Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 8,5% á 12 mánaða tímabili frá október 2015. Á sama tíma hefur söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 13,6%. Breytingar á leigu- og kaupverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu höfðu fylgst nokkuð náið að allt frá árinu 2011 þegar farið var að birta vísitölu leiguverðs. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birt var í morgun.
Um mitt sumar 2015 mældist töluverð lækkun á húsaleigu þannig að vísitala leiguverðs dróst töluvert aftur úr vísitölu kaupverðs og sama gerðist síðastliðið vor. Staðan er því sú að kaupverð fjölbýlis hefur hækkað um 7,5% meira en leiguverð frá upphafi ársins 2011.
Vísitala leiguverðs er byggð á þinglýstum samningum um húsaleigu og á að sýna þau leiguverð sem eru í gangi hverju sinni. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir staðsetningu og herbergjafjölda. Meðalfermetraverð er reiknað fyrir sex flokka íbúðarhúsnæðis og er niðurstaðan svo vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 12 mánuði.
Við úrvinnslu talnaupplýsinga um leiguverð er leigusamningum sem eru eldri en 60 daga við þinglýsingu sleppt og sama gildir um samninga þar sem herbergjafjöldi íbúða er ekki þekktur. Þá er samningum um félagslegar íbúðir einnig sleppt. Talnaupplýsingar um leiguverð í október 2016 eru unnar upp úr rúmlega 200 leigusamningum sem þinglýst var í mánuðinum. Fjöldi samninga er nokkuð breytilegur eftir mánuðum og því byggja mælingarnar á mistraustum grunni.
Hægt er að skoða leiguverð á einstökum stöðum innan höfuðborgarsvæðisins á grundvelli talna frá Þjóðskrá. Þá má einnig sjá aðra staði á landinu. Leiguverðið sveiflast mikið milli mánaða á öllum tegundum íbúða. Leiguverð fyrir tveggja herbergja íbúðir er alls staðar töluvert hærra en á þriggja herbergja íbúðum sem er svo líka alls staðar hærra en á stærstu íbúðunum. Sums staðar er þessi munur verulegur eins og í vesturhluta Reykjavíkur, úthverfum Reykjavíkur og á Akureyri. Munur á leiguverði tveggja og þriggja herbergja íbúða er mestur í Kópavogi, 25%, en er að meðaltali um 17%.
Munurinn á þriggja herbergja íbúðum og þeim stærri er mestur á Akureyri, 26%, en er að meðaltali 13%. Leiguverðið er hæst fyrir allar stærðir íbúða í vesturhluta Reykjavíkur og lægst á Akureyri, en annars er dreifingin þar á milli nokkuð jöfn.
Mesta breyting á leiguverði á þessum tíma er 29% hækkun tveggja herbergja íbúða í Kópavogi og þar á eftir koma stærstu íbúðirnar í vesturhluta Reykjavíkur, í Kópavogi og í Breiðholti, með 14-20% hækkun. Minnstu breytingarnar eru 3% lækkun á stærstu íbúðum á Akureyri og um 1% hækkun á tveggja herbergja íbúðum í Garðabæ og Hafnarfirði.