Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Undirbúðu þig undir foreldrahlutverkið

$
0
0

Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi skrifar.

Tilkoma barns er gleðigjafi í hverri fjölskyldu. Það sem nýbakaðir foreldrar gera sér ekki almennt grein fyrir eru þær breytingar sem verða í parsambandinu við það að verða foreldrar. Foreldrahlutverkið reynir á sambandið og samskiptin innan þess og það er ekki þannig að það að verða foreldri sé bara eitthvað sem við eigum að kunna.

Ákveðna þætti foreldrahlutverksins höfum við lært í uppvextinum, í því umhverfi sem við erum alin upp við, en aðra fræðslu þurfum við að nálgast eftir öðrum leiðum.

Rannsóknir sýna að tilfinningaþroski barns mótast af samskiptum foreldra við það og ekki síst þátttöku föður í lífi þess fyrstu árin. Hæsta tíðni sambúðarslita á Íslandi er á fyrstu þremur árum eftir barnsburð.

…fæðing fyrsta barns í parsambandi getur verið ávísun á skilnað ef ekki hefur verið staðið nógu vel að undirbúningnum.

Karlmenn hafa litla sögulega hefð í uppeldi barna sinna og það er ekki sjálfgefið að allir læri fljótt og örugglega að ala upp börn. Við þurfum því að veita körlum tækifæri til að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna strax í frumbernsku þeirra. Algengt er samkvæmt rannsóknum að feður séu óöryggir í sínu fyrsta foreldrahlutverki. Verðandi feður þurfa fræðslu til að takast á við þetta óöryggi og til að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna.

Í apríl er spennandi námskeið sem heitir  ,,Að verða foreldri“  haldið af Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd. Að sækja námskeiðið er ein leið til að efla foreldrafærni sína. Námskeiðið er bæði ætlað verðandi foreldrum og foreldrum barna allt til þriggja ára aldurs.

Foreldrar af báðum kynjum hafa lýst yfir mikilli ánægju með námskeiðið og telja það opna á margt sem þau höfðu ekki hugsað út í áður varðandi foreldrahlutverkið. Jafnréttisráð hefur fagnað þeirri hugmyndafræði um virka þátttöku beggja foreldra í umönnun barnsins sem unnið er út frá á námskeiðinu. Fræðsla sem þessi er mikilvægur liður til að auka meðvitund og stuðla að jafnrétti kynjanna og stuðla að því að þátttakendur verði hæfari til að takast á við kröfur um samþættingu fjölskyldulífs og vinnumarkaðar.

Í nýrri bók, Eftir skilnað – um foreldrasamstarf og kynslóðatengsl, eftir dr. Sigrún Júlíusdóttir og Sólveigu Sigurðardóttur félagsráðgjafa er fjallað um hvernig koma má í veg fyrir skilnað fólks sem á börn. Þar segir: ,,Vitað er úr tölfræðilegum gögnum, allt frá því að miðja síðustu öld, að fæðing fyrsta barns í parsambandi getur verið ávísun á skilnað ef ekki hefur verið staðið nógu vel að undirbúningnum.“ (Cowan og Cowan, 1999; Gottman og Gottman, 2007)”.

Námskeiðið ,,Að verða foreldri“ er haldið í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu í Reykjavík 26. og 27. apríl frá kl. 10.00–16.30 báða dagana. Verð er 35.000 krónur fyrir parið, en 28.000 krónur ef gengið er frá skráningu fyrir 13. apríl.
Skráning hjá RBF í síma 525-5200 og rbf@hi.is

Kennarar á námskeiðinu eru Ástþóra Kristinsdóttir ljósmóðir, Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi og Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir leikskólakennari.

 

Ljósmynd „Parent’s Joy“ eftir Leonid Mamchenkov


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283