Í Kvennablaðinu birtust stundum greinarstúfar um það hvernig fegra mætti heimilið. Þetta voru gjarnan einfaldar leiðbeiningar og yfirleitt án myndskreytinga en með þeim mun ítarlegri skriflegar leiðbeiningar. Okkur fannst þessi hugmynd að gluggaskreytingu alveg ótrúlega framúrstefnuleg miðað við að þetta er birt í blaðinu rétt undir lok 19. aldarinnar. Hér er greinin eins og hún birtist.
Einkennileg gluggaprýði. Venjulegur þvottasvampur, stórgötóttur, er látinn liggja stundarkorn í sjóðandi vatni; síðan er hann tekinn upp og festur á snúru eða band. Síðan er fræi af „gleymdu mjer ei“, fjólum og stjúpmóðurblómstrum og smáum grastegundum sáð í götin. Svampurinn er svo hengdur upp í glugga og sjeð um að hann sje vökvaður í gegn einu sinni á dag; þá spretta margar smáplöntur áður 8 dagar eru liðnir, sem bráðum hylja allan svampinn. Seinna koma blöð og blómstur í ljós. Nokkrir slíkir svampar af ýmsum stærðum sem hengdir eru í stöng þvert yfir glugga, eru til mikillar prýði í herberginu. – Í miðjunni má t.d.hafa stóran svamp, sem sáð er í allt í kring „Gleymdu mjer ei“, og báðum megin allt í kring má hafa minni svampa og í þá er sáð grasfræi, fjólufræi og stjúpmóðurblómstri.
Það er ómögulegt að gera sér fyllilega í hugarlund hvernig þetta lítur út í raun og veru en við fundum til myndir héðan og þaðan sem kannski gefa okkur einhverja vísbendingu um endanlegt útlit hinnar “ Einkennilegu gluggaprýði.“
Það má auðvitað leyfa hugmyndafluginu að ráða för og prófa að sá til dæmis liljum eins og hér er gert.
Hér er líka hugmynd að fallegu gluggaskrauti sem er eitthvað í þessa veruna sem um er rætt í gömlu uppskriftinni.

Hér er engu líkara en notað sé mislitt strigagarn til að vefja utan um jarðveginn sem plantan vex í. Afskaplega fallegt.