Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fermingarholskeflan ógurlega

$
0
0

Gæti ég skrifað um pólitík í þessum pistli?  Farið hamförum vegna spillingar, klúðurs, svikinna loforða og allan þann andskotans ballett?

Já, ég gæti það en mér dettur ekki í hug að þreyta sjálfa mig og aðra með því endalausa jappli.

Gæti allt eins horft á Fellini bíómynd þar sem allir eru á hugbreytandi.

Bött einívei – eníhá.

Frekar hef ég kosið að andskotans niður minningargötu þó holótt sé og ómalbikuð.

Enn á ný er fermingarholskeflan að dúndrast yfir okkur hin blásaklausu. Það er verið að ferma fólk í samlede verker þessa dagana. Bara svo það sé á hreinu, ég þoli ekki fermingar, nema kannske mína eigin, vegna þess að ég fékk svo árans mikið af gjöfum.

Ég var ekki barn sem tók upplýsta ákvörðun um hvort ég vildi fermast eður ei.  Það var bara meitlað í stein í fjölskyldu minni.  Ég var elst í stórum hópi systkina (6 systur, einn lillebror).

Ég get svo sem verið ærleg.  Ég fermdist af pjúra löngun í gjafir, peninga og í þeirri veiku von að ég yrði í alvöru sjálfstæð „fullorðin kona“ sem gæti verið úti allan sólarhringinn ef mér sýndist svo.

Ég leitaði ekki til Guðs, ekki Jesú, enda þeir bara lúðar, mögulega á himnum, sem enginn hafði séð.  Ég hefði allt eins getað rætt við veggi og strætó.

Guð var ekki í mínu liði, hann var í trúarnöttarasamtökum svo og þjóðkirkjunni, sami grautur í sömu skál.  Umboðsmenn hans voru leiðinlegir í þokkabót.

Ég hafði prest sem kenndi kristinfræðina.  Það var skemmtilegt, við tókum okkur saman og horfðum á buxnaklaufina hans í tímum og það endað alltaf með að hann rauk á buxnaklaufina til að tékka statusinn.

Ég var aldrei trúað barn eftir 12 ára aldur, mér fannst kirkjusamfélagið hafa verið sett til höfuðs mér og jafnöldrum mínum.

Þar sem ég var fysti villingurinn í minni familíu (og reyndar sá eini, en það átti eftir að koma á daginn) þá voru engin lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri höfð hvað varðað mína aðkomu að málum.

Ergó: Ég fékk engu ráðið, um klæðnað,  hárgreiðslu, meiköpp eða nokkuð annað.

Mamma fór með mig í Verðlistann (hann var fyrir eldra fólk 20 ára og uppúr).  Það var keyptur á mig grænblár blúndukjóll með gervisilki undir svo ekki sæist í þvottabrettið þar sem brjóst á eðlilegu fólki búa um sig.

Hann var þetta 5o nr. of stór og það varð að senda þessa gerviefnahrúgu til saumakonu.

Kápa: Í tísku voru svokallaðar „krullukápur“.  Líka í Verðlistanum.  Sama vandamál en hún var saumuð á fullorðna en ekki á börn – og toppurinn á hamingjunni var að hana var ekki hægt að minnka.

Ég leit út eins og miðaldra kona í tjaldi, sem hafði sloppið undan heilum hópi morðingja – við illan leik.

Best að taka fram að ég fór aldrei aftur í kápu né kjól.  ALDEREI.

Þegar ég segi að bæði greiðsla og klæðnaður hafi breytt barnslegu útliti unglings í ráðsetta heimavinnandi gifta komu með ein 12 börn, þá er ég ekki að ýkja upp á eitt einasta orð.

Hárið var sett upp í lokkagreiðslu með nellikku, ég var látin þvo mér í framan fyrir myndatöku með því loforði að ég fengi að setja á mig örlítið meiköpp að sápuskrúbbun lokinni.

Ég segi ekki að foreldrar mínir (sem vildu mér vel) hafi beinlínis gargað nananabúbú, þegar ég kom með spegilásjónu mína að lokinni skrúbbun á andliti, en ég sá að þeim fannst það ekki leiðinlegt.

Eins og sprúttsalar sögðu þau: Ekkert make-up, við vorum að plata og þess vegna eru fermingarmyndir mínar týndar og vonandi koma þær aldrei aftan að mér til að eyðleggja tilveru mína á ævikvöldi trámatísks lífs míns.

Veisla og gjafir: Veislan var haldin á heimili foreldra minna.

Flott kalt borð, fjölskyldur og nokkrar vinkonur.

Mömmu fjölskylda í einu herbergi, pabba í hinu.  Svona var það.

Það sem fór með þennan dag voru magnkaup af undirfötum frá gömlum frænkum ásamt náttserkjum úr gerviefnum frá Stellu í Bankastræti ég skipti slatta en sá þó ekki högg á vatni.

Ég var ennþá 155 cm að stærð, komin með lager af kerlingarundirfötum sem ég held að ég hafi gefið mömmu á endanum.

Á þessum tímum varð ég fullorðin að ákveðnu leyti.

Ég fékk líka peninga og í hvert skipti sem inn kom stór seðill þá sagði ég hátt og skýrt yfir samkomuna.  Nú er ég komin upp í sóandsó.  Mamma hvæsti: Þegiðu baddn!

Elsku foreldrar mínir gáfu mér gullúr (sem var á pari í öllu nægjusamara þjóðfélagi á við nútímans hesta, heimsreisur og guð má vita hvað).

Þrátt fyrir kvart og kvein unglingsins þá er ég stolt af foreldrum mínum.  Þetta var þeirra fyrsta ferming.

Tveimur árum síðar var það Greta Baldursdóttir, sem fermdist Guði, ári seinna Ingibjörg Jóna, síðan Guðlaug Björk, ári síðar Ingunn, svo Hilma, nokkrum árum síðar Gummi bróðir og á endanum Steinunn yngsta systir mín.

Það varð meiri lýðræðisbragur eftir því sem árin liðu.

En svona í restina – Ég á þrjár dætur.  Hvað með þeirra fermingar?

Tvær strækuðu, Fermingar?  þær báðar trúlausar.  Helga Björk og Sara lögðu það á sig að kanna málið, hvað lá á bak við þetta Fermingakonsept.  Ergó: Þær hafa aldrei fermst.

Millibarnið hún María Greta ákvað hins vegar að auðvitað vildi hún fermast og mig minnir að hún hafi engan dul dregið á að það væri í ekónómísku skyni þó mig gæti misminnt.

María Greta Einarsdóttir, varð því fermingarstúlka í Neskirkjunni sællar minningar, en ég man að elsta og yngsta systir hennar harðneituðu að ganga til altaris.

Mér leið eins og norn með þessa tvo svínheiðnu afkomendur og önnur þeirra hvæsti í eyrað á mér inni í þessu heilaga húsi guðs:

„Nú hefur þú nánast með valdi (tilfinngalegri kúgun) dregið okkur inn í þetta skelfilega hús, fyrr dey ég en að ganga upp að þessum grátpinnum hjá prestinum til að láta hann troða upp í mig pappa og óáfengu víni.

Ég kyngdi, með hjartað upp í hálsi og beið faktist eftir að dansinn í Hruna hæfist í Neskirkju og að ekkert okkar kæmist lifandi út.

Að kirkjugólfið myndi klofna og við myndum húrra allar þrjár niður í hreinsunareldinn, þar sem við fengjum að dúsa elífðina út.

May the force be with you, sagði Jesú í hálfum hljóðum þegar við pompuðum.

Hef ég sagt ykkur að ég hata fermingarveislur af mörgum ástæðum.

Það er alltaf vorrok með sól, ég þekki ekki kjaft (allir svo breyttir), það er ekkert til að tala um og svo er verið að opna fermingargjafir,  ég fæ majónesbragð í munninn, þannig að mér verður óglatt.

Svo setur maður oft sæta tertu á diskinn, ásamt brauðtertu.  Þetta rennur svo saman á viðkomandi diski og verður að torkennilegum rétti sem ég tengi við fermingarveislur.

Ég held að málinu sé reddað.

Ég fer ekki í neinar andskotans veislur á næstunni, nema hjá systrum mínum, enda eru þær veislur skemmtilegar.

En það er ekki öllum gefið að eiga skemmtilegar fjölskyldur og brauðtertur sem lýsa með fjarveru sinni.

Þar hafið þið það.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283