Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Öryrki af völdum endómetríósu

$
0
0

Kristín Ósk Óskarsdóttir skrifar.

Ég heiti Kristín Ósk og er dæmdur öryrki í dag að stórum hluta vegna sjúkdómsins endómetríósu (legslímuflakks). Ég var greind árið 2002 og var þá 21 árs, hins vegar var ég búin að þjást mikið síðan blæðingar hófust þegar ég var 13 ára gömul. Þannig að í mínu tilviki tók 8 ár að fá greiningu.

Laugardaginn 8. mars hófst átaksvika hjá Samtökum um endómetríósu og tek ég stolt þátt í þeirri viku sem einn af stjórnarmeðlimum samtakanna. Það er okkar helsta markmið að vitundarvakning eigi sér stað til þess eins að stytta greiningartímann svo að sjúkdómurinn nái ekki að grassera og valda þeirri eyðileggingu eins og við höfum margsinnis séð.

Þessi sjúkdómur hefur haft mjög afdrifarík áhrif á líf mitt en ég kýs þó að líta á hann sem verkefni sem mér var falið til að leysa. Við fáum öll okkar spil í hendurnar en það er okkar að meta hvernig sé best að spila úr þeim! :)

Ég hef farið í 10 kviðarholsspeglanir, þar á meðal í eina þar sem vinstri eggjastokkur og eggjaleiðari voru fjarlægðir. Ég á eina misheppnaða glasafrjóvgun að baki árið 2012. Ásamt því að eftir viðtal við einn af læknum Art medica nýlega, miðað meðferðina sem ég fór í 2012, þá er útlitið með barneignir ekkert sérlega bjart. Læknirinn benti á að ég gæti mögulega þurft egggjöf og er ég í rauninni ennþá að melta þær upplýsingar. Það huggar mig þó hvað tæknin er orðin gífurleg í þessum efnum.

Sjúkdómurinn hefur misjöfn áhrif á konur og eru birtingarmyndirnar margar eins og fram hefur komið. Í mínu tilfelli eru þetta krónískir verkir sem að herja á mig nánast daglega. Sem dæmi má nefna að í janúar 2014 fékk ég 1 frídag frá verkjum. Ég legg mig fram við að lifa lífinu lifandi en ansi oft þarf ég að spurja sjálfa mig að því þegar ég geri suma hluti hvort þeir séu þess virði? Daginn eftir geld ég fyrir það með því að þurfa kannski að eyða megninu af deginum föst uppí rúmi í slæmu verkjakasti. Þannig að ég þarf að velja vel! :)

Jafnframt hefur þetta oft mikil áhrif á félagslegu hliðina. Margoft hef ég þurft að hætta við á síðustu stundu að mæta í afmæli, hádegismat með vinkonum og margt fleira í þessum dúr.

Það eru ekki allir sem hafa skilning á þessu. Þetta er ekki sjúkdómur sem maður ber utan á sér og mætir maður því oft og tíðum töluverðri vanþekkingu ásamt skilningsleysi. Til dæmis í þessi einstaka skipti sem maður kannski dressar sig aðeins upp, fer í flottar og þröngar gallabuxur og hreinlega langar að vera skvísa eitt kvöld. Þá getur maður átt von á því að vera dæmdur: “Ef þér er svona illt í móðurlífinu hvernig geturðu þá verið í svona þröngum gallabuxum?”

Þetta kom í alvörunni fyrir mig og komu þessi orð frá frekar náinni vinkonu. Ég er samt ótrúlega rík af yndislegu fólki sem styður mig 150%, veitir mér allan þann skilning sem hægt er að hugsa sér og er til staðar allan sólarhringinn.

Einnig er ég í varastjórn Samtaka um endómetríósu. Samtökin erum með lokaðan hóp á facebook fyrir félagsmenn og þú finnur ekki betri stað til að tjá þig á. Þarna inni skiljja þig ALLIR!

endoplakat

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að skella sér í hvatningargöngu samtakanna fimmtudaginn 13. mars sem hefst við Hallgrímskirkju kl.17. Þetta er heimsviðburður og því frábært tækifæri til að vekja athygli á endómetríósu. Allar nánari upplýsingar er að finna hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283