Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Birgitta um stöðu fjölmiðla á Íslandi

$
0
0

Birgitta Jónsdóttir Pírati flutti í dag á Alþingi þessa ræðu í sérstökum umræðum um stöðu fjölmiðla á Íslandi:

Forseti,
Ég vil byrja á að þakka hæstvirtum menntamálaráðherra fyrir að vilja ræða við mig og þingheim um stöðu og lagasetningu í kringum fjölmiðla hérlendis en smæð samfélags okkar gerir það að verkum að fjölmiðlaumhverfið er viðkvæmt vistkerfi þar sem krosseignatengsl og vináttu- og fjölskyldubönd eru nánast alltaf viðkvæðið.

Alþingi setur lög, þar á meðal fjölmiðlalög og ber skylda til að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Það hefur sýnt sig að lög um fjölmiðlanefnd þarfnast endurskoðunar til að nefndin geti staðið undir því hlutverki sem henni var falið, en sú stofnun heyrir undir menntamálaráðherra hæstvirtan. Því vil ég kanna hvort að ráðherrann hæstvirtur sé ekki sammála mér um nauðsyn þess að endurskoða lög til að renna styrkri stoð undir starfsemi fjölmiðla hérlendis.
Mig langar að beina sjónum að valdsviði fjölmiðlanefndar varðandi tvo þætti, annars vegar ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla og hins vegar að eignarhaldi fjölmiðla.

Hlutverk fjölmiðlanefndar er að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum um fjölmiðla. Þar á meðal að tryggja að ritstjórnarlegt sjálfstæði blaðamanna sé virt.

Hver man ekki eftir greininni „Litli karlinn‘ eftir blaðamanninn Magnús Halldórsson, sem þá var viðskiptafréttastjóri Stöðvar 2 og Vísis.
(með leyfi forseta)

“Það versta er að Jón Ásgeir hefur í nokkur skipti að undanförnu, reynt með ósmekklegum hætti, að því er mér finnst, að setja þrýsting á blaðamenn með því að koma umkvörtunum, vegna sannra og löglegra frétta um hann, félög sem hann tengist og dómsmál er hann tengist persónulega, til stjórnar fyrirtækisins og æðstu stjórnenda. Svo virðist sem Jóni Ásgeiri finnist þetta eðlilegt, þar sem þetta hefur ítrekað gerst, en í ljósi þess að hann er nátengdur eignarhaldi fyrirtækisins, sem eiginkona hans er skráð fyrir sem stærsti eigandi og jafnframt stjórnarformaður, þá ætti hann að hugsa sig tvisvar um áður en þetta er gert.”

Nýlegri dæmi eru þær kvaðir sem settar voru á blaðamenn Morgunblaðsins, þar sem reynt er að þröngva stjórnmálaskoðunum upp á fólk af yfirmanni þeirra, manni sem er þekktur fyrir á valdatíð sinni að kalla fjölmiðlamenn og rithöfunda á teppið ef honum, sem þá var forsætisráðherra hugnaðist ekki umfjöllunarefni þeirra.

Forseti,
Afskipti stjórnmálamanna og æðstu valdhafa þjóðarinnar af fjölmiðlum er því miður orðin ógeðfeld viðtekin venja, enda höfum við hríðfallið á alþjóðlegum listum um fjölmiðlafrelsi, samanber nýrri samantekt blaðamanna án landamæra. Formaður fjárlaganefndar hafði í hótunum sem handhafi fjárveitingarvalds til ríkisfjölmiðilsins að fjárveitingar kynnu að skerðast ef fjölmiðillinn hagaði sér ekki samkvæmt dyttum viðkomandi þingmanns og fyrrverandi forsætisráðherra háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafur reglulega kallað blaðamenn á teppið í stjórnarráðið.

En Sigurjón M. Egilsson skrifaði nýverið eftirfarandi með leyfi forseta:

„Ráðherrann fyrrverandi hafði greiningardeild í sínu ráðuneyti. Sú greiningardeild dundaði sér við að flokka niður það sem ég sagði og skrifaði sem og ýmsir aðrir. Þetta veit ég frá fyrstu hendi. Ég var kallaður á teppið…“

Síðastliðið haust skrifaði Björn Þorláksson blaðamaður athyglisverða grein um fjórða valdið. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

“Fjölmiðlar eiga að veita ráðamönnum aðhald og almenningur veitir fjölmiðlum aðhald. Ráðherra og undirmenn hans mega aldrei ráða því hvort, hvenær eða hvernig fjallað er um æðsta stjórnvald opinberlega, þá væru fjölmiðlar áhrifa-lausar stofnanir eða öllu heldur framlenging á valdinu. Stundum styggjast peninga- og ráðamenn þegar átök verða milli valdhafa og fjölmiðla. Dæmi eru um að peningaöfl kaupi upp Fjórða valdið, kaupi upp fjölmiðil til þess eins að leggja hann niður, í því skyni að ná aukinni stjórn á umræðunni. Annað dæmi er að kaupa upp fjölmiðil, ráða nýja yfirmenn og milda svo eða breyta fyrrum gagnrýninni ritstjórnarstefnu.”

Lög um fjölmiðla og stofnanir sem hafa eftirlit með fjölmiðlum, eiga að gæta að þessum þáttum. Allir hljóta að vera sammála um það að fjölmiðlar eiga að vera frjálsir og óháðir. Lög og stofnanir þurfa að tryggja að almenningur fái upplýsingar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Þá þarf að tryggja að fjölmiðlar séu raunverulega óháðir, raunverulegt eignarhald þeirra liggi fyrir, hvaða persónur eru raunverulega á bak við eignarhluti eða lán til reksturs og eingarhalds.

Eftir síðustu Alþingiskosningar kom út skýrsla frá ÖSE. Í henni er lýst áhyggjum af samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla hér á landi, sem hún telur ógna fjölbreytni í efnisframboði. Skorað er á stjórnvöld að íhuga frekari ráðstafnir til að takmarka samþjöppun, til að koma í veg fyrir einokun og hagsmunaárekstra og kanna hvort hægt sé að setja reglur sem takmarki áhrif tiltekinna einstaklinga, fyrirtækja eða hópa á einn eða fleiri hluta fjölmiðlamarkaðarins.

Þá leggur eftirlitsnefndin til að staða Fjölmiðlanefndar verði styrkt með auknum valdheimildum og hlutverk hennar gert skýrara til að hún geti fylgt eftir fjölmiðlalögunum.

Hyggst ráðherra bregðast við tillögum ÖSE og setja alvöru takmörk á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og gera lagaáskilnað um dreifða eignaraðilid?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283