Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Af hverju ég er Pírati

$
0
0

Áður en ég hef þá frásögn langar mig að koma til ykkar þökkum og loforði.
Fyrir stuttu síðan skrifaði ég pistil. Hann fjallaði um æsku mína, strákinn minn, einelti og ADHD. Við feðgar áttu ekki von á viðbrögðunum sem birting skrifana hrundu af stað. En ástæða vinsældanna hefur verið mér mikið hugarefni.

Hákon Helgi Leifsson

Hákon Helgi Leifsson

Þúsundir manna tengdu við tilfinningarnar á bak við skrifin. Við feðgar fengum ótal skilaboða og þakkir frá ókunnugum. Margir tjáðu okkur að þau hefðu sjálf getað sett frásögnina á blað. Það er afskaplega sorglegt og særði okkur mikið að hugsa til þess hve margir hafa upplifað það sama.

Eins sýnir það okkur öllum, hversu algengt, alvarlegt og djúpstætt vandamál einelti er.

Ég heiti því og lofa, að ég mun berjast fyrir öllum þeim sem hafa og eru að upplifa hið sama og við. Auðmjúklega viljum við feðgar þakka öllum fyrir að lesa og deila greininni.

Takk fyrir að lesa, takk fyrir að deila, takk fyrir að tala saman og koma umræðunni af stað, það er fyrsta skrefið í baráttunni.

Ég var ekki viss um að ég vildi tvinna þessar frásagnir saman. Staðreyndin er hins vegar sú að æska mín og eineltið sem ég upplifði er megin ástæða þess að ég er Pírati í dag. Tilvist flokksins má beinlínis rekja til þess að við, Píratar, sættum okkur ekki lengur við ofbeldi valdhafa.

Ég geri mér grein fyrir að ofbeldi er sterkt orð, en á þessum vettvangi, þegar fólk hefur líf, hagsmuni og framtíð hundruð þúsunda á sinni ábyrgð, eru svikin loforð, spilling og eiginhagsmunagæsla einfaldlega það, ofbeldi.

Við verðum að átta okkur á að við veitum stjórnmálamönnum traust, í formi atkvæða. Traust til þess að standa við þau fögur fyrirheit sem þeir, á fjögurra ára fresti, lofa.

Hins vegar sýnir sagan, trekk í trekk, að traustið sem flokkarnir fá, hika þeir ekki við að svíkja. Eins að ekkert mun ekkert breytast nema við stöndum saman og breytum grunninum sem kerfið er byggt á.

Ég er Pírati vegna þess að…
Í samfélaginu er valdaójafnvægi, annars vegar milli okkar almennings og hins vegar, þeirra sem stjórna. Við berjumst fyrir því að leiðrétta þetta ójafnvægi. Vopnin eru gagnsæ stjórnsýsla, þannig getum við fylgst með gjörðum valdhafa. Heiðarleiki, þar sem Píratar tengjast engum hagsmunaöflum. Og gildi sem virða rétt almennings að koma að ákvörðunum sem varða þá sjálfa.

Ég er Pírati vegna þess að…
Við viljum valdeflingu almennings, líka kjósenda og fylgismenn annarra flokka, að hafa áhrif. Stjórnarskráin nýja er samin sérstaklega með það fyrir augum, að draga úr mætti ríkjandi stjórnarflokka. Gefum okkur að Sjálfstæðisflokkurinn fái ekki umboð til þess að stjórna í næstu ríkisstjórn. Þá er megin stefna Pírata að auka vald þeirra til aðhalds, ásamt almenningi öllum. Þessu berst Sjálfstæðisflokkurinn gegn.  Af hverju veit ég einfaldlega ekki.

Ég er Pírati vegna þess að…
Flokkurinn er byggður upp af fólki eins og þér. Fólki sem sýnir ótrúlegan dugnað og mikla fórnfýsi. Ekki vegna þess að það græðir á því persónulega, heldur vegna þess að það trúir á málstaðinn og vill betra land fyrir ykkur og börn.

Ég er Pírati vegna þess að…
Innan flokksins hef ég rödd. Ekki nóg með það, heldur hefur rödd mín sama mátt og annarra flokksmanna og kvenna. Já, líka þingmanna.

Ef ég hef hugmynd að stefnu sem ég tel landinu til framdráttar, þá get ég með litlum tilkostnaði, öðrum en tíma, lagt hana fram í lýðræðislegt kosningakerfi Pírata. Fái stefnan brautargengi, verður hún að stefnu flokksins. Þetta ferli er opið öllum þeim landsmönnum sem vilja skrá sig í flokkinn og taka þátt.

Ég er Pírati vegna þess að…
Ég er ekki óskeikull. Öll gerum við mistök, það er mannlegt. Mér vitandi hefur eingöngu einn þingmaður beðist afsökunar eftir að hafa orðið á. Slíkar athafnir vantar, að mínu mati, algjörlega í stjórnmál dagsins. Að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum í stað, hins hefðbundna, að beita klækjum „retóríkar“ og rökvillna, samanber: „En þegar þið voruð við völd síðast þá gerðuð þið…“.

Ég er Pírati vegna þess að…
Ég þekki sögu stjórnspekinnar. Píratar, áherslur þeirra og stefna er það sem koma skal. Hvort sem það verða Píratar eða aðrir flokkar framtíðarinnar þá eru að gerast stórfenglegir hlutir. Tími baktjaldamakks og feluleika heyra brátt sögunni til vegna upplýsingastreymis og eðli Internetsins.

Það sést einna helst á Panamalekanum og öðrum svipuðum atburðum. Valdhafar geta ekki lengur reitt sig á leyndarhyggju. Sú staðreynd þýðir einfaldlega eitt.

Ef þingmenn starfa ekki á heiðarlegum forsendum, fyrir almenning, eins og þeir eiga að gera. Þá kemst það upp, fyrr eða síðar.

Ég er Pírati vegna þess að…
Ég er almenningur. Flokkurinn er ekki byggður á kreðsa staðalímynda eða ramma félags- eða markaðshyggju. Innan flokksins er pláss fyrir alla, óháð pólitískri sannfæringu eða öðrum skoðunum. Reynsla eða menntun skiptir vart máli. Ef þú ert með góða hugmynd, þá er hún góð og fær hylli.

En aðal ástæða þess að ég er Pírati..
Er að ég er ekki hræddur lengur. Sá tími er liðinn.

Ég er Pírati vegna þess að ég brenn fyrir að leiðrétta samfélag sem hefur í áratugi verið haldið í gíslingu sérhagsmuna. Ég hef fengið nóg.

Það má vera að ég sé barnalegur, en ég trúi því þó að þetta sé hægt. Það verður enginn barnaleikur, það verður erfitt, en með þinni hjálp þá mun það takast.

Það er loforð.


Hákon Helgi Leifsson
Í prófkjöri fyrir Pírata í SV-kjördæmi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283