Kæra Ólöf Nordal,
Vinir mínir Dega fjölskyldan, þau Skender, Nazmine, Visar, Joniada og Viken eru nú í Albaníu og búin að vera þar í viku í dag.
Það var mjög erfitt að horfa á eftir þeim fara héðan og mikið grátið. Þau báðu um hæli hér vegna pólitískra skoðana sinna, vegna hótana og veikinda – en fengu neitun.
Núna eru þau búin að breyta umsókninni yfir í atvinnu- og námsumsókn og allt þeirra mál komið í ferli, þau komin með vinnu, húsnæði og skólavist i HR næsta vetur.
Ég heyri í þeim á tveggja daga fresti og er ekki róleg fyrr en ég veit af þeim á lífi en hljóðið í þeim er ekki gott.
Þau eru aðskilin í Albaníu, fjölskyldan hefst við sundruð á þremur stöðum við þröngan kost. Þau geta ekki verið saman vegna þess að þau eiga ekkert húsnæði og þau óttast að eitthvað hendi þau.
Ég er líka hrædd um að eitthvað komi fyrir þau, dóttir mín 14 ára er líka hrædd um það.
Ástandið er miklu verra í Albaníu nú en það var áður en þau fóru þaðan fyrir tæpu ári síðan.
Þessi fjölskylda á svo sannarlega orðið sérstök tengsl við landið okkar, marga vini, smáa sem stóra, búin að læra tungumálið, taka þátt í lífinu hér og ég get með stolti sagst vera amma þessara barna og mér líður ekki vel að vita af fólkinu mínu í þessum ömurlegu aðstæðum.
Eg hóf hungurverfall í mótmælaskyni þegar þau voru látin yfirgefa landið.
Þau senda ákall sem og ég og mín fjölskylda.
Ég bið þig í Guðs nafni að ýta á eftir því að umsóknin þeirra verði afgreidd með hraði svo þau komist aftur hingað sem fyrst. Það nístir mig í hjartað að við skulum koma svona fram við heiðarlegt og gott fólk sem mun vera landi og þjóð til sóma um ókomin ár.
Þetta opna bréf til þín verður einnig sent til fjölmiðla.
Virðingarfyllst
Hildur Þorsteinsdóttir
Ráðgjafi
Ljósmynd efst í grein/Árni Stefán Árnason