Það er furðulegt að sjá mann með fortíð Davíðs Oddssonar vera að reyna nota fortíðina gegn öðrum. Það er eins og maður sem dottið hefur ofan í drullupoll reyni að fela þá staðreynd með því að skvetta úr honum yfir aðra. Í rauninni er þetta samt grófara en það því Davíð gróf sinn drullupoll sjálfur, datt síðan ofan í hann og reynir síðan að busla einhverjum slettum yfir meðframbjóðanda sinn, hann Guðna, sem horfir á hann furðulostinn og skilur ekki af hverju menn myndu vilja haga sér svona.
Við erum að sjá nokkra hliðstæðu með forsetakosningunum okkar og þeim í Bandaríkjunum. Flest okkar horfa á fylgi Donald Trump og skilja ekki hvernig nokkrum gæti dottið í hug að kjósa svona mann. Svo les ég niðurstöðu könnunar sem segir að 19% landsmanna ætli að kjósa Davíð Oddsson. Þá skil ég það.
Hundfrekir kallar sem vanist hafa því að fá alltaf það sem þeir vilja virka valdsmannlegir í augum ákveðinnar manntegundar. Sú tegund fólks kýs þannig menn því þeir veita þeim öryggiskennd. Ég veit ekki með ykkur en það veitir mér enga öryggiskennd að hafa geðstirðan karl sem veit allt best og mest í brúnni og þeir sem eru ósammála eru ESB-sinnaðir Icesave-áskrifendur.
Í umræðuþættinum Eyjunni hittust þeir Davíð og Guðni hjá Birni Inga Hrafnssyni og segja fjölmiðlar að „hart hafi verið tekist á“, „Davíð gerði nokkra hríð að Guðna“ og að „Davíð gagnrýndi Guðna harðlega“.
Það var ekki það sem ég sá. Ég sá einhverja þá sorglegustu framkomu sem sést hefur í forsetakosningum hér. Davíð Oddsson komst upp með að ljúga ítrekað svoleiðis bulli upp á Guðna að meira að segja Björn Ingi hefur hugsað með sér: „Vá. Ég get enn lært mikið af þessum manni.“
Davíð sakar Guðna um að tala niður þorskastríðin, vilja borga Icesave og vilja inn í ESB. Það gerir hann í löngu máli og málar upp þá sviðsmynd að þeir sem gera svoleiðis séu ekki hæfir til að vera forseti eða til að ráða nokkrum sköpuðum hlut. Hið rétta er að Guðni hefur talað fræðilega um þorskastríðin en fræðilega útgáfan er kannski ekki eins hetjuleg og sú sem við notum þegar við erum full og grobbum okkur við útlendinga. Hann taldi útgáfuna af Icesave-samningnum sem hafnað var af Bretum og Hollendingum vera nauðasamning og þann samning skrifaði Ólafur Ragnar undir sjálfur. Við vorum síðan í samningaferli til að sjá hvað við fengjum út úr því að ganga í ESB en það var eyðilagt af núverandi ríkisstjórn og því vitum við ekki einu sinni hvað það þýðir nákvæmlega að vera „ESB-sinni“ á Íslandi.
En hversu fáránlegt er það að Davíð Oddsson noti þorskastríðin gegn einhverjum?
„Þú sagðir þetta um þorskastríðin.“
„Já, Davíð. En þú settir þjóðina á hausinn. Eigum við að ræða það?“
Ólafur Ragnar var enginn kirkjunnar maður en fann trúna þegar hann vildi verða forseti. Hvort forseti Íslands hafi verið með eða á móti Icesave eða ESB skiptir hreinlega engu máli þótt Davíð og Útvarp Saga telji þessi mál skipta Íslendingum í dygga þegna þjóðarinnar og landráðamenn.
Davíð talar lítið um sjálfan sig nema þegar hann segir af sér gamansögur sem hann hefur heyrt einhvers staðar og heimfærir á sig. Hann situr til baka og ræðst síðan á þá sem reyna að útskýra sína skoðun. Það gerir hann til að fela sig, svipað eins og stríðnispúkinn á leikvellinum. Hann hefur ekkert að bjóða svo allir aðrir skulu rifnir niður svo hann standi nú fremst.
Davíð sýndi sitt rétta andlit í þessum sjónvarpsþætti. Hann er dónalegur, hraðlyginn og ósanngjarn. Hann er sá frambjóðandi sem mestu hefur eytt í kosningabaráttunni til þessa en ég efa það að kostnaðurinn við að gefa allri þjóðinni Moggann í dag verði gefinn upp eins og reglur kveða á um. Það var allavega ánægulegt að sjá blaðið í lúgunni hjá mér í morgun. Ég hef unun af því að henda því.
Sú þjóð sem kýs hann sem forseta sinn á hann fyllilega skilið.