Harpa Einarsdóttir skrifar:
Það kemur fyrir að ég vakni um miðja nótt og byrji að skrifa pistla sem aldrei líta dagsins ljós, en ritstýra þessa ágæta fjölmiðils hefur þó fengið að skemmta sér við skrif mín, t.d. þá áætlun mína að breyta álverinu í Straumsvík í skemmtigarð, ég guggnaði þó að á að láta þann pistil flakka og tel mig vera færari að tjá mig um andans efni og menningu en rita pólitíska ádeilu.
Ég hef ekki verið feimin að koma til dyranna í mínum skrifum eins og ég er klædd, og í þetta sinn er ég í snjakahvítu, eign þvottahúss spítalanna, aukahlutir eru þvagleggur, vökvi í æð og glæsilegir náraháir teygjusokkar. Ég fór einmitt á tískuvikuna í París í október þar sem ég var að kynna nýju fatalínuna mína, sem varð svo til þess að ég hef eytt talsvert miklum tíma í sloppi undanfarið, en þó ég lifi og hrærist í heimi tískunnar þá mun ég nú róa á önnur mið í þessari grein. Vil taka það fram að ég er ekki veik, var bara kölluð í litla aðgerð á Landspítalanum þar sem ég er búin að vera á biðlista í mörg ár, og ég er algjörlega agndofa yfir öllu stórkostlega starfsfólkinu og þjónustunni sem við búum að þrátt fyrir að heilbrigðiskerfið sé að hruni komið.
Í dag er mér því efst í huga mikið þakklæti, en ég hef eytt síðustu tveim mánuðum inni á ríkisstofnunum, meðal annars Vogi, þar sem ég var greind með heilasjúkdóminn alkohólisma. Edrúdagurinn minn er 26.10.16. Ég var búin að daðra við að taka þetta skref í langan tíma, en var ekki tilbúin að kýla á þetta fyrr en nú í mínum mini alkakomplexum. Ég hef áður opnað á umræðu um geðhvörf og heimilisofbeldi, því þá ekki um alkóhóllisma og velferðarkerfið okkar, ég hef aldrei skilið fordóma gagnvart slíkri umræðu og það er mun flottara að leita sér hjálpar en ekki og alls engin skömm að því. Það er bara kúl að vera edrú og óvirkir alkar eru upp til hópa magnaðir einstaklingar!
Við erum með eina bestu og ódýrustu meðferðarstofnun í heimi, og ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þetta alla leið – Vog í 13 daga og Vík í kvennameðferð í 28 daga. Þessi stofnun er að gera kraftaverk og bjarga lífi fólks á hverjum degi. SÁÁ er vanmetin stofnun og fordómar gagnvart þessum sjúkdómi eru löngu úreltir.
Ég var á Vogi þegar kosið var en við alkarnir fengum að fara í rútu frá Vogi til að kjósa, það var einstaklega fögur „Englar alheimsins“-upplifun sem ég gleymi seint.
En talandi um kosningar, hvað er að frétta? Afhverju er Bjarni Ben enn að spóka sig um alveg í sjokki yfir að ýmsir aðilar skuli tjá sig opinberlega um stöðu mála, er hann staðnaður í hugmyndinni um „Gamla Ísland“? Hann er bara alveg bit að þjóðin skuli ekki vera sátt við fjárlagafrumvarpið og að við séum hissa á að kirkjan fái hærri framlög en heilbrigðismálin þrátt fyrir meintan vilja þjóðarinnar. Að mínu mati er kirkjan sem ríkisrekin stofnun orðin úrelt, ég hef persónulega ekkert á móti henni sem slíkri, en það eru breyttir tímar og þörf á breyttum áherslum í þessum málum.
Er ekki tími komin á að „yfirstéttin“ fari að hugsa sinn gang og axla ábyrgð í ljósi þess að það er algjör sundrung í þjóðfélaginu, allir stjórnmálamenn skíthræddir við að vera teknir fyrir af almenningi og fjölmiðlum, enda myndun ríkistjórnar orðin að lélegum farsa. Það er kominn tími á róttækar breytingar og samstöðu! Óttinn kemur engum áleiðis, við þurfum fyrst og fremst að setja í forgang almannahag, heilbrigðis-, velferðar-, umhverfis-, mennta- og húsnæðismál!
Sérhagsmunir og stjórnmálamenn sem leita undir þeirra væng eru ekki farsæl þróun, við þurfum réttlátt skattakerfi, tekjudreyfingu og jöfnuð. Það er svo mikil grasserandi spilling alstaðar; meir að segja dómskerfið er rúið trausti.
Við þurfum að auka réttlæti í nýtingu takmarkaðra auðlinda okkar og færa inn í þjóðarbúið. Efla þarf til muna styrki til skapandi greina og nýsköpunar. Ísland er þekkt fyrir endalusa uppsprettu sköpunarkrafts, við verðum að virkja þann fjársjóð betur, og styrkja framúrskarandi einstaklinga til frekari sigra á heimsvísu. Við þurfum að sýna frumkvæði í náttúruvernd og vera róttækari í þessum málum.
Alþingi þarf að fara í meðferð – og við öll í Alanon!
————————————–
Lestu meira eftir Hörpu hér að neðan: