Bíó Paradís stendur fyrir bókaupplestri í dag, 14. desember, klukkan 20.00 að Hverfisgötu 54. Rithöfundar stíga fram og lesa upp úr bókum sínum. „Það verður hugguleg jólastemning í bíóinu; piparkökur og konfekt, kaffi og jólabjór. Kíktu við og upplifðu skemmtilega upplestrastund í Bíó Paradís, huggulega kaffihúsinu / barnum við Hverfisgötu!“ segir í viðburðartilkynningu bíósins.
Jólamyndin Die Hard verður svo sýnd á föstudags og laugardagskvöld. Þegar er uppselt á föstudagssýninguna skipuleggjendum til mikillar gleði. „Við erum alveg bit!“ segir í fréttabréfi Bíó Paradísar. Á viðburðarlýsingu jólasýningarinnar segir að Die Hard sé einhver albesta jólamynd allra tíma. „Um er að ræða fyrstu kvikmyndina um lögreglumanninn John McClane sem tekst alltaf að vera á röngum stað á röngum tíma en bjargar auðvitað málunum. Hans Gruber og hryðjuverkafélagar hans eiga ekki séns í Nakatomi-turninum þessi jól frekar en nokkur önnur.“
Die Hard var tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna, fyrir klippingu, hljóð, hljóðbrellur og brellur og hefur verið nefnd ein besta hasarmynd allra tíma.