgróið íbúðahverfi tvílyftra timburhúsa.

Trúarbrögð

Flest stríð snúast að einhverju eða öllu leyti um trúarbrögð. Aðalorsök húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins eru íslensk ofsatrúarbrögð í húsnæðismálum. Þau byggjast á ýktri eignastefnu, en hlutfall séreignar er eitt það hæsta sem þekkist hérlendis.

Trúarbrögð þessi má kalla Thatcherism , í höfuðið á Margaret Thatcher, forsætisráðherra Englands 1979–1990. Hún vann stóran kosningasigur með slagorðiðinu „The right to buy“. Það, og „The housing act“ markaði kaflaskil í enskum húsnæðismálum.

Miljónir leiguíbúða í eigu enskra sveitarfélaga voru seldar og enduðu oft í eigu ríkra lávarða. Thatcher málaði upp húsnæðisdraum sem gekk út á að allir byggju í eigin húsnæði. Áratugum síðar er draumurinn orðinn að martröð ungs fólks í Englandi. Atburðarásin er sláandi lík íslensku hliðstæðunni. Sömu sjúkdómseinkenni, sami sjúkdómur. Að óbreyttu munu íslenskir „lávarðar“ eignast húsnæði almennings gegnum bankakerfið. Landið breytist í greifadæmi með húsbændum og leiguliðum, eins og á miðöldum.

Thatcher, ásamt Ronald Reagan og Milton Friedman, voru holdgervingar últralíberismans sem gekk yfir Vesturlönd undir lok síðustu aldar. Hvergi féllu kenningar þeirra í frjórri jarðveg en á Íslandi. Einkavæðing íslensku bankanna upp úr aldamótum var sótt beint í hugmyndasmiðju þríeykisins. Sú aðgerð er nú talin ein sú misheppnaðasta sem sögur fara af. Afleiðingarnar þarf ekki að tíunda.

Því er merkilegt hve lítinn lærdóm Íslendingar vilja draga af hliðaráhrifum bankasölunnar. Sem voru meðal annars meira eða minna einkavæddur húsnæðismarkaður. Eftir berserksgang sinn á útlánamarkaði tóku bankarnir með sér stokkbólginn fasteignamarkað í fallinu. Atburðarásinni má líkja við gamla dæmisögu. Um stúlku á leið til markaðarins. Hún var með öll egg sín í sömu körfu á höfðinu. Hún hrasaði.

Enn er þó Thatcherisminn allsráðandi í íslenskri húsnæðispólitík. Eggin eru ennþá í sömu (séreignar)körfu á höfði íslenskrar alþýðu í húsnæðismálum. Í nágrannalöndunum eiga sveitarfélög víða um helming af fjölbýlishúsum á viðkomandi svæðum. Íbúðirnar eru reknar rétt fyrir ofan núllið og leigðar út til almennings á hóflegum kjörum. Þannig fyrirbyggja þarlend stjórnvöld íslenskt gullgrafaraástand á húsnæðis- og leigumarkaði. Eggin eru í fleiri körfum.

Á Íslandi þykja það helgispjöll að leggja til þess konar fyrirkomulag. Sem hefur sannað sig í Svíþjóð, Danmörku og víðar heilu og hálfu aldirnar. Það er opinber leigumarkaður sem mótvægi, aðhald og kjölfesta við séreigneignamarkað og einkarekinn leigumarkað.

Áróður

Í styrjöldum reka stríðsherrar og voldugir hagsmunaaðilar öflugar áróðursvélar. Oft reka einnig opinberir aðilar stríðsáróður og snúa staðreyndum á haus í þágu hagsmunaafla. Þá er útópískur veruleiki málaður upp fyrir einfalda alþýðu. Fyrir tæpum tveimur árum birtust með stuttu millibili tvær umfjallanir um íslenskan húsnæðiskostnað í fjölmiðlum. Greiningarnar komu frá talsmönnum stærstu fjármálastofnana landsins, önnur þeirra í almenningseigu.

Úr umfjöllun ríkisbankans:

„Margir vilji láta líta út sem húsnæðismál Íslendinga séu í miklum ólestri þó að það sé ekki raunin. Til að mynda sé hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum hér á landi einungis 16,5 prósent, sem er í meðallagi í Evrópu. Í samanburði sé sami kostnaður rúm 25 prósent í Danmörku.“

Úr hinni stofnuninni voru skilaboðin þessi: Róttækar breytingar á (húsnæðis)kerfi sem hafa gefist vel leggjast illa í fólk í fjármálageiranum.

Meðvirkni

Langvarandi borgarastyrjöld fylgir ónæmi, afskiptaleysi og meðvirkni yfirvalda á viðkomandi svæði. Því miður er meðvirkni íslenkra stjórnvalda í umsátursástandinu nánast fullkomin. Á höfuðborgarsvæðinu búa nú milli 4 og 5 þúsund manns í ólöglegu húsnæði í iðnaðarhverfum, bílskúrum o.s.frv. Mannfjöldinn samsvarar u.þ.b. íbúafjölda Vestmannaeyja, eða Seltjarnarness.

Þetta eru ekkert annað en nútíma fátækrahverfi sem blasa við öllum sem vilja sjá þau.
Það er enginn pólitískur metnaður um að rýma þessi fátækrahverfi, eins og gert var fyrir áratugum síðan í nágrannalöndunum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta búsetuform látið afskiptalaust á stjórnmálavakt þeirra sem kenna sig við jafnaðarmennsku. Einu sinni snerist pólitík jafnaðarmanna um laun og húsnæði. Það er löngu liðin tíð á Íslandi. Kampavínskratar klippa borða í 101. Og klappa verktökum á bakið.

Íslensk verkalýðsforysta ætlar að halda upp á aldarafmæli sitt með því að reisa ný fátækrahverfi fyrir „efanaminni leigjendur“, eins og það er orðað. Almenningi er hins vegar boðið upp á tvo afarkosti í húsnæðismálum: Ónýtan leigumarkað, eða skuldafangelsi fjármálastofnana sem henda lyklunum.

Stærsta áþreifanlega aðgerð núverandi stjórnvalda í málefnum leigjenda er salan á leigufélaginu Kletti. Aðgerðin hlýtur að vera hámark meðvirkni stjórnvalda í óboðlegum aðstæðum. Hún er olía á eld umsátursins.
Borgarastríð geta dregist á langinn. Kynslóð eftir kynslóð. Er íslenskur húsnæðisvandi náttúrulögmál?

Eða er einhver breyting í sjónmáli?

Mynd: Richard Eriksson – (CC BY 2.0)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283