Mikil vakning hefur orðið varðandi mikilvægi þess að hlúa að andlegri heilsu. Mikið hefur verið fjallað um góð áhrif hugleiðslu og svo virðist sem æ fleiri átti sig á, að hugleiðsla er ekki bara eitthvað fyrir munka og hippa heldur mikilvægt tól sem allir geta nýtt sér til góðs. Framtakið friðsæld í febrúar þar sem boðið var upp á fjöldann allan af ókeypis hugleiðslu var frábært og ég vona að sem flestir hafi nýtt sér það. Það eru nefnilega til margar gerðir hugleiðslu svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Streita er einn stærsti ógnvaldur heilsunnar og hún er alls staðar. Í árdaga var streitan mest fólgin í raunverulegri líkamlegri áhættu eins og árásum rándýra, að veiða sér til matar eða svelta. Mannskepnan varð að vera þannig úr garði gerð að geta barist eða flúið með litlum sem engum fyrirvara. Við slíkar aðstæður þróaðist taugakerfið okkar sem getur bæði hratt og örugglega virkjað þá grein ósjálfráða taugakerfisins sem kennd er við þetta “fight or flight” viðbragð. Blóðflæði eykst til útlima svo við getum hlaupið hraðar eða lamið fastar, líkaminn losar sykur út í blóðið svo við höfum orkuna í verkið, blóðþrýstingur hækkar og líkaminn losar um streituhormón eins og adrenalín til að auka snerpuna. Þetta viðbragð var forfeðrum okkar lífsnauðsynlegt og er okkur það líka en það er ekki gott að festast í því. Áður fyrr voru streituvaldarnir færri og vörðu í skemmri tíma í senn. Á milli fékk taugakerfið hvíld til að ná jafnvægi á ný.
Í dag er streitan stöðug og margvísleg. Við erum ekki að flýja undan rándýrum eða veiða loðfíl. Við erum föst í umferð, of sein í vinnuna, búin að bræða úr kreditkortinu, sein að borga reikninga, að fara í próf, með áhyggjur af börnunum, með áhyggjur af lánum, framtíð, fortíð, fjölskyldu, afkomu og svona mætti lengi telja.
Líkaminn gerir nefnilega ekki greinarmun á hver streituvaldurinn er, viðbragðið er það sama og það hefur alltaf verið. Þegar streitan er stöðug og við gerum ekkert til að takast á við hana getur það gerst að líkaminn nær ekki að skipta yfir í hina grein ósjálfráða taugakerfisins sem kennd er við að melta og hvíla (“rest and digest”). Hún er nauðsynleg til að blóðflæði sé eðlilegt til meltingarkerfis og melting geti farið eðlilega fram. Einnig til æxlunarfæra og heila svo þau svæði geti starfað sem best. Nýrnahetturnar fá hvíld frá því að dæla út streituhormónum og við forðumst að brenna þær í báða enda, blóðþrýstingur lækkar og blóðsykur leitar að jafnvægi.
Vandamálið er að mjög erfitt getur reynst að gera sér grein fyrir að maður sé fastur í þessu ójafnvægi. Það er ætlast til að allir séu með tíu bolta á lofti, í skóla og tveimur vinnum til að eiga í sig og á, vinna myrkranna á milli til að eiga fyrir leigunni, mennta sig, vinna mikið, eignast fjölskyldu, sinna áhugamálum, vinum, félagsstörfum….listinn er endalaust. Við eigum öll að vera ofurfólk sem þarf helst enga hvíld en þetta er ekki raunhæft.
Sumir þola þetta betur en aðrir en það endar alltaf með því að eitthvað lætur undan. Fólk getur samt verið fast í viðjum streitunnar árum og jafnvel áratugum saman áður en alvarleg einkenni koma fram en þá er líka oft erfitt að vinda ofan af vandanum.
Þá kem ég aftur að hugleiðslunni. Áhrif hennar á streitu hafa mikið verið rannsökuð og ítrekað sýnt fram á vísindalega mælanleg jákvæð áhrif. Það virðist ekki skipta öllu hvaða tegund hugleiðslu er iðkuð en regluleg ástundun, helst dagleg, virðist þó vera lykilatriði. Það er ekki fullkomin samhugur meðal vísindamanna hvaða lífeðlisfræðilegu áhrif eiga sér stað en flest virðist þó benda til þess að það sé einmitt með því að koma jafnvægi á þessar tvær greinar ósjálfráða taugakerfisins sem ég talaði um áðan. Hugleiðslan kemur okkur í slökunarástand sem með æfingu og ástundun verður sífellt auðveldara að ná og viðhalda.
Svo mín hvatning til ykkar er að sýna sjálfum ykkur þá virðingu og vinsemd að gefa ykkur ákveðinn tíma á hverjum degi bara fyrir ykkur sjálf. Tíma til að staldra við, vera en ekki gera, anda, njóta, slaka. Hvaða aðferð er valin skiptir ekki öllu máli, bara ef hún hentar þér.
Ég hef mest notað núvitund (mindfulness) en hún er einmitt sú tegund hugleiðslu sem hvað mest hefur verið rannsökuð. Ég ætla ekki að rekja aðferðina í þaula hér en fyrsta skrefið er bara að sitja uppréttur og veita andardrættinum fulla athygli og draga athyglina þangað aftur og aftur í hvert skipti sem hugurinn reikar. Hljómar einfalt, sem það í rauninni er, en það er meiri galdur en mann grunar að einbeita sér svo algjörlega að jafn ósjálfráðri athöfn og því að anda.
Kynnið ykkur málið. Líkami og sál munu launa ykkur ómakið.
Anda inn, anda út
Ösp